Brynjar Níelsson: Yfirvöld munu takmarka frelsi vegna hamfarahlýnunar

frettinInnlendar

Brynjar Níelsson skrifar á facebook síðu sinni að hann sé frelsinu feginn. Þar á hann líklega við að hann sé ekki lengur þingmaður og geti nú sagt hvað sem er þó hann hafi ávallt verið óhræddur við að tjá sínar skoðanir, vinsælar jafnt sem óvinsælar. Hann segir að hinar áður óvinsælu sóttvarnarskoðanir hans og Sigríðar Andersen virðist nú fagna meiri vinsældum. Hann spáir því að yfirvöld muni áfram reyna að takmarka frelsi og réttindi fólks vegna inflúensunnar og hamfarahlýnunar:

„Nú fjölgar þeim sem efast um allar þessar sóttvarnaraðgerðir, meira að segja Björn Ingi á Viljanum. Ég var farinn að halda að Bingi væri byrjaður að staupa aftur, en svo mun ekki vera. Ég og frú Andersen höfum verið púuð niður undanfarin misseri fyrir að tala fyrir frelsi og réttindum manna og leyft okkur að efast um að nauðsynlegt væri að ganga svo langt í sóttvarnaraðgerðum og gert var.

„Það er þekkt í sögunni að stjórnvöld hafi fundið með tiltölulega auðveldum hætti réttlætingu fyrir að takmarka frelsi og réttindi borgaranna. Og síðan er gengið á lagið. Nú má búast við skæðri flensu þótt enginn viti það með vissu. Því þurfum við áfram að vera með meiri íþyngjandi takmarkanir en aðrir. Allt okkar líf snýst jú um Landspítalann og vellíðan fólks þar. Það er eins og enginn annar geti sinnt heilbrigðisþjónustu nema LSH. Þegar þessi veirufjandi er horfinn ætla ég að spá því að stjórnvöld muni ganga mjög langt í takmörkun á frelsi og réttindum manna með vísan til hamfarahlýnunar þótt það hafi verið miklu hlýrra hjá okkur fyrir nokkur hundruð árum.

Annars skil ég ekkert í því af hverju er verið að skammast í Þórólfi núna. Það er ríkisstjórnin sem tekur ákvarðanir og ber ábyrgðina. En það er gott að við eigum miklu betri sóttvarnasérfræðinga en aðrar þjóðir.
Djö er gott að vera frjáls maður."