Jóhanna Sigurðardóttir furðar sig á skiptingu ráðuneyta – ávísun á óstöðugleika

frettinInnlent

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, furðar sig á ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar að stokka rækilega upp í ráðuneytum landsins og fjölga þeim þar að auki. Slíkt sé í hrópandi ósamræmi við niðurstöðu rannsóknarskýrslu sem unnin var fyrir Alþingi í kjölfar efnahagshrunsins þar sem fram kom að betra væri að fækka ráðuneytum og styrkja þau. Jóhanna skrifar um þetta á Facebook.

„Í rannsóknarskýrslu til Alþingis um hrunið 2008, sem unnin var undir forystu Páls Hreinssonar, var ein tillagan að fækka ráðuneytum og stækka, því mörg hver væru of lítil og vanmáttug til að takast á við verkefni sín. Eftir þessu fór ríkisstjórn Samfylkingar og VG á árunum 2009-2013 og stækkaði og fækkaði ráðuneytum og ráðherrum niður í átta.“

Jóhanna segir að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri Grænna gefi þessari tillögu Páls langt nef með því að kljúfa ráðuneyti og fjölga þeim.

„Þessi ríkisstjórn undir forystu VG gefur þessari tillögu langt nef og bæði klífur upp ráðuneyti og fjölgar. Það sem líka vekur furðu er að VG skuli afhenda íhaldinu umhverfis-og loftlagsmálin, vegna þess að íhaldið hefur barist kröftuglega í heilan áratug gegn rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Og ekki síður að íhaldið mun einnig fara með loftslagsmálin, en aðgerðir á því sviði munu geta ráðið úrslitum um hvort lífvænlegt verður á jörðinni í náinni framtíð.“

Meðal þess sem bent var á í rannsóknarskýrslunni að styrkja þyrfti ráðuneytin og var þar lagt til að ráðuneyti yrðu sameinuð.  Með því mætti einfalda samstarf í ríkisstjórn og mynda sterkar einingar í hverju ráðuneyti.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn sögðu tilfærslur ráðuneyta kalla á óstöðugleika

Rannsóknarskýrslan kom út árið 2010 og var gífurlega umfangsmikil.  Engu að síður seldist hún eins og heitar lummur um tíma. Meðal viðbragða þáverandi ríkisstjórnar var að fækka ráðuneytum og ráðherrum og sagði í pistli Jóhönnu á vef stjórnarráðsins af því tilefni í janúar 2012:

„Ríkisstjórnin hefur á liðnu kjörtímabili staðið fyrir umfangsmestu breytingum á Stjórnarráði Íslands í lýðveldissögunni. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kallaði á slíkar breytingar og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er að finna metnaðarfull áform um fækkun ráðuneyta.“

Þar er einnig vísað til mótbára sem hafi borist frá þáverandi stjórnarandstöðu á þingi sem samanstóð þá meðal annars af Sjálfstæðisflokki sem í dag er í ríkisstjórn:

„Nú þegar hefur ráðherrum ríkisstjórnarinnar verið fækkað í 9 og áformað er að ganga skrefinu lengra síðar á þessu ári. Þá verða ráðherrar orðnir 8, en voru 12 í upphafi kjörtímabilsins. Stjórnarandstaðan hefur reynt að setja þessar umfangsmiklu breytingar í neikvætt ljós og er því haldið fram að svo tíðar ráðherrabreytingar valdi óæskilegum óstöðugleika sem skaði Stjórnarráðið. Það hefur jafnvel verið gefið í skyn að hér sé um eitthvert einsdæmi að ræða.

Vegna þessa er rétt að undirstrika að þrátt fyrir þessar miklu breytingar á umfangi og skipulagi Stjórnarráðsins eru ráðherrabreytingar í tíð núverandi ríkisstjórnar umtalsvert færri og umfangsminni en þær breytingar sem gerðar voru á kjörtímabilinu á árunum 2003-2007. Þá voru fimm sinnum gerðar breytingar á ríkisstjórnum, þrátt fyrir að ekki væri verið að vinna í mikilli fækkun ráðuneyta eins og nú. Þá gegndu fjórir einstaklingar embætti utanríkisráðherra og þrír einstaklingar embætti forsætisráðherra á einu og sama kjörtímabilinu. Fram til þessa hef ég ekki heyrt liðsmenn Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks eyða mörgum orðum á meintan óstöðugleika sem þessu hlýtur að hafa fylgt, ekki síst tíð skipti á forsætisráðherra, ef marka má orð þeirra núna.“

Eyjan greindi frá.