Heilbrigðisráðherra um bólusetningu barna: Engar staðfestar rannsóknir fyrr en árið 2026

[email protected]Innlent1 Comment

Erna Ýr Öldudóttir:

„Varðandi allar greiningar, þá er það bara viðurkennt, þetta bóluefni það er samþykkt að undangenginni rannsókn á tvö þúsund börnum, þar sem reyndar koma ekki fram aukaverkanir, ef ég man þetta rétt úr því minnisblaði sem ég hef, það eru þær upplýsingar sem ég hef.“

Þetta var svar heilbrigðisráðherra, Willum Þórs Þórssonar, við fyrirspurn þingmanns Pírata, Halldóru Mogensen, á opnum fundi í velferðarnefnd Alþingis um bólusetningu 5 til 11 ára barna gegn COVID-19, sem haldinn var þann 29. desember sl.

Þingmaðurinn spurði m.a. um greiningar og rannsóknir sem lagðar eru til grundvallar ákvörðunar heilbrigðisyfirvalda um að bólusetja börn á téðum aldri.

Ráðherra sagði jafnframt að sem almennt svar við bólusetningum hingað til, væri verið að „gera þetta með það miklu hraði“ að ekki væru til staðfest svör við þeim fjölmörgu spurningum sem vakna, með rannsóknum.

„Þetta er eiginlega allt að gerast bara samhliða, og þessvegna get ég ekki svarað því hér og nú.“

Stuðst við rannsóknir bóluefnaframleiðenda sjálfra því „ógnin stafar núna“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, gerði athugasemd við að einungis væri stuðst við rannsóknir frá bóluefnaframleiðandanum sjálfum, en ekki hlutlausum aðilum, í fyrirspurn sinni til ráðherra.

„Ef ég man rétt í þessari skýrslu, þá kemur fram að það er eiginlega ekki hægt að búast við að það verði neinar staðfestar rannsóknir, fyrr en kannski [árið] 2026,“ svaraði ráðherra. Hann taldi að ekki væri hægt að bíða eftir þeim rannsóknum, vegna þess að „ógnin stafar núna“ og verið væri að horfast í augu við það.

Talsmaður Landlæknisembættisins ekki með tölfræði um aukaverkanir

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði m.a. spurt fyrr á fundinum, hvort að einhver gæti staðfest það sem hann læsi út úr upplýsingum í skráningarkerfi VAERS (e. Vaccine Adverse Event Reporting System) í Bandaríkjunum, kerfi sem heldur utan um tilkynningar um aukaverkanir vegna bólusetninga þarlendis. Tilkynningum um hjartavöðvabólgur hjá VAERS hefði fjölgað úr áður 2-300 á ári, í þrettán þúsund á árinu 2021, að sögn Arnars Þórs.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, verkefnisstjóri hjá embætti Landlæknis, svaraði fyrirspurninni. Kvaðst hún ekki vera með nákvæmar tölur um það, en benti hinsvegar á 40% almenna aukningu á hjartavöðvabólgu í Bandaríkjunum á milli áranna 2019 og 2020 „vegna þess að hjartavöðvabólga er töluvert algeng eftir Covid-sjúkdóm“.

Vita að hjartavöðvabólga er aukaverkun - fylgst verði með eftir á

Arnar Þór spurði þá hvort þau vildu tengja hjartavöðvabólgurnar við Covid frekar en bólusetningarnar.

Kamilla Sigríður ítrekaði að hún væri ekki með upplýsingarnar um fjölda tilkynninga til VAERS-kerfisins í Bandaríkjunum, en sagði: „... en þrettán þúsund hljómar ekki ósennilega miðað við þær milljónir sem hafa fengið bólusetninguna, og við vitum að þetta er aukaverkun af bólusetningunni.“

Arnar Þór spurði m.a. hvort að heilbrigðisyfirvöld væru á því að rannsóknir gerðar af bóluefnaframleiðendunum sjálfum væru trúverðugar og traustar upplýsingar til að byggja á inn í framtíðina.

Kamilla Sigríður svaraði því til að þau hefðu aldrei annað en rannsóknir framleiðenda bóluefnanna sjálfra til að byggja á, fyrst eftir að markaðsleyfi eru veitt. Fylgst yrði með uppgjörum lyfjastofnana erlendis og hérlendis eftir á.

Fundinn má horfa á hér.

One Comment on “Heilbrigðisráðherra um bólusetningu barna: Engar staðfestar rannsóknir fyrr en árið 2026”

  1. Ef þú framleiðir gena og erfðabreytt tilraunalyf sem aldrei áður hefur verið gefið mannfólki og veist að þú ert ekki skaðabótaskyldur, sérð svo sjálfur um að rannsaka aukaverkanir á fámennum hópi fólks vitandi að þú átt eftir að græða gríðarlegar upphæðir hverjar eru líkurnar á því að þú hafir ekki áhrif á niðurstöðunar?

    Eru niðurstöðunar svo góðar að þú færð Lyfjastofnunina (FDA) til að fela þær í 75 ár?

    Í augum Lyfjaframleiðenda þá eru allar aukaverkanir sem koma af þessu tilraunalyfi þess eðlis að skapa meiri tekjur í framtíðinni ekki slæmt fyrir viðskiptin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.