Ráðstöfun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur í úthlutunarmálum er ólögmæt

frettinPistlar

Fréttin.is vakti miðla fyrst athygli á því í fyrradag, eftir ábendingu frá einstæðri móður, að Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur krefðist bólusetningavottorða af fólki sem þangað leitaði til að fá aðstoð. Þeim sem ekki geta sýnt fram á vottorð er meinaður aðgangur að húsnæðinu en mega þó sækja poka utandyra. 

Karl Hrannar Sigurðsson lögfræðingur sem starfar sem ráðgjafi á sviði persónuverndar skrifaði þennan pistil um málið á vísi í dag:

Friðhelgi bólusettra

Í vikunni bárust fréttir af þeirri ráðstöfun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur að kalla eftir bólusetningarvottorði frá þeim sem ætla að koma inn í úthlutunarstöð nefndarinnar. Að sögn formanns hennar er það gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sjálfboðaliðar smitist af hinni umtöluðu veiru. Af augljósum ástæðum eru það einungis bólusettir sem framvísa upplýsingum um bólusetningu. Um skoðun nefndarinnar á þeim upplýsingum gilda ótvírætt lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“). Í þessari stuttu grein rekur höfundur ástæður þess að ráðstöfun nefndarinnar samræmist ekki persónuverndarlögum.

Heimild í persónuverndarlögum þarf að vera til staðar

Til þess að skoðun á vottorðum einstaklinga geti farið fram þarf heimild í persónuverndarlögum að vera til staðar. Slík heimild getur til dæmis verið samþykki einstaklinga eða að hagsmunir annarra vegi það þungt að rétt þykir að ganga á friðhelgi annarra einstaklinga.

Eflaust munu flestir sem leggja leið sína í úthlutunarstöð nefndarinnar sýna bólusetningarvottorðið án vandkvæða, þ.e. samþykkja að sýna það. Samþykkið myndi þó ekki standast kröfur persónuverndarlaga, enda er bólusetningarvottorðið skilyrði fyrir komu á úthlutunarstöðina og er þá um þvingað samþykki að ræða.

Til skoðunar kæmu þá hagsmunir annarra, en líkt og áður er rakið hefur formaður nefndarinnar vísað til þeirrar hættu að sjálfboðaliðar smitist við störf sín. Ekki verður um það deilt að markmiðið er málefnalegt og lögmætt. Á móti kemur að ráðstöfunin, þ.e. að skoða vottorð bólusettra, þarf að vera nauðsynleg til þess að ná því markmiði, þ.e. að tryggja heilsu sjálfboðaliða.

Hættan af bólusettum einstaklingum er líka til staðar

Sóttvarnalæknir minntist á þá staðreynd á dögunum að bylgjan sem nú geisar er ekki drifin áfram af óbólusettum einstaklingum. Taldi hann forsendur til að mismuna einstaklingum ekki vera til staðar, enda smita bólusettir út frá sér líkt og þeir sem eru óbólusettir. Af því leiðir að hættunni fyrir sjálfboðaliða Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur verður ekki afstýrt þótt þangað komi einungis bólusettir einstaklingar. Skoðun nefndarinnar á bólusetningarvottorðum er því ekki nauðsynleg ráðstöfun og telst með sömu rökum ólögmæt.