Omicron afbrigðið berst með fullbólusettum farþega til Kalíforníu

frettinErlent

Omicron afbrigðið er komið alla leið til Kaliforníu frá Suður-Afríku

Sýkti maðurinn sem talinn er hafa borið hið nýja afbrigði til San Francisco frá Suður-Afríku 22. nóvember sl. hefur nú fengið jákvæða niðurstöðu úr sýnatöku, sögðu embættismenn. Maðurinn var að fullu bólusettur við Covid og fann fyrir vægum einkennum en er að jafna sig.

„Við vissum að það væri bara tímaspursmál hvenær fyrsta tilfellið af Omicron myndi greinast í Bandaríkjunum,“ sagði Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir bandarískra stjórnvalda, á kynningarfundi í dag. Umræddur smitberi og sjúklingur er í sóttkví.

Málið var staðfest af heilbrigðisyfirvöldum í San Francisco eftir raðgreiningu sem framkvæmd var við háskólann UC San Francisco.

„Viðkomandi ferðaðist nýlega til Suður-Afríku og fékk einkenni við heimkomuna,“ sagði Dr. Grant Colfax, yfirmaður heilbrigðisyfirvalda í San Francisco. „Og hann gerði hið rétta, fór í sýnatöku og rak ferðasögu sína."

Heilbrigðisyfirvöld upplýstu ekki um kyn, aldur eða annað um einstaklinginn.

Nánar er fjallað um málið í Los Angeles Times.