Þetta er búið spil: Pakkið saman og flytjið aftur í torfkofana

frettinPistlar

Aðsend grein:

Guði sé lof fyrir Mark Lynas, blaðamanninn sem fann 3 þúsund rannsóknir með leitarorðunum „loftslagsbreytingar" og „hnattræn hlýnun", bjó til algrím með leitarskilyrðum sem hentuðu málstaðnum, leitaði svo að ákveðnum orðum og fékk út að 99.9% rannsókna sýna sömu niðurstöðuna; loftslagsbreytingar má rekja til okkar mannanna!

Núna á að færa sig uppá skaftið og hætta með 97% möntruna – sem er búið að hrekja hvað eftir annað – og tala um 99.9% í von um að almenningur (og sérstaklega börn) verði nógu hræddur í þetta skiptið. Það er rangnefni að kalla þetta rannsókn en fjölmiðlar, stjórnmálamenn, aktívistar og aðrir munu allir vísa í þessa svokölluðu rannsókn máli sínu til stuðnings.

Þessi samantekt lyktar af staðfestingarhlutdrægni (e. confirmation bias) í ljósi þess að aðalhöfundur hennar er ekki vísindamaður heldur blaðamaður sem skrifar eingöngu um loftslagsmál. Aðferðafræðin sem hann beitir er mjög gölluð og rannsóknir sem sýna 99.9% fullvissu um eitthvað eru yfirleitt ekki marktækar því rannsakandinn á það til að velja breytur og aðferð sem styðja við fyrirframgefna kenningu og\eða skoðun. Allir sem hafa grunnskilning á aðferðafræði vita þetta.

Ekki er skoðaður stigsmunur á þessum rannsóknum, sem þýðir að ef rannsókn fjallar um áhrif manna á loftslagið er ekki gerður greinarmunur á því hvort rannsóknin segi að áhrifin séu eingöngu af mannanna völdum eða að örlitlum hluta. Sjálfar rannsóknirnar voru ekki skoðaðar heldur var notuð leitaraðferð til að finna ákveðin orð í titlinum og kynningartextanum í hverri rannsókn. Aðferðafræði og niðurstöður þessara rannsókna voru ekki skoðaðar og því er þessi samantekt Mark Lynas með öllu ómarktæk og stjórnvöld eiga ekki að vísa í hana máli sínu til stuðnings fyrir harðari aðgerðum í loftslagsmálum.

Sumir myndu segja að það væri algjör tilviljun að þessi samantekt birtist tæpum tveimur vikum áður en samningamenn frá nánast öllum ríkjum heims hittast á tveggja vikna loftslagsráðstefnu í Glasgow. Aðrir myndu segja að þetta væri einfaldlega pöntuð samantekt með fyrirframgefna niðurstöðu til að réttlæta harðari aðgerðir ríkja á ráðstefnunni.

Katrín Jakobsdóttir mun ekki láta sitt eftir liggja og mun reyna að sannfæra almenning um ágæti skatt- og bannstefnu til að bjarga heiminum. Þetta verður gott veganesti fyrir hana í stjórnarmyndunarviðræðunum og í nýja umhverfis- og loftslagsráðuneytinu sem mun herða ólina á almenningi næstu fjögur árin.