Kínverska fasteignabólan er sprungin

[email protected]PistlarLeave a Comment

Jóhannes Björn Lúðvíksson skrifar:

Árum saman hefur heimurinn horft upp á furðulega uppbyggingu draugaborga þar sem enginn býr en kínverskur almenningur mokar í peningum. Þetta er ævintýri upp á um 60 trilljónir dollara (evrópskar billjónir … eða sem svarar til þriggja ára þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna) sem líklega verður hrikalegasta fasteignahrun sögunnar. Mest allt sparifé almennings liggur í þessum steinkössum, sem oftar en ekki eru óinnréttaðir og óíbúðarhæfir.

Vitleysan er ótrúleg. Fyrst fjárfesti fólk í stærstu borgum landsins, en lóðir (sem stjórnvöld leigja til 70 ára) urðu of dýrar fyrir almenning og “fjárfestingin” færðist markvisst lengra út á landsbyggðina. Fólk keypti íbúðir í mannlausum borgum — ókláraðar og jafnvel áður en hafist var handa við að byggja þær — í þeirri trú að þetta væri besta fáanlega fjárfesting sem völ var á. Svona múgsefjun hefur stundum verið nefnd “meira-fífls-kenningin” — þ.e. að það bíði alltaf einhver enn heimskari en þú í röð til þess að kaupa allt of dýrt húsnæði.

Kínversk fasteignafyrirtæki keyrðu dæmið áfram með Ponzi-aðferðum, þar sem næsta verkefni var fjármagnað af væntanlegum kaupendum áður en fyrsta skóflustungan var tekin, hlutabréf voru gefin út og bæði innlendir og erlendir skuldabréfamarkaðir voru mjólkaðir. Forstjórar nokkra fasteignarisa urðu margfaldir milljarðamæringar. En öll bóluævintýri enda með skelfingu og kínverskar aðvörunarbjöllur byrjuðu að hljóma þegar Evergrande, sem skuldar um 300 milljarða dollara (!!!) hætti að standa í skilum.

Yfirvofandi gjaldþrot Evergrande er slæmt, en skuldir fyrirtækisins eru þó að stærstum hluta innlendar og kannski viðráðanlegar ef ríkið sér til þess að fyrirfram greiddar fasteignir verði kláraðar. En upplýsingar sem voru að berast af miklu minna kínversku fasteignafyrirtæki eiga líklega eftir að hafa töluvert meiri áhrif, bæði innanlands og utan, og draga niður allan kínverska markaðinn.

Shimao var talið öruggt og íhaldsamt fyrirtæki. Traustið á fyrirtækinu sýnir sig best á þeirri staðreynd að helmingur skulda þess var sleginn í dollurum á alþjóðlegum mörkuðum. En Shimao er komið í vanskil. Fyrirtækið hafði “lagað” bókhaldið með því að búa til dótturfyrirtæki (pappírsfyrirtæki) sem keypti ímynduð verðmæti af móðurskipinu. Fleiri kakkalakkar skriðu um bókhaldið.

Öll fasteignafyrirtæki í Kína eru komin undir smásjá erlendra fjárfesta og kínverskur almenningur er byrjaður að draga í land. Fasteignaverð er byrjað að lækka og bólupeningar upp á trilljónir gufa brátt upp. Alþjóðlegir skuldabréfamarkaðir eiga líka eftir að finna til tevatnsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.