Hvaða vanda leysa bóluefnapassar?

frettinPistlar

Þessi greini eftir Jón Ívar Ein­ars­son lækni og prófessor við Harvard og Erl­ing Óskar Kristjáns­son verkfræðing birtist í Morgunblaðinu í dag:

„Það finn­ast eng­in áreiðan­leg gögn sem styðja staðhæf­ing­ar um að óbólu­sett­ir séu lík­legri til að smit­ast af Covid-19.“

Eft­ir tæp­lega tvö ár af tak­mörk­un­um og frels­is­skerðingu eru marg­ir farn­ir að sýna merki langþreytu. Fólk venst aðgerðunum og fær æ rót­tæk­ari hug­mynd­ir um hvernig megi hefta út­breiðslu veirunn­ar og draga úr álagi af heil­brigðis­kerf­inu, í von um að end­ur­heimta eðli­legt líf – fyr­ir sig sjálft.

Ný­lega hafa heyrst radd­ir um að hér­lend­is verði tek­in upp mis­mun­un­ar­stefna í formi svo­kallaðra bólu­efnapassa. Bólu­efnapass­ar af­nema jafn­rétt­is­regl­una, sem er ein und­ir­staða vest­ræns sam­fé­lags. Þeim er ætlað að kúga fólk til að þiggja lyf gegn eig­in sam­visku og grafa þannig und­an frelsi fólks til að ráða yfir eig­in lík­ama og heilsu. Þeir eru notaðir til að skerða rétt fólks til að afla sér mennt­un­ar og vinna fyr­ir fjöl­skyldu sinni. Allt þetta vegna veiru sem er nú með dán­artíðni um eða und­ir 0,1%.

Tals­menn stefn­unn­ar halda því fram að óbólu­sett­ir séu lík­legri til að smit­ast, bera smit, leggj­ast inn á spít­ala og dvelji þar leng­ur að jafnaði. Þeir trúa því að pass­arn­ir leysi þessi vanda­mál. Vert er að staldra við og spyrja sig hvort þess­ar for­send­ur séu rétt­ar og byggðar á traust­um vís­inda­leg­um grunni.

Eru óbólu­sett­ir lík­legri til að smit­ast?

Tals­menn bólu­efnapassa halda því iðulega fram að óbólu­sett­ir séu þre­falt lík­legri til að smit­ast en sótt­varna­lækn­ir hef­ur talað um að bólu­sett­ir séu 50% ólík­legri til að smit­ast. Hvort er rétt?

Raun­in er sú að eng­in hágæðarann­sókn (slembiröðuð íhlut­unar­rann­sókn) hef­ur metið vörn bólu­efn­anna gegn ein­kenna­lausu smiti. Það finn­ast því eng­in áreiðan­leg gögn sem styðja staðhæf­ing­ar um að óbólu­sett­ir séu lík­legri til að smit­ast af Covid-19.

Staðhæf­ing­ar um vörn bólu­efn­anna gegn ein­kenna­lausu smiti byggj­ast á gögn­um úr skimun og at­hug­unar­rann­sókn­um sem byggðar eru á þeim gögn­um. Ýmsir þætt­ir geta haft áhrif á niður­stöður bæði úr skimun og at­hug­unar­rann­sókn­um, svo slík­ar rann­sókn­ir geta ekki fram­kallað vís­bend­ing­ar í háum gæðaflokki.

Fjöldi at­hug­unar­rann­sókna hef­ur leitt í ljós að vörn bólu­efna við C19 dvín­ar með tím­an­um. Rann­sókn frá Kat­ar, birt í lækna­tíma­rit­inu NEJM, gaf til kynna að vörn gegn smiti fimm mánuðum eft­ir ann­an skammt væri ein­ung­is 20%. Rann­sókn frá Svíþjóð sem lækna­tíma­ritið Lancet er að ritrýna gef­ur til kynna að vörn gegn smiti með ein­kenn­um sé 40% hálfu ári eft­ir ann­an skammt og sé al­veg horf­in þrem­ur mánuðum síðar. Þannig er vissu­lega út­lit fyr­ir að vörn gegn ein­kenna­lausu smiti sé ein­hver til að byrja með, en óviss­an er mik­il vegna ut­anaðkom­andi þátta sem hafa áhrif á þess­ar niður­stöður.

Rann­sókn í Lancet sýndi t.d. að 38% óbólu­settra smituðust af heim­il­is­fólki sínu, en aðeins 25% bólu­settra smituðust. Sótt­varna­stofn­un Banda­ríkj­anna birti rann­sókn í sum­ar sem sýndi að 74% smita hefðu verið meðal bólu­settra þótt aðeins 69% fólks væru bólu­sett. Rann­sókn­in dró vörn bólu­efn­anna við smiti veru­lega í efa.

Er rétt­mætt að kenna óbólu­sett­um um far­ald­ur­inn þegar virkni bólu­efn­anna er svona óljós?

Eru óbólu­sett­ir lík­legri til að dreifa smit­um?

Bólu­sett­ir eru ólík­legri til að finna fyr­ir C19-ein­kenn­um og þannig eykst hætt­an á að þeir smiti aðra óaf­vit­andi.

Fjöldi rann­sókna bend­ir til að veiru­magn sé ekki minna í smituðum bólu­sett­um ein­stak­ling­um þótt þeir séu oft með minni ein­kenni en óbólu­sett­ir. Bólu­efni sem fela ein­kenni en draga ekki úr smiti geta þannig aukið út­breiðslu veirunn­ar. Áður­nefnd rann­sókn í Lancet sýndi að 25% bólu­settra en aðeins 23% óbólu­settra hefðu smitað heim­il­is­fólk sitt. Mörg dæmi eru um að bólu­sett­ir hafi smitað marga jafn­vel í full­bólu­sett­um hóp­um.

Dreg­ur út­breidd bólu­setn­ing úr smit­um?

Ætla mætti að minna væri um C19-smit á þeim svæðum þar sem bólu­setn­ing­ar­hlut­fall er hátt en svo virðist ekki vera. Ný­leg rann­sókn sýn­ir að slík fylgni er ekki fyr­ir hendi. Smit voru jafn­vel tíðari þar sem hlut­fall bólu­setn­inga var hátt.

Ástæðan gæti verið sú að bólu­sett­ir fari síður var­lega því þeir telji sig vel varða fyr­ir smiti, og þegar þeir sýkj­ast séu þeir ólík­legri til að finna fyr­ir ein­kenn­um, gæti sín því síður og dreifi smiti í meira mæli.

Eru óbólu­sett­ir byrði á heil­brigðis­kerf­inu?

Margt bend­ir til þess að bólu­efn­in veiti vörn gegn al­var­leg­um veik­ind­um. Bólu­setn­ing óbólu­settra gæti senni­lega hlíft okk­ur fyr­ir nokkr­um inn­lögn­um á næstu mánuðum. Að vera óbólu­sett­ur veld­ur hins veg­ar ekki endi­lega meira álagi á heil­brigðis­kerfið en aðrir áhættuþætt­ir svo sem ald­ur og und­ir­liggj­andi sjúk­dóm­ar. Ef það ætti að mis­muna fólki á þeim grund­velli að það sé baggi á heil­brigðis­kerf­inu er erfitt að sjá hvert það myndi leiða. Ætti að nota sömu rök til að mis­muna fólki sem er í áhættu­hópi vegna lífs­stíls­sjúk­dóma? Betri leið er að efla heil­brigðis­kerfið svo það geti sinnt hlut­verki sínu án þess að mis­muna borg­ur­un­um.

Skila bólu­efnapass­ar ár­angri?

Reynsla annarra þjóða sýn­ir að það að beina harðari sótt­varnaaðgerðum að óbólu­sett­um hef­ur ekki spornað við út­breiðslu og álagi. Bólu­efnapass­ar hafa hins veg­ar orðið til­efni til fjölda­mót­mæla í mörg­um borg­um og dregið úr trausti á stjórn­völd­um.

Það er lítið til af vönduðum rann­sókn­um um virkni bólu­efnapassa, en ein óritrýnd rann­sókn bend­ir til þess að upp­taka bólu­efnapassa dragi ekki úr tíðni smita. Ekk­ert bend­ir til að þátt­taka í bólu­setn­ingu sé meiri þar sem bólu­efnapass­ar eru í notk­un. Tvær rann­sókn­ir gefa til kynna að bólu­efnapass­ar dragi úr vilja fólks til að láta bólu­setja sig og dragi al­mennt úr trausti á heil­brigðis­yf­ir­völd­um – enda eiga nei­kvæðir hvat­ar það til að hafa öfug áhrif. Ástandið hef­ur ekki batnað í þeim lönd­um sem hafa farið þessa leið.

Ástandið er hins veg­ar betra hjá þeim ríkj­um sem hafa kosið að fylgja sjálf­bærri stefnu í sótt­vörn­um. Það er að efla heil­brigðis­kerf­in, beita snemm-meðferð, vernda viðkvæma hópa og leyfa fólki að lifa óröskuðu lífi. Á Vest­ur­lönd­um eru helstu dæm­in Flórída, Texas og fleiri ríki í Banda­ríkj­un­um, sem og Svíþjóð. Sænsk stjórn­völd ákváðu hins veg­ar ný­lega að taka upp bólu­efnapassa, þvert á ráðlegg­ing­ar sótt­varna­lækn­is þar í landi. Það virðist því hafa verið póli­tísk ákvörðun, ekki byggð á vís­ind­um.

Lág­mörk­um skaðann

Þegar upp er staðið vilj­um við geta horft til baka og verið stolt af því hvernig við tók­umst á við þetta. Stolt af því að hafa ekki gengið eins langt og önn­ur lönd í frels­is­svipt­ing­um og mann­rétt­inda­brot­um. Stolt af því að hafa sýnt sam­stöðu og umb­urðarlyndi, frek­ar en að snú­ast hvert gegn öðru. Stolt af því að hafa látið rök­in og vís­ind­in ráða aðgerðum, frek­ar en að herma í blindni eft­ir öðrum lönd­um. Fyrr eða síðar munu flest­ir senni­lega smit­ast, bæði bólu­sett­ir og óbólu­sett­ir. Nátt­úru­legt ónæmi mun veita síðari hópn­um góða vörn gegn end­ursmiti. Far­ald­ur­inn mun taka enda, en skaðinn af óhóf­leg­um aðgerðum gæti fylgt okk­ur til kom­andi ára. Reyn­um að lág­marka þann skaða.

Nálg­ast má heim­ilda­skrá á www.kofid.is/​bolu­efnapass­ar .

Jón Ívar er lækn­ir, lýðheilsu­fræðing­ur og pró­fess­or við lækna­deild Har­vard-há­skóla. Erl­ing Óskar er BS í verk­fræði og vef­stjóri kofid.is.