Fjöldadauði svartfugla á Suðausturlandi

frettinInnlendar2 Comments

Matvælastofnun (MAST) fékk tilkynningu um að fjöldi svartfugla hefði fundist dauðir á Suðausturlandi. Fuglshræjum hefur verið safnað til rannsóknar. Mikið er um fuglaflensusmit í Evrópu og er það ekki útilokað sem orsök í þessu tilviki, þó að ólíklegt sé.

Tilkynningin frá MAST:

Matvælastofnun fékk tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands þann 11. janúar, um að fjöldi svartfugla hafi fundist dauður á Suðausturlandi. Starfsfólk Náttúrustofu Austurlands hefur gengið fjörur og safnað hræjum til rannsóknar. Mikið er um fuglaflensu í Evrópu um þessar mundir, bæði í villtum fuglum og alifuglum. Þótt ólíklegt sé að fuglaflensusmit valdi slíkum fjöldadauða í villtum fuglum mun Matvælastofnun sjá til þess að sýni verði rannsökuð á Tilraunastöð HÍ að Keldum m.t.t. fuglaflensu.

Samkvæmt upplýsingum Náttúrufræðistofnunar hefur áður orðið vart slíkra tilfella. Síðasti stóri atburðurinn var veturinn 2001-2002. Um hann má lesa í grein Ólafs K. Nielsen og Ólafs Einarssonar í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags. Niðurstaða rannsóknar þeirra var að hungur hafi drepið fuglana.

Um þessar mundir er mjög mikið um fuglaflensu í Evrópu bæði í villtum fuglum og alifuglum. Flestar greiningar eru af skæðu afbrigði fuglaflensuveiru H5N1, sem er mjög sjúkdómsvaldandi fyrir fugla. Það er mikilvægt að vera á verði fyrir óeðlilegum dauða í villtum fuglum, því ef smit finnst í þeim þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að fyrirbyggja eins og kostur er að smit berist í alifugla.

Þrátt fyrir að farfuglatímabilið sé ekki hafið er ekki hægt að útiloka að skæðar fuglaflensuveirur séu til staðar í villtum íslenskum fuglum yfir veturinn. Faraldsfræðin hvað þetta varðar er þó óljós. Í öllu falli skal hafa samband við Matvælastofnun þegar villtur fugl finnst dauður, nema ef augljóst er að hann hafi drepist af slysförum. Best er að tilkynna það með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar. Þegar Matvælastofnun berst tilkynning metur stofnunin hvort taka skuli sýni úr fuglinum. Ef taka þarf upp dauðan fugl skal það gert með einnota hönskum og hann settur í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fuglinn upp með pokanum og draga pokann svo yfir fuglinn og loka fyrir.

Þau afbrigði veirunnar sem nú er mest um í nágrannalöndum okkar, hafa ekki valdið sýkingum í fólki. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því mjög litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum.

Útbreiðslu fuglaflensu í löndum Evrópusambandsins má sjá á korti ítölsku rannsóknarstofnunarinnar IZSVe, sem er tilvísunarrannsóknarstofa ESB fyrir fuglaflensu, og útbreiðslu í Bretlandi má sjá á korti Animal and Plant Health Agency.

2 Comments on “Fjöldadauði svartfugla á Suðausturlandi”

  1. Ég heyrði að Kári hafi verið að gera tilraunir á nýju íslensku bóluefni og sprautaði þessa fugla. Við erum næst, og börnin okkar líka.

  2. Hefur verið kannað hvort að þessir fuglar hafi verið nýbúnir að fá örvunnarskamt??? Þetta hringir í að minsta einhverjum viðvörunar bjöllum hjá manni.

Skildu eftir skilaboð