Forstjóri CDC harðlega gagnrýndur – grímurannsókn á skólabörnum reynist meingölluð

thordis@frettin.isErlentLeave a Comment

Þann 16. desember sl. gagnrýndi tímaritið The Atlantic, forstjóra CDC, Rochelle Walensky, harðlega og sakaði hana um að villa um fyrir almenningi og byggja mál sitt um grímunotkun á meingallaðri rannsókn. Það var blaðamaður The Atlantic, David Zweig, sem skrifaði greinina og umfjöllunin hér á eftir er byggð á grein hans:

Rochelle Walensky, forstjóri Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna (CDC), hefur verið í fararbroddi þeirra sem vilja koma á grímuskyldu fyrir skólabörn í Bandaríkjunum allt frá tveggja ára aldri.

Þann 26. september kom Walensky fram í fréttaþættinum Face of the Nation á CBS í Bandaríkjunum og vitnaði í rannsókn sem birt hafði verið tveimur dögum áður. Í henni áttu að hafa verið skoðuð gögn frá um 1.000 opinberum skólum í Arizona. Fullyrti Walensky að rannsóknin sýndi fram á það að í skólum sem ekki væru með grímuskyldu væru 3,5 sinnum meiri líkur á að upp kæmi COVID-faraldur en þar sem væri grímuskylda.

Fullyrðingar Walensky og vísan hennar í Arizona rannsóknina, sem hún hefur reyndar gert ítrekað um þýðingu grímunotkunnar, varð í framhaldinu mikið umræðuefni enda hafa aðrar rannsóknir eins og t.d. Bangladesh rannsóknin ekki getað staðfest það með óyggjandi hætti að grímur geri nokkurt gagn.

Arizona rannsóknin, sem birt var í riti CDC, Morbidity and Mortality Weekly Report, átti að kanna tilkomu „faraldra“ meðal „skólatengdra“ í Maricopa og Pima sýslum í Arizona. Bera átti saman tíðni milli skóla annars vegar með grímuskyldu og hins vegar án grímuskyldu nemenda og starfsfólks.

„Skólaárið byrjar mjög snemma í Arizona, um miðjan júlí, svo við höfðum þann kost að geta skoðað gögn snemma,“ sagði einn af aðalhöfundunum, J. Mac McCullough, við The New York Times. Niðurstaðan varð sú að aðeins 16 faraldrar komu upp frá upphafi kennslu í þeim 210 skólum sem voru með grímuskyldu, á móti 113 faröldrum í þeim 480 skólum sem ekki voru með grímuskyldu. Að sögn McCullough og samstarfsmanna hans jafngilti þetta 3,5 földun á tíðni faraldra í skólum þar sem ekki var grímuskylda.

Opnunartímabil skólanna ekki það sama

Aðferðafræðin við rannsóknina og gagnavinnslan hafði hins vegar verulegan ágalla. Má sjá slíkt strax í upphafi þegar rannsakendur segjast hafa lagt mat á tengslin á milli stefnu skóla um notkun gríma og skólatengdra COVID-19 smita á tímabilinu 15. júlí – 31. ágúst 2021.

Eftir að hafa skoðað skóladagatöl og rætt við nokkra skólastjórnendur í Maricopa og Pima sýslum, komst blaðamaður The Atlantic að því að aðeins lítill hluti skólanna í rannsókninni hófu kennslu í júlí. Sumir hófu ekki kennslu fyrr en 10. ágúst meðan aðrir voru opnir frá 19. júlí eða jafnvel 21. júlí. Þetta þýddi að nemendur í skólum sem opnuðu í júlí höfðu tvöfalt lengri tíma, sex vikur í stað þriggja vikna til að þróa með sér COVID faraldur.

Þegar blaðamaður The Atlantic bar þetta undir Megan Jehn, einn höfunda rannsóknarinnar og faraldsfræðings við Arizona State University, viðurkenndi hún að þróunartími faraldurs hefði verið mismunandi eftir skólum. Þeir skólar sem ekki voru grímuskyldu höfðu verið lengur opnir í heildina, sagði hún - en munurinn væri of lítill til að það skipti máli. Miðgildi opnunardags þeirra var 3. ágúst en 5. ágúst fyrir skólana sem voru með grímuskyldu. Þá fullyrtu bæði Jehn og McCullough höfundar rannsóknarinnar að það væri mjög ólíklegt að þessi munur einn og sér gæti útskýrt það sterka samband sem væri á milli reglna skóla um grímuskyldu og tilkomu faraldra.

„Þú getur ekki lært neitt um áhrif grímuskyldu af þessari rannsókn,“ sagði Jonathan Ketcham, lýðheilsuhagfræðingur við Arizona State University, við blaðamann The Atlantic. Endurrómuðu skoðanir hans mat átta annarra sérfræðinga sem fóru yfir rannsóknina og blaðamaður The Atlantic hafði rætt við.

Ketcham benti á að samanburður á miðgildi opnunardaga skólanna væri ófullnægjandi. „Ef skólar með grímuskyldu voru með færri skóladaga meðan á rannsókninni stóð,“ gæti það eitt og sér útskýrt þann mismun sem kom fram.

Matskendar forsendur rannsakenda og innbyggð hlutdrægni

Ketcham og aðrir gagnrýndu einnig Arizona rannsóknina fyrir að nota eitthvað sem nefnt var „faraldur meðal skólatengdra,“ frekar en að miða við tilvik á hvern nemanda á viku. Höfundar rannsóknarinnar skilgreindu faraldur sem tvö eða fleiri COVID-19 tilfelli meðal nemenda eða starfsmanna skóla innan 14 daga tímabils og sem tengdust faraldsfræðilega.

„Mat á tveimur tilfellum innan skóla er vandkvæðum bundin,“ sagði Louise-Anne McNutt, fyrrverandi starfsmaður CDC og sóttvarnalæknir við State University of New York í Albany. „Það segir okkur ekkert að smit hafi átt sér stað innan skólans.

Hún benti á þá staðreynd að samkvæmt leiðbeiningum Maricopa sýslu eru nemendur álitnir „í nánni snertingu“ smitaðs nemanda og gætu þar með þurft að fara í prófun og sóttkví aðeins ef þeir (eða sýkti nemandinn) höfðu EKKI verið með grímu. Þess vegna gætu nemendur í Maricopa skólum sem voru með grímuskyldu hafa verið ólíklegri en nemendur í skólum án grímuskyldu til að fara í próf eftir að hafa getað verið jafn mikið út settir fyrir smiti.

Þetta býr til það sem þekkt er sem hlutdrægni í aðferð milli hópanna (e. detection bias), sagði hún, sem gæti haft mikil áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar. McNutt taldi Arizona rannsóknina ekki svara þeirri spurningu hvort grímuskylda fyrir nemendur drægi úr útbreiðslu SARS-CoV-2.

Óljóst hvaða skólar tóku þátt í rannsókninni

Þá hafa grunnatriði gagnanna í rannsókninni vakið upp spurningar. Samkvæmt rannsókninni voru 782 af þeim 999 opinberu skólum sem tóku þátt í rannsókninni frá Maricopa sýslu. Blaðamaður The Atlantic fékk hjá yfirvöldum í Arizona sama listann yfir þá skóla og rannsakendur höfðu fengið og á honum var 891 skóli frá Maricopa sýslu. Við skoðun listans kom í ljós að um 40 þeirra voru fjarnámsskólar, um 20 leikskólar og um 90 verknámsbrautir tengdum annars konar skólum. Þetta þýddi að eftir voru í mesta lagi u.þ.b. 740 skólar í Maricopa sem gátu tekið þátt í rannsókninni, ekki 782. Ef skólarnir voru ranglega taldir gat þá ekki verið að „faraldrar“ væru einnig ranglega taldir tengjast þeim í rannsókninni?

Í lok október leitaði blaðamaður The Atlantic svara, hjá bæði Megan Jenn rannsakanda og MMWR tímariti CDC sem birt hafði rannsóknina, um fjölda skólanna og bað ítrekað um lista yfir þá sem tóku þátt í rannsókninni. Þá spurði blaðamaðurinn einnig út í þá staðreynd að skólar með grímuskyldu og skólar sem voru ekki með grímuskyldu opnuðu á mismunandi tímum.

Hvorki tímaritið né höfundar rannsóknarinnar samþykktu að deila listanum yfir skólana eða öðrum gögnum úr rannsókninni. Tímaritið svaraði svona: „MMWR er skuldbundinn til að leiðrétta villur fljótt þegar þær eru auðkenndar. Við skoðuðum tiltekna hluti sem þú lýstir og fundum engar villur.“

Um miðjan desember deildu höfundarnir loksins takmörkuðum lista yfir skóla í Maricopa sýslu sem notaðir voru í rannsókninni. Á listanum voru að minnsta kosti þrír skóla úr annarri sýslu, Pima sýslu, þá var einn fjarnámsskóli, einn leikskóli og meira en 80 verknámsbrautir sem ekki eru raunverulegir skólar. Þegar blaðamaður bara þetta undir rannsakendur viðurkenndu þeir að hafa tekið fjarnámsskólann með fyrir mistök, en sögðu allar aðrar hugsanlegar rangar flokkanir vera á ábyrgð yfirvalda í Arizona.

Fjölmiðlafulltrúi frá háskóla aðalhöfunda rannsóknarinnar lýsti því yfir að „gögnin sem notuð voru fyrir þessa rannsókn væru algjörlega viðeigandi fyrir markmið rannsóknarinnar,“ og að „Jehn og McCullough standi við aðferðafræðina og niðurstöður úr greiningum á gögnum þeirra 999 skóla sem notaðir voru í rannsókninni.“

Noah Haber, vísindamaður og meðhöfundur „Problems with Evidence Assessment in COVID-19 Health Policy,“  sagði rannsóknina „svo óáreiðanlega að líklega hefði hún aldrei átt að fara inn í opinbera umræðu.“

Heimild: The Atlantic.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *