Fyrirtæki með hraðpróf rannsakað – áformar að selja DNA úr viðskiptavinum

frettinErlent

Fyrirtæki á Bretlandi sem býður upp á Covid-19 hraðpróf fyrir flugfarþega er til rannsóknar af gagnaverndareftirliti Bretlands vegna áætlana um að selja pinna sem innihalda DNA viðskiptavina til rannsóknaraðila. Fyrirtækið hefur tekið um þrjár milljónir sýna.

Cignpost Diagnostics er fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum, samþykkt af ríkinu, og býður upp á hraðpróf undir nafninu ExpressTest. Fyrirtækið hefur nú sagst ætla að greina sýnin til að „læra meira um heilsu fólks," til að þróa lyf og vörur eða selja upplýsingar til þriðja aðila. Þetta kemur fram í skjölum Cignpost Diagnostics. Á síðu fyrirtækisins segir aftur á móti að pinnum sem notaðir hafa verið í sýnatöku sé fargað og aðeins notaðir til að taka sýni vegna COVID-19.

Greining á viðkvæmum heilsufarsupplýsingum má samkvæmt lögum í Bretlandi aðeins framkvæma ef skýrt upplýst samþykki liggur fyrir. Viðskiptavinum sem bókað hafa sýnatökur í gegnum expresstest.co.uk var ekki skýrt frá því að sýni þeirra yrðu notuð í öðrum tilgangi en að taka Covid-19 sýni. Þess í stað voru þeir beðnir um að merkja við reit sem samþykkir 4876 orða persónuverndarstefnu, með hlekk sem leiðir yfir í annað skjal og  útlistar „rannsóknaráætlun þess."

Heimild.