,,Ég er frá ríkinu og kominn til að hjálpa“

frettinPistlar2 Comments

Grein eftir Skúla Sveinsson lögmann:

Á blaðamannafundi 12. ágúst 1986 sagði Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, þessi fleygu orð: "The nine most terrifying words in the English language are: I’m from the government and I’m here to help." (Níu mest ógnvekjandi orðin í enskri tungu eru: Ég kem frá ríkinu og er hér til að hjálpa).

Ríkið býður hjálp í samstarfi við stórfyrirtæki

Nú er sá tími runninn upp að ríki eru að koma og bjóða fram hjálp sína, þó að þessu sinni í nánu samstarfi við stórfyrirtæki. Okkur mun standa þessi hjálp til boða eða ef til vill er réttara að segja „frelsun“ í formi þess sem nefnt hefur verið ,,Nýtt upphaf“ (The Great Reset).

Kynningarfundur var haldinn á þessu ,,Nýja upphafi“ á vegum Festu, félags um samfélagsábyrgð, í samstarfi við World Economic Forum, þann 28. janúar 2021. Það er áhugavert að kynna sér hvað til stendur: (sjá auglýsingu neðar).

Janúarráðstefna Festu 2021 - Nýtt upphaf

Áætlunin um ,,Nýja upphafið“ hefur verið soðið saman af völdum þjóðarleiðtogum, hagsmunasamtökum atvinnulífsins, stórfyrirtækjum og auðmönnum. Samstarf þessara aðila verður þó ekki talið annað en hjónaband valda og áhrifa, með einhverskonar innblæstri af bókinni How to Win Friends and Influence People.

Þessir aðilar ætla sér þó að leiða okkur almenning inn í ,,Nýja upphafið“ sem er einhverskonar meiriháttar samfélagsleg umbylting, þar sem allir (eða flestir) verða eignalausir en samt sem áður mjög hamingjusamir með það. Ástæða þess að við þurfum nauðsynlega á ,,Nýja upphafinu“ að halda er sú að heimurinn er að farast og þessir aðilar ætla að koma okkur almúganum til bjargar. Fyrir þá sem vissu það ekki, þá er heimurinn að farast annars vegar af völdum loftslagsbreytinga og svo vegna heimsfaraldurs.

Óljós framtíð en ríkið fær aukin völd

Sú framtíð sem okkur stendur til boða er þó afar óljós en þó liggur fyrir að í henni felst að ríki verða að fá verulega meiri völd og stjórntæki í hendur til að hafa hemil á almenningi, sem er við það að fara sér að voða. Þeir segja þó ekki berum orðum að draga eigi úr frelsi og borgaralegum réttindum almennings en það liggur í hlutarins eðli að slíkt er óhjákvæmilegt ef fela á ríkisvaldinu stóraukin völd og verkfæri til að takmarka athafnafrelsi almennings.

Þetta ,,Nýja upphaf“ er kynnt fyrir okkur með þeim hætti að hinn „Nýi heimur“ eigi að vera sjálfbær og byggður upp á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar. Þessi tvö hugtök, þ.e.a.s. sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð eru þó mjög óljós og hlaðin pólitísku inntaki. Þau eiga það þó einna helst sameiginlegt að vera nánast heilög og hafin yfir alla gagnrýni. Inntaki hugtakanna svipar í raun meira til trúarbragða þar sem gagnrýnendur eru bannfærðir og útskúfaðir sem trúvillingar fyrir það eitt að hafa uppi efasemdir.

Hið ,,Nýja upphaf“ er því í raun ekkert annað en trúarbrögð, sem kallar á sannfæringu og skólun hinna trúuðu, sbr. námskeið sem samtökin halda fyrir upprennandi pólitíska leiðtoga eins og forsætisráðherrann okkar. Ekki er þó vitað hversu langt hún er komin í náminu en það er a.m.k. hafið.

En með hvaða hætti ættu hagsmunir ríkisvaldsins, stórfyrirtækja og auðmanna að liggja saman að vinna að því markmið að stórauka völd og umsvif ríkisvaldsins?

Skýringin er sú að það er hagstætt fyrir stórfyrirtæki og ráðandi aðila á makaði að regluverkið sé umfangsmikið og flókið, þannig að afar kostnaðarsamt sé að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru og sífellt sé komið á nýjum íþyngjandi kröfum. Minni fyrirtæki ráða ekki til lengdar við þetta flókna regluverk og með því myndast jafnframt verulegar aðgangshindranir. Þegar regluverkið er komið á þetta stig, þá er það í raun bara á færi stórfyrirtækja að fylgja eftir þeim margbrotnu, matskenndu og síbreytilegu reglum sem eru í gildi. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa einfaldlega ekki bolmagn til þess og verða því óhjákvæmilega undir í samkeppninni við stórfyrirtækin. Reglubyrðin bitnar ávallt hlutfallslega þyngst á minni fyrirtækjum.

En af hverju þenst regluverkið sífellt út?

Ástæðan er sú að stórfyrirtæki hafa hagsmuni af flóknu regluverki og hagsmunasamtökum atvinnulífsins er stjórnað af þessum stórfyrirtækjum. Hagsmunasamtök atvinnulífsins eru því fylgjandi flóknu regluverki og ná þar vel saman við embættismannakerfið, sem beinlínis lifir á slíkum regluflækjum.

Vinnuhópur á vegum forsætisráðuneytisins

Árið 2014 var settur á fót vinnuhópur um eftirlitsstofnanir á vegum forsætisráðuneytisins en greinarhöfundur var þeim heiðri aðnjótandi að leiða starf þess vinnuhóps. Hluti af starfi vinnuhópsins var að ganga á fund stjórnenda allra eftirlitsstofnanna landsins.

Allir stjórnendurnir voru spurðir sömu spurningarinnar, þ.e.a.s. hvað væri helsta vandamálið í starfsemi viðkomandi stofnunar. Allir svöruðu spurningunni með sama hætti, að aðal vandamálið væri að þá vantaði meira fjármagn til að efla starfsemina. Þeim virðist hafa orðið af ósk sinni. Ég hef reyndar aldrei heyrt opinberann starfsmann óska eftir minna fjármagni til sinnar stofnunar ekkert frekar en ég hef heyrt skipstjóra kalla eftir minni aflaheimildum.
Hér má nálgast skýrslu vinnuhópsins:

Frá því að vinnuhópurinn skilaði skýrslu sinni árið 2014 og lagði til margvíslegar breytingar á eftirlitsstarfsemi hefur umfang starfsemi þessara eftirlitsstofnanna tvöfaldast. Enginn árangur hefur náðst í að hafa hemil á útþenslu starfsemi þeirra, valdheimildum né regluverkinu. Jafnframt bendi ég á að ef eftirlit og vald færist í auknu mæli til alþjóðlegra stofnana, með tilheyrandi auknum kostnaði og fjarlægð, þá á það eftir að koma sér mjög illa fyrir íslensk fyrirtæki, sem eru að meginstefnu lítil og meðalstór.

Eitt af þeim atriðum sem bent var á í skýrslunni er að stofnanirnar þyrftu að vera fjárhagslega sjálfstæðar en ekki upp á eftirlitsþola sína komna með fjármuni til að kosta rekstur eftirlitsstarfseminnar. Það býður m.a. upp á óeðlileg hagsmunatengsl (e. Regulatory Capture), þannig að eftirlitsaðilinn sé beinlínis farinn að hafa viðskiptalega hagsmuni eftirlitsþolans að leiðarljósi í starfi sínu. Slík óeðlileg hagsmunatengsl eru þegar til staðar t.d. í Bandaríkjunum, sbr. bandaríska lyfjaeftirlitið, þar sem naflastrengur er á milli þeirrar eftirlitsstofnunar og lyfjarisanna.

Endurmenntun í samfélgaslegri ábyrgð

Meginmarkmið ,,Nýja upphafsins“ um að stórauka umsvif ríkisins, reglur og takmarkanir, fer einfaldlega engan veginn saman við aukna hagsæld almennings, nýsköpun, tækifæri eða umhverfisvernd. Endurmennta á okkur í samfélagslegri ábyrgð þar sem búið er að sannfæra okkur um að við séum ábyrgðarlausir kjánar sem þurfum gæslu, þá alræðis- og allsherjargæslu. Alræðisstjórnir hafa hins vegar skeytt lítið um umhverfið og þegna sína almennt. Slíku er aðeins haldið fram á meðan nýir valdhafar komast til valda en svo er það gleymt.

Ef áætlunin um ,,Nýja upphafið“ kemst að fullu í framkvæmd, þá með því að almenningur verði eignalaus og alfarið upp á stjórnvöld kominn, mun það ekki leiða til hamingju heldur eymdar. Ein af lykilforsendum þess að geta verið hamingjusamur er að njóta frelsis, svo sem til að eiga heimili sitt og aðrar eignir sjálfur en vera ekki upp á ríkið komið með góðfúslegt leyfi til dvalar á eigin heimili. Sjá spádómana átta frá World Economic Forum:

Velmegunarsamfélag næst ekki fram með alræði ríkisvaldsins en ég lýk þessum skrifum með tilvitnun í Milton Friedman:
„If you put the federal government in charge of the Sahara Desert, in 5 years there'd be a shortage of sand.“

Önnur ráðstefna á vegum Festu verður haldin 27. janúar n.k.

Auglýsing Festu 2021 um ,,Nýtt upphaf“

2 Comments on “,,Ég er frá ríkinu og kominn til að hjálpa“”

  1. Góð grein en alltof fáir sem nenna að kynna sér þessi mál.

    Það er margt sem WEF og þjónar þeirra segja ekki frá; Eins og það að fólk mun ekki fá að ferðast vegna smithættu, og mengunar (sem þeir segja að leiði til hamfara-veðrabreytinga, en aðallinn í WEF mun ferðast óhindrað á sínum einkaþotum).

    4 iðnbyltingin: vélar og AI taka allt yfir. Það verður gríðarlegt eftirlit gagnvart borgurum og engin þörf á þér lengur ( almenningur eru „useless eaters“).Þú munt væntalnlega þurfa að leita hamingjunnar í fantasíuheima Metaverse-ins. Í gegnum eftirlitskerfinu munu þeir reyna að koma á hegðunar-kúgunarkerfi og munu geta slökkt á þér hvenær sem er með CBDC peningakerfinu. Þeir munu geta gert þig eignalausan þegar að þú getir ekki greitt reikninga af því að þú hefur ekki aðgang að þínum fjármunum. Og þar sem fjöldinn verður eignalaus, hverjir eiga þá allt? Að sjálfsögðu verða það þeir!

    Glæsileg framtíðarsýn þarna á ferðinni.

  2. Takk fyrir þessa grein Skúli. Vá hvað ég fattaði svo margt sem ég gat pússlað saman núna.
    #1 Var að velta fyrir mér hvað væri á bak við útþennslu ríkisstofnanna og síaukningu á launum ríkisstarfsmanna og með nær helming eða 50% atvinnufólks á Íslandi (talið upp frá kennurum) vinnandi fyrir ríkið.

    #2 Gott er að vita að með cirka 33% vinnandi fyrir ríkið er núþegar social state. Hvað þá 50%.

    Vá hvað ég væri til í að eiga við þig spjall Skúli … og ræða „hvað get ég eða venjulegur einstaklingur gert“ eða stefnt á til að vinna í átt að meira persónulegu frelsi og í átt þar sem sem nýt mín og þar með allir sem tengjast mér og verða fyrir jákvæðum áhrifum frá mér?

Skildu eftir skilaboð