Laumuspil á RÚV, slökkt á Kveik

frettinPistlarLeave a Comment

Páll Vilhjámsson blaðamaður og kennari skrifar:

Á Þorláksmessu var tilkynnt að Baldvin Þór Bergsson yrði yfirmaður Kastljóss RÚV. Kortéri fyrir jól er þægilegt að fela fréttir. Í fréttayfirliti RÚV er hvergi getið um að einn úr stjórnendateymi Stefáns útvarpsstjóra hafi verið sendur inn á fréttadeild að stýra Kastljósi. Baldvin Þór kynnti sjálfur breytinguna með færslu á Facebook.

Lögreglurannsókn stendur yfir á aðild RÚV að stuldi á síma Páls skipstjóra Steingrímssonar og gögnum sem afrituð voru úr snjalltækinu og birt í fylgiritum RÚV, eins og tilfallandi lesendur vita. Til stóð að niðurstaða rannsóknarinnar lægi fyrir í desember en það dregst fram yfir áramót. Baldvin Þór var í skrifstofuvinnu þegar afbrotið var framið og líklega með hreinan skjöld. 

Þar sem niðurstöðu lögreglurannsóknar er beðið getur Stefán útvarpsstjóri ekki auglýst stöðu fréttastjóra. Rakel Þorbergsdóttir hættir á morgun. Nýr fréttastjóri getur illa verið sakamaður en nokkrir eru grunaðir. Ef allt væri með felldu væri búið að rannsaka innanhúss aðkomu starfsmanna að glæpnum og gerðar viðeigandi ráðstafanir. En Stefán útvarpsstjóri treystir ekki undirmönnum sínum að segja satt. (Geðveik staða fréttastofu að yfirmenn treysta ekki sannsögli undirmanna). Á meðan er enginn fréttastjóri. Vinnubrögðin einkennast af lausung og reiðileysi.

Fréttaskýringarþátturinn Kveikur er miðstöð atlögunnar að heilsu og eigum Páls skipstjóra. Kveikur er vikulegur þáttur. En í desember hefur verið slökkt á Kveik.

Á nýju ári gæti slokknað á fleiri týrum á Glæpaleiti en Kveik einum.

Skildu eftir skilaboð