Rakel illa fingurbrotin en vísað út af sjúkrahúsinu því hún var í sóttkví

frettinInnlendar

Rakel Þorleifsdóttir frá Akureyri lenti um síðustu helgi í því óhappi að brjóta illa á sér fingurinn þegar hún var að festa lok á pott sem var utandyra. Hún festi fingurinn í pottlokinu og í þann mund kemur vindhviða sem leiddi til þess að fingurinn á Rakel brotnaði illa.

Rakel leitaði beint á bráðamóttöku á Sjúkrahúsinu á Akureyri en þegar hún segir frá því að hún sé í sóttkví er henni sagt að koma sér heim, ekki sé hægt að gera að sárum hennar.

Rakel sem var nýkomin frá Danmörku fimmtudeginum áður var gert að sæta fimm daga sóttkví samkvæmt sóttvarnarreglum. En slysin gera ekki boð á undan sér og taldi Rakel því að um neyðarástand væri að ræða og því undanskilið sóttkví.  Svo virtist ekki vera og sagði starfsfólk spítalans ekki geta gert neitt í beinbrotinu fyrr en að niðurstaða úr seinna PCR prófinu lægi fyrir.

Rakel snéri því aftur heim sárkvalin enda var brotið slæmt. Þegar hún loks fékk að fara upp á spítala til að láta gera að sárum sínum kom í ljós að fingurinn var illa brotin og þar sem hún hafði þurft að bíða svona lengi eftir læknisaðstoð var skaðinn orðinn meiri en annars hefði verið.  Rakel þarf því að vera í gifsi upp að olnboga í margar vikur og enn er óljóst hvort varanlegur skaði hafi hlotist. Hefði Rakel fengið þá neyðarþjónustu vegna slyss sem samkvæmt lögum skal veita undireins, hefði skaðinn ekki orðið eins mikill því slæmt er að láta beinbrot bíða lækningar.

Rakel hefur nú leitað aðstoðar lögmanns vegna málsins og ekki ólíklegt að höfðað verði skaðabótamál gegn spítalanum. Þá ber að geta þess að Rakel greindist ekki með Covid en með ólíkindum þykir að spítalinn skuli ekki hafa notast við hraðpróf þar sem niðurstöður fást á 15 mínútum eða blóðsýni svo að flýta mætti aðgerðinni.

Spyrja má hvort Rakel hefði verið send heim af bráðamóttökunni á meðan beðið væri eftir niðurstöðu úr PCR prófi, hefði hún orðið fyrir bíl í sóttkvínni.