Hilmar fær að fara heim af Hrafnistu – 144 í sömu stöðu

frettinInnlendarLeave a Comment

Hilmar Arnar Kolbeins 45 ára gamall fjölfatlaður maður sem hefur verið fastur á Hrafnistu mánuðum saman vegna skorts á heimaþjónustu var tilkynnt rétt fyrir jólin að Reykjavíkurborg hafi loks samþykkti að veita honum þjónustuna.

Hilmar þurfti að fara á spítala í febrúar á þessu ári vegna legusárs og var sagður nógu heilbrigður til útskriftar í maí. Hann dvaldi hins vegar á spítalanum þar til í október þegar hann var sendur á elliheimilið en Hilmar er langt undir aldri eldri borgara sem þurfa heimahjúkrun.

Hilmari var svo loks tilkynnt á miðvikudaginn að hann fengi þá þjónustu sem hann þarf svo að hann geti flutt aftur heim til sín.

„Velferðarsvið bauð mér samning og ég skrifaði undir á Þorláksmessu þannig að nú fer tíminn bara í að finna fólk,“ segir Hilmar.

Hilmar segir í viðtali við Fréttina að það séu 20 ungir einstaklingar í sömu stöðu og hann á Hrafnistu í dag, þ.e. ungt fólk sem er fatlað en fær hvergi þjónustu nema á elliheimilum og í heildina séu þetta 144 manns um allt land. Hilmar segist hafa reynt að fá Öryrkjabandalagið til að aðstoða sig í þessum málum og sent fjölmarga tölvupósta en lítið hafi verið um svör þaðan.

Hilmar missir plássið á Hrafnistu þann 2. janúar og vonar að það takist að ráða starfsfólk fyrir þann tíma og segist ekki hafa getað fengið betri jólagjöf.

Skildu eftir skilaboð