Dauði Evrópu – ofbeldisfull endalok frelsis og mannréttinda í Evrópu?

frettinErlent

Brendan O'Neill er blaðamaður hjá breska tímaritinu Spiked og stýrir skrifum um stjórnmál. Þann 6. desember sl. skrifað hann mjög athyglisverðan pistil um stöðuna í Evrópu sem ætti að hreyfa við lesendum. Pistilinn nefndi hann „Dauði Evrópu“ þar sem hann dregur upp mjög dökka mynd af framtíðinni. Segir hann pólitíska og siðferðislega kreppu ríkjandi á meginlandi Evrópu og það stefni í endalok evrópsks frjálslyndis og þess frelsis sem við þekkjum í dag.

Dauði Evrópu

Lögboðin bólusetning veldur ofbeldisfullum endalokum evrópskrar frjálshyggju.

Evrópa er á villigötum. Hún hefur gengið, í blindni, í átt að einhverju sem líkist harðstjórn. Austurríki mun bráðlega refsa þeim sem neita Covid bóluefninu. Þýskaland virðist ætla að fylgja á eftir. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, veltir því upphátt fyrir sér hvort öll hin aðildarríkin eigi að gera slíkt hið sama og gera þá að brotamönnum sem hafna þessari tegund lyfja. Á Ítalíu ertu sviptur lífsviðurværi þínu frekar en frelsi þínu ef þú segir nei við bólusetningu: óbólusettu fólki er ekki leyft að vinna. Hvar sem er. Í Grikklandi þurfa allir eldri en 60 ára að greiða ríkinu 100 evrur fyrir hvern mánuð sem þeir eru óbólusettir. Eins og gríska ríkisstjórnin, í félagi við húsbændur sína í Brussel, hafi ekki kúgað gríska lífeyrisþega nægilega mikið nú þegar.

Lögreglan í Rotterdam hóf skothríð á fólk sem mótmælti takmörkunum vegna Covid. Þrír slösuðust alvarlega. Austurískar löggur hafa beitt kylfum og skjöldum gegn þeim þúsundum sem fóru út á götur Vínar til að segja nei við skyldubólusetningu. Í Brussel, hinu svarta, skrifræðislega hjarta Evrópusambandsins, var vatnsbyssum og táragasi beitt gegn borgurum sem létu í sér heyra gegn bólusetningapössum. Kaldhæðnin er næstum of mikil: Í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Evrópu í Brussel, einmitt þeim hluta Evrópu þar sem nútíma evrópsk skynsemi var mótuð af stjórnmálamönnum, sérfræðingum og tæknikrötum, leggur venjulegt fólk á sig erfiði til að reyna að halda frelsi sínu en kraftar þessarar meintu frjálslyndu nýju heimsálfu ber fólkið niður. Sjaldan hefur vanvirðing nútíma Evrópu gagnvart „mannréttindum“ og „virðingu“ verið afhjúpuð jafn grimmilega.

Það sem er að gerast í Evrópu núna er ekkert minna en skelfilegt. Við erum ekki bara að verða vitni að enn einum Covid-takmörkunum. Þetta er ekki bara kynning á öðrum pakka neyðarráðstafana sem sumir telja nauðsynlegar til að koma í veg fyrir nýjustu Covid-bylgjuna með Omicron-ógnina sem leynist við sjóndeildarhringinn.

Nei, við lifum á tímabili þar sem ógnvekjandi endurskoðun er í gangi á öllum samskiptum ríkisins og einstaklinga, þar sem ríkið hefur svo ótrúlega mikið vald að það getur nú fyrirskipað þegnum sínum hvað þeir eigi að sprauta í líkama sína, og einstaklingurinn er svo pólitískt veikburða, svo réttindalítill, að hann hefur ekki einu sinni fullt vald yfir sjálfum sér, yfir þessum pínulitla hluta heimsins sem er hans eigin líkami og hugur. Við erum að verða vitni að ofbeldisfullum dauða evrópsks frjálslyndis og erum stödd í fæðingarhríðum nýs og mikils einræðishyggjutíma.

Margir virðast ekki gera sér grein fyrir hversu alvarleg þróunin er í átt að lögbundinni bólusetningu. Jafnvel við sem erum hlynnt bólusetningu og fórum með ánægju í Covid-19 bólusetningu, ættum að líta með skelfingu á þá hugmynd að þeir sem ekki fara í bólusetningu fremji þar með lögbrot; að sá sem hafnar bólusetningu verði sektaður um þúsundir og aftur þúsundir evra neiti hann þessari lyfjameðferð. Ein af hugmyndunum sem ræddar voru í Austurríki fyrir umræðuna um bólusetningarskyldu, (sem áætlað er að taki gildi frá og með 1. febrúar), var að borgurum sem neita bólusetningu yrði stefnt fyrir dómstól í sínu héraði. Ef þeir hunsa stefnuna tvisvar munu þeir eiga yfir höfði sér 3.600 evra sekt. Haldi þeir áfram að hunsa kröfu ríkisins um að fara í lyfjameðferð (sprautu) sem þeir ekki vilja er sektin 7.200 evrur. Þetta eru lífshættulegar sektir. Það er enn ekki talað um að fangelsa eigi fólk sem hafnar bóluefninu, en það er kristaltært hjá ríkisstjórn Austurríkis að hún muni með ánægju beita valdi sínu til að knýja hina óbólusettu út í örbirgð.

Þýskaland hefur þegar framfylgt lokunum á óbólusetta, það er að segja, ríkið hefur beitt lögum að fullum krafti til að aðskilja þá sem hafa tekið réttar lyfjaákvarðanir og munu því geta notið frelsis, frá þeim sem hafa ekki gert það og eiga því ekkert annað skilið en stofufangelsi. Nú segir fráfarandi kanslari Angela Merkel að líklegt sé að skyldubólusetning verði tekin upp snemma á næsta ári. Ursula von der Leyen virðist telja að hvert og eitt aðildarríki ESB eigi að þvinga þegna sína í bólusetningu. Hvernig skuli tryggja að allir verði bólusettir „þarf að ræða“, sagði hún nýlega. Við verðum að „velta fyrir okkur hugsanlegri skyldubólusetningu,“ hélt hún áfram. Um 500 milljónir íbúa Evrópusambandsins, hins meinta vígis mannréttinda og stjórnmálalegs sambands sem okkur var sagt að væri nauðsynlegt til að varðveita reisn og frelsi nútíma Evrópubúa, standa nú frammi fyrir möguleikanum á nýju valdakerfi sem fyrirskipar þegnum sínum að taka við lyfjameðferð, ella bíði þeirra alvarleg viðurlög.

Við vanmetum samhliða þeim óstöðugleika sem við erum í hversu alvarleg árás bólusetningarskylda raunverulega er. Í mínum huga er þvinguð bólusetning svo mikil svívirðing að jafnvel yfirlýsing dómsmálaráðherrans, Dominic Raab, um að það myndi ekki gerast í Bretlandi var allt of veik fyrir minn smekk. „Ég held ekki“ að það muni gerast hér, sagði hann. Heldurðu ekki? Hann hefði átt að segja að það muni aldrei gerast hér, því fyrr skal ég dauður liggja, vegna þess að það myndi tákna svo óbilgjarna árás á það upplýsta frelsi sem þjóð okkar byggir á. Allir eru að segja að lögboðin bólusetning stríði gegn Nürnberg-reglunum, sem krefst þess að frjálst samþykki verði að vera gefið fyrir læknisfræðilega íhlutun. En hugsjónin um fullveldi einstaklinga nær miklu lengra aftur en það. Í „Letter Concerning Toleration“ (1689) leitaðist hinn mikli heimspekingur John Locke við að „draga mörkin“ milli einstaklingsins og embættismanna. Hann sagðiað jafnvel þótt maður „vanrækti eigið sálarlíf“ eða „vanrækti eigin heilsu“, þá hafi yfirvöld samt engan rétt til að hafa afskipti af þeim einstaklingi. „Það er ekki hægt að neyða mann til að vera heilsusamlegur,“ sagði hann.

Fyrir Locke, eins og aðra mikla evrópska hugsuði sem gáfu okkur hugmyndir að hinni upplýstu heimsálfu sem við höfum þekkt, er löngunin til að „bjarga“ einstaklingi ekki nægilega góð ástæða til að blanda sér í sálarlíf hans eða líkama. „Guð sjálfur mun ekki frelsa menn gegn vilja þeirra,“ sagði hann. Það sem sjálfur Guð getur ekki, vonast ESB til að ná fram. Það sem jafnvel almættið óttaðist einu sinni að skipta sér af, það er að halda aftur af vilja mannsins, um rétt hans til að stjórna eigin sál og líkama, ætla embættismenn Evrópu á 21. öldinni að skipta sér af. Þeir munu ýta til hliðar, að því er virðist, hinum ,,smávægilega þætti" sem snýr að sjálfræði líkamans. Þeir munu afnema sjálfstjórnarréttinn sem hart hefur verið barist fyrir í gegnum margar kynslóðir, og þrýsta á fólk með hrottalegum lögum til að lúta heilbrigðisaðgerðum.

Þetta þýðir endalok frelsis eins og við þekkjum það. Líkamlegt sjálfræði er grunnsteinn sjálfsstjórnar og sjálfsstjórn er það sem gefur frelsinu merkingu. Ef við njótum ekki fullveldis yfir huga okkar og holdi, þá erum við ekki frjáls á neinn hátt sem máli skiptir. Og það mun ekki bara vera minnihluti fólks sem telur sig beittan þvingunum til að láta bólusetja sig sem missir frelsi sitt undir þessari nýju stjórn ríkisvalds sem ætlar sér að ráða yfir blóði fólks, vöðvum og holdi. Frelsi ALLRA mun skerðast. Ríkisstjórnin sem ákveður að aðeins þeir sem hafa fengið ákveðna lyfjameðferð fái að njóta frelsis mun gera frelsið sjálft háð því að fólk geri það sem ríkið vill að það geri. Jafnvel hinir bólusettu verða ekki raunverulega frjálsir menn í þessum heimi. Frekar munum við fá úthlutað frá ríkinu, njóta nokkurra réttinda, gegn því að við samþykkjum að eitthvað verði sett í líkama okkar. Við munum hafa leyfi frá stjórnvöldum til að sinna daglegu lífi okkar. Og það verður ljóst að það leyfi gæti fljótt verið afturkallað ef við neitum þess konar meðferð í framtíðinni. Endurskilgreining á hugtakinu „frelsi“, þ.e.a.s. að gera frelsið háð því að vera undirgefinn lyfjainntöku, mun skerða réttindi okkar allra, jafnt bólusettra sem óbólusettra.

Það er sláandi hversu lítið er um andmæli frá mannréttindaþrýstihópum gegn þessum hugmyndum um skyldu á lyfjainntöku. Evrópusinnar í Bretlandi og víðar, fólkið sem fullvissaði okkur um að ESB væri hinn nútímalegi og mikli verndari fyrir reisn einstaklingsins, eru hógværir eins og mýs gagnvart þessum hótunum ríkisins um að þvinga borgara til að fylgja skilyrðum í heilbrigðismálum. Þú sérð að þetta átti ekki að verða svona. Þeir sögðu að það yrði Brexit-Bretland sem myndi verða staður hinnar brjáluðu forræðishyggju á meðan ESB myndi halda blysinu á lofti fyrir nútímareglum og lögum um réttindi og virðingu. Og nú þegar hið gagnstæða hefur komið í ljós, líta þeir í hina áttina, eða þeir kinka lymskulega kolli fyrir því sem jafngildir harðstjórn ríkisins yfir sálum og holdi einstaklinga. Evrópskt frjálslyndi er að deyja, Evrópusambandið stendur uppi sem aðsetur öfgafullrar forræðishyggju og framtíð heimsálfunnar lítur sannarlega út fyrir að vera mjög óviss. Covid mun líta út eins og lítilvægt atriði í málefnum mannsins í samanburði við afleiðingarnar af þessari pólitísku og siðferðislegu kreppu sem ríkir á meginlandi Evrópu.

 Greinin Death of Europe.