Dönsk fyrirtæki fá leyfi til að skoða bólusetningastöðu starfsmanna

frettinErlent

Í Danmörku er við lýði kerfi vottorðs, coronapas, sem er gilt ef einstaklingur er fullbólusettur, með staðfestingu á að hafa veikst af Covid-19 undanfarna 180 daga að hámarki eða með neikvætt próf sem er að hámarki 72 klst (hraðpróf) eða 96 klst (PCR-próf) gamalt. 

Samkvæmt lagafrumvarpi sem nýtur nú hraðmeðferðar í danska þinginu og hefur þar breiðan stuðning verður dönskum fyrirtækjum frá og með föstudeginum heimilt að krefja starfsmenn sína um staðfestingu á gildu vottorði áður en þeir koma inn á vinnustað sinn og fjöldi fyrirtækja hefur nú þegar gefið út að þau muni gera það.

Frettin.is barst skeyti frá einstakling búsettum og starfandi í Danmörku sem segir að atvinnurekandi hans muni bjóða upp á sérstaka límmiða fyrir fullbólusetta starfsmenn til að setja á aðgangskort sín. Þar með þurfi ekki að framvísa vottorði í móttökunni og auðveldara verður að halda úti eftirliti á bólusetningastöðu starfsmanna. 

Danska heilbrigðiskerfið er undir miklu álagi þessa dagana vegna skorts á hjúkrunarfræðingum sem hafa staðið í verkfallsaðgerðum í haust auk ýmissa sjúkdóma, meðal annars Covid-19 en einnig óvenjumargra af öðrum ástæðum miðað við árstíma að sögn spítalanna.

Mögulega mun hið aukna erfiði sem nú er lagt á óbólusetta aðstoða yfirvöld við að ná markmiði sínu um bólusetningu 90% fullorðinna fyrir jól. Áður hefur verið fjallað um það á þessum vettvangi að ýmis óþægindi og ýmsar hindranir sem lagðar eru á óbólusetta komi smitútbreiðslu ekki við heldur sé ætlað að vera hvati til bólusetningar.