Sóttvarnalæknir bregst við ábendingum og dregur rangtúlkun til baka

frettinInnlendarLeave a Comment

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur gengist við því að hafa gert of mikið úr veikindum barna af völdum Covid-19 og leiðrétt fyrra mat sitt í samræmi við það.

Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur og fv. alþingismaður er meðal þeirra sem að hafa gagnrýnt málflutning Þórólfs og segir ekki standast skoðun og sendi því Þórólfi bréf með ábendingum um villur í þeim gögnum sem sóttvarnarlæknir notaði til þess að hvetja foreldra með börn sín í bólusetningar.

Athygli vekur að Þórólfur leiðréttir einungis hluta gagnanna og skrifar Frosti því annan pistil sem má lesa hér að neðan og með því að smella hér.

Sóttvarnalæknir bregst við ábendingum

Það er virðingarvert af sóttvarnalækni að viðurkenna mistök í forsendum bólusetningar barna og birta leiðréttingu. Hann breytir reyndar ekki niðurstöðu sinni þótt honum sé ljóst að áhætta barna af sjúkdómnum sé helmingi minni en hann taldi áður og vörn bóluefnisins gegn smiti sé ekki 90% eins og hann taldi.

Leiðrétting 1. Sóttvarnalæknir hafði ofmetið áhættu barna af völdum COVID-19 um 100%, þ.e. sagði hana tvöfalt meiri en stóð í þeirri heimild sem hann notaðist við.

Hann skrifar nú:

„Ef öll 32.000 börn hér á landi á aldrinum 5-11 ára smitast af COVID-19 þá gæti útkoman orðið eftirfarandi: innlagnir gætu orðið 134 (í stað 100-200 sem getið var um í pistlinum), 13 lagst inn á gjörgæsludeild (í stað 16 sem getið var um í pistlinum) og um eitt barn látist (í stað 1-2 sem getið var um í pistlinum).“

Þarna eru hlutföllin og hugtökin orðin í samræmi við heimildina sem er gott. En forsendan öll börn smitast er alls ekki til þess fallin að gefa góða hugmynd um hve mörg börn séu í hættu á að veikjast illa eða deyja. Í raun er hún villandi og ýkir hættuna. Er tilgangurinn að hræða foreldra eða gefa þeim raunsanna mynd af hættunni?

Sóttvarnalæknir ætti að vita manna best að það er útilokað að öll 32 þúsund börn í landinu smitist. Það er faraldursfræðilegur ómöguleiki því hjarðónæmi myndast löngu áður en öll börn ná að smitast. Smitstuðull delta afbrigðisins ert talinn 5 sem þýðir að útbreiðslan hætti þegar 80% barna hafa myndað ónæmi. Með réttum aðgerðum er hægt að lækka smitstuðul verulega þannig að útbreiðsla hætti enn fyrr. Í öllu falli er villandi að miða við að öll börn smitist.

Af hverju eru ekki notuð gögn og hlutföll um innlagnir frá Íslandi? Faraldurin hefur nú þegar geisað hér í tvö ár og færri en 3 þúsund börn á aldrinum 6-12 ára greinst með COVID-19. Hve mörg þeirra hafa þurft innlögn eða gjörgæslu? Eru hlutföllin kannski helmingi lægri hér en í ESB almennt? Hver veit?

Bresk rannsókn  sýnir vel hve dánartíðni barna af COVID-19 er lág. Samkvæmt henni létust tvö af hverri milljón barna. Hér á landi eru um 32 þúsund börn á þessum aldri og því mætti áætla að 0,06 barn gæti látist. Það er því afar lítil hætta á andláti barns af völdum COVID-19 hér á landi. Sóttvarnalæknir segir líkegt að „um eitt“ barn geti látist, en það er ríflega 16 sinnum hærri tala reynsla Breta gefur til kynna.

Staðreyndin er sú að COVID-19 er afar mildur sjúkdómur hjá börnum. Helmingur barna sem smitast fær engin einkenni og innlagnir eru afar fátíðar. Það er því ekki tilefni til að bólusetja hraust börn.

Leiðrétting 2. Sóttvarnalæknir hafði sagt að bóluefnið veitti um 90% vörn gegn smiti skv rannsókn sem sóttvarnalæknir vísar til og hefði mátt geta að var framkvæmd á vegum framleiðanda bóluefnisins. Hið rétta er að niðurstaðan sýndi um 90% vörn gegn einkennasmiti. Stór hluti barna fær engin einkenni við smit þannig að ekki er hægt að fullyrða neitt um vörn bóluefnisins gegn smiti, enda var sú virkni ekki könnuð í þeirri rannsókn sem sóttvarnalæknir vísar til.

Þess má geta að vörn bóluefnisins gegn veikindum hefur enst skemur en vonir stóðu til og því hefur þurft örvunarskammta. Sænsk rannsókn sýnir að vernd bóluefna gegn einkennasmiti dvínar hratt og er nær horfin eftir sex mánuði. Vernd þeirra gegn alvarlegum veikindum endist hins vegar lengur.

Að lokum má nefna að bóluefnið sem áformað er að nota fyrir börnin var hannað fyrir fyrstu útgáfu veirunnar en ekki þau afbrigði sem nú eru algengust.

Staðreyndin er sú að bóluefnið veitir takmarkaða vörn gegn smiti og sú vörn sem það veitir gegn einkannasmiti dvínar hratt á örfáum mánuðum.

Þótt sóttvarnalæknir hafi leiðrétt tvær villur í forsendum stendur hin umdeilanlega ákvörðun hans óhögguð um að bólusetja börn gegn mildum sjúkdómi með bóluefni sem veiti óvissa vörn gegn smiti.

En það var líka margt annað athugavert við forsendur bólusetningar barna

Ég hvet alla til að lesa pistil minn frá 15. desember þar sem ég fer ítarlega yfir þær ástæður sem sóttvarnalæknir notar sem forsendur fyrir bólusetningu barna. Þar er margt fleira athugavert og ég færi rök gegn ákvörðun sóttvarnalæknis.

Ný rannsókn: Bóluefnin hafa miklu minni virkni gegn omicron

Þann 15. desember birtist ný rannsókn á virkni bóluefna gegn omicron afbrigðinu. Hún var gerð af teymi vísindamanna frá Bandaríkjunum, Kína og Hong Kong.

Niðurstaðan er að núverandi bóluefni hafa tífalt minni virkni gegn omicron afbrigðinu en því afbrigði sem þau voru upphaflega þróuð fyrir. Hér er hægt að lesa rannsóknina sjálfa.

Skildu eftir skilaboð