Fimm hundruð manna samkomubann, grímuskylda og stytting opnunartíma

frettinInnlendar

Fimm hundruð manna samkomutakmarkanir taka gildi næsta miðvikudag og tekin verður upp grímuskylda frá og með morgundeginum.

Grímuskylda verður meðal annars tekin upp í verslunum og þar sem ekki er hægt að virða eins metra nálægðarreglu. Þá verður opnunartími veitinga- og skemmtistaða styttur um tvo klukkutíma. Opið verður til ellefu og allir verða vera farnir út fyrir miðnætti. Reglugerðin verður í gildi í fjórar vikur.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Allt að 1500 geta komið saman að því gefnu að allir hafi farið í hraðpróf og beri grímur. Það sé því ekkert því til fyrirstöðu að jólatónleikar fari fram og leikhús haldi starfsemi áfram sömuleiðis.

Náðuðu þið samstöðu um þetta?

„Það voru svona deildar meiningar um niðurstöðuna en ábyrgðin er hjá mér svo ég ber ábyrgð á niðurstöðunni.“

Aðspurð um hvaða leið aðrir ráðherrar sem voru ósammála þessari ákvörðun hafi talað fyrir segir Svandís að þeir þurfi að tala fyrir sig.

Hún bætir við að minnisblað sóttvarnalæknis hafa verið öðruvísi en áður. Til að mynda hafi hann farið yfir fyrri takmarkanir og lagt til að horft yrði til hverrar fyrir sig eða þeim blandað saman. Hún hafi valið að fara vissan meðalveg og upplýst Þórólf um það.

Aldrei fleiri greinst á einum degi

167 greindust innanlands með Covid-19 í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring. Sextán eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, en voru sautján í gær. Fimm eru á gjörgæslu.

„Ef við gerum ekkert lendum við bara illa í því og þá förum við að lenda í verulegum vandamálum á spítölunum,“ sagði sóttvarnalæknir í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Vitað sé hvað þurfi að gera til að komast fyrir bylgjuna þar sem fyrri ráðstafanir hafi virkað til að hægja á faraldrinum.

„Við verðum bara að gera það, hvort sem okkur líkar betur eða verr,“ sagði Þórólfur. Sóttvarnalæknir tilkynnti fyrr í dag að hann mæli nú með því að allir sextán ára og eldri fái þriðja skammt bóluefnis gegn Covid-19.

Í tilkynningu sagði hann að Covid-19 tilfellum haldi áfram að fjölga og farið sé að bera á auknum alvarlegum veikindum, innlögnum og aukinni þörf fyrir gjörgæslumeðferð. Þess vegna sé gagnsemi örvunarbólusetningar til að efla varnir fólks orðin klár.

Visir greindi frá.