Framkvæmdastjóri Landspítalans segir það mikil vonbrigði að bóluefnin virki ekki sem skyldi

frettinInnlent

Umræðuþátturinn Pallborðið í gærkvöldi var með þeim Runólf Pálssyni framkvæmdastjóra meðferðasviðs Landspítala, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Sigríði Á. Andersen fyrrverandi ráðherra, þar sem þau ræddu um bólusetningar og sóttvarnaraðgerðir.

Runólfur segir að það séu mikil vonbrigði að bóluefnin komi ekki í veg fyrir smit og að bólusettir smiti einnig útfrá sér, en segir jafnframt að bóluefnin komi í veg fyrir alvarleg veikindi í 90% tilvika. Þá sé nýtt afbrigði áhyggjuefni og ekki sé vitað hvort bóluefnin virki gegn því og eins sagði hann að mótefnastyrkur bóluefnanna dvíni með tímanum.

Runólfur segist binda vonir við örvunarskammtinn, en það verði að koma í ljós. ,,Við verðum að vona að hann muni vara lengur en hinir tveir skammtarnir," segir hann. Virðist því á orðum læknisins að um getgátur og óskhyggju sé að ræða fremur en vísindi. Þess má geta að um helgina kom upp hópsmit á hjúkrunarheimilinu Grund þar sem flestir eru þríbólusettir.

Sigríður vakti athygli á því að sóttvarnaraðgerðir eru í sívaxandi mæli pólitískar fremur en vísindalegar. ,,Bólusetningaskylda, bólusetningapassar og lokanir á einstök lönd og jafnvel aðför gegn ósmituðum einstaklingum í ýmsum vestrænum lýðræðisríkjum gengur fram af mér þessa dagana," segir hún.  Undir þetta kynda stjórnmálaleiðtogar, jafnvel kjörnir fulltrúar sem hafa það eitt hlutverk að vera sameiningartákn í sínum ríkjum en hafa þess í stað blásið í glæðurnar og talað niður til almennings.

Sigríður segist hafa verið að koma frá útlöndum í gær og hafi skimanir á landamærum verið 1700 talsins en einungis fimm smit hafi greinst og segir því að skimanir á landamærum skipti engu máli í sóttvarnarlegum skilningi.

Sigríður bendir einnig á að við verðum að hafa í huga að fólk sem veikist alvarlega af Covid er eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma og yngra fólk sem er hraust sé ekki að veikjast alvarlega. Sigríður beindi þessari spurningu að viðmælendum sínum en Runólfur svaraði því að  þeir yngri gætu smitað þá eldri og því ættu þeir að láta bólusetja sig líka.

Þessi málflutningur Runólfs er fremur ruglingslegur því hann hafði stuttu áður sagt að bólusettir smiti ekki síður. Sigríður sagði að það væru 30-40 manns í þessum áhættuhóp sem látast á hverju ári úr inflúensu en Runólfur sagði það ekki vera sambærilegt.

Sigríður vísar einnig til þess að það þurfi að upplýsa fólk meira um alvarlegar aukaverkanir bóluefnanna sem séu svo sannarlega til og raunverulegar, t.d. hafi komið upp tilfelli þar sem fólk hefur lamast eða greinst með blóðtappa og hjartavöðvabólgu.

Víðir Reynisson segist hafa fullan skilning á því að fólk sé orðið þreytt á þessum sóttvarnaraðgerðum en veiran spyrji ekki að því hvað okkur finnist skemmtilegt. Víðir leggur áherslu á að fólk láti bólusetja sig og segir að þriðja bólusetningin muni koma í veg fyrir frekari smit.

Óljóst er hvaða vísindi Víðir er þarna að vísa í enda fjallar hann ekki nánar um það.

Í Ísrael hefur verið töluvert um smit og veikindi eftir þriðja skammtinn og stefna Ísraelar nú á þann fjórða. Þess má einnig geta að á Gibraltar sem er 100% bólusett hefur nú greinst mikið af smitum og jólahátíð verið aflýst. Víðir tekur þó fram að hann sé ekki hlynntur skyldubólusetningu, það gæti virkað öfugt á fólk og leitt til meiri sundrungar og reiði í samfélaginu. Sigríður tekur undir það og segist aldrei verða hlynnt slíkri mismunun.

Pallborðsumræðuna á Visir má sjá hér að neðan.