Birkir Blær kominn í úrslit í sænska Idolinu

frettinErlent

Akureyringurinn Birkir Blær Óðinsson komst í gærkvöldi áfram í undanúrslit sænska Idol. Hann keppir því í úrslitakeppninni á föstudaginn næsta.

Fjórir keppendur tóku þátt í undanúrslitaþættinum, sem samanstóð af tveimur umferðum. Í fyrri umferðinni söng Birkir Blær lagið Sign of the Times eftir Harry Styles, og eftir þá umferð var söngkonan Lana Sulhav kosin út.

Eftir stóðu þrír keppendur og ein umferð skildi Birki Blæ frá úrslitaþættinum. Þar tók Birkir Blær lagið Are you gonna be my girl með hljómsveitinni Jet.  Að lokinni annarri umferð datt söngkonan Annika Wickihalder úr keppninni.

Það verða því Birkir Blær og söngkonan Jacqline Mossberg Mounkassa sem mætast í úrslitaþættinum næstkomandi föstudag.

Birkir fluttist til Svíþjóðar með fjölskyldu sinni fyrir rúmu ári síðan og má segja að hann hafi heldur betur haslað sér völl á stuttum tíma, Svíar taka honum augljóslega vel og virðist þessi upprennandi stjarna eiga framtíðina fyrir sér í tónlistinni.

Hægt er að fylgjast með Birki á Instagram reikningi hans hér að neðan.