Slaufunarmenningin tröllríður íslensku samfélagi

frettinInnlendar1 Comment

Tekur þú þátt í slaufunarmenningunni (cancel cuture) ?

"Í slaufunarmenningu felst útskúfun einstaklinga vegna sjónarmiða eða hegðunar. Hún er réttlætt á hverjum tíma vegna samfélagslegra sjónarmiða eða í baráttu fyrir einstaka hópa í samfélaginu og tengist því óhjákvæmilega pólitík.

Slaufunarmenningin var allsráðandi í kommúnistaríkjum austantjalds og talin nauðsynleg til að verja samfélagsgerð sósíalismans. Slaufunarmenning er birtingarmynd stjórnlyndis.

Nú um stundir birtist slaufunarmenningin okkur einkum þegar kemur að baráttu ýmissa hópa. Sumir líta á að samfélagið samanstandi af hópum en ekki einstaklingum. Stærsti hópurinn í augnablikinu eru konur. Einar Kárason, einn af örfáu félagsmönnum Samfylkingar sem ber eitthvert skynbragð á mannlegt samfélag, gagnrýndi velþóknun og réttlætingu margra á slaufunarmenningunni í kjölfar útvarpsþáttar á Rás 1. Margir merkir menn úti í hinum stóra heimi, eins og Jordan Peterson, hafa bent á hætturnar sem fylgir slaufunarmenningunni og telja hana ógn við hið frjálsa lýðræðissamfélag.

Það sem margir virðast ekki átta sig á að slaufunarmenningin er ekkert annað en venjulegur fasismi. Og segir okkur einnig að fasisminn getur þrifist í frjálsum lýðræðisríkjum, samanber McCarthyisminn í Bandaríkjunum á sínum tíma. Fasisminn er andstæðan við frelsið enda stjórnlyndisstefna og ef við beygjum ekki af þessari braut er stutt í að við veifum frelsinu svona í kveðjuskyni. En kannski er frelsið óþarft og jafnvel skaðlegt í huga einhverra.

Það hefur aldrei verið erfitt að réttlæta útskúfun á hverjum tíma fyrir þá sem telja einstaklinginn og frelsi hans engu máli skipta. Líta svo á að þeir séu að búa til betra og sanngjarnara samfélag. Telja jafnframt að þeir séu göfugir og gáfaðir enda standa háskólar mjög framarlega í slaufunarmenningunni. En þeir eru ekki að búa til betra og sanngjarnara samfélag og óvíst er hversu göfugir og gáfaðir þeir eru. Kannski eru þeir bara sjálfmiðaðir og geta ekki á heilum sér tekið nema allt sé eins og þeir vilja hafa það.

Soffía frænka er víða en hún er bara góð í hófi."

Höfundur er Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

One Comment on “Slaufunarmenningin tröllríður íslensku samfélagi”

Skildu eftir skilaboð