Ríkissaksóknarar ellefu ríkja höfða mál gegn ríkisstjórn Biden

frettinErlent

Ríkissaksóknarar í ellefu ríkjum Bandaríkjanna hafa höfðað málsókn gegn ríkisstjórn Biden til að reyna að koma í veg fyrir að krafa ríkisstjórnarinnar um skyldubólusetningar í stærri fyrirtækjum nái fram að ganga. 

„Þessi skylda stenst ekki stjórnarskrána, hún er ólögleg og óskynsamleg," segir í dómsskjölunum. Dómsmálaráðherrann Eric Schmitt frá Missouri leiddi hópinn sem höfðaði málið, og fékk til liðs við sig bæði einkafélög og félagasamtök.

Síðastliðinn fimmtudag veitti ríkisstjórnin stærri fyrirtækjum lokafrest til 4. janúar nk. til að innleiða skyldubólusetningu gegn Covid ellegar er þeim skylt að senda starfsfólk sitt  í sýnatökur vikulega.

Gert er ráð fyrir að nýju reglurnar, sem gilda um fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri, nái til 84 milljóna starfsmanna, þar af um 31 milljóna sem eru óbólusettir.

Málsóknin var höfðuð  fyrir áfrýjunardómstóli í Missouri sl. föstudag og ríkin sem taka þátt eru: Missouri, Arizona, Nebraska, Montana, Arkansas, Iowa, Norður Dakota, Suður Dakota, Alaska, New Hampshire og Wyoming. 

New York Times fjallaði um málið.