Helga Vala: ,,heilbrigðiskerfið ekki staðist prófið í geðheilbrigðismálum“

frettinInnlendar1 Comment

Á þingfundi í morgun í sérstakri umræðu um Sóttvarnir og takmarkanir á daglegt líf í bólusettu samfélagi sagði Helga Vala Helgadóttir að heilbrigðiskerfið hefði staðist prófið hvað snerti Covid. Það væru ekki mörg andlát hvað það varðaði, en hún mótmæli því harðlega að heilbrigðiskerfið hafi staðist prófið þegar kæmi að geðheilbrigðismálum. 

,„Hvað er verið að gera í því? Er hægt að halda því fram að heilbrigðiskerfið hafi staðist prófið þegar 13 ára gömlu barni með þrjár sjálfsvígstilraunir að baki á síðustu tíu mánuðum er vísað út af BUGL, bráðameðferð á BUGL, og inn í biðlistakerfi sem mun vara a.m.k. í næstu 10–12 mánuði?“

„Þetta er Ísland í dag. Ríkisstjórnin er fallin á geðheilbrigðisprófinu, er fallin á prófi er varðar það að grípa almenning á Íslandi. Það kemur ítrekað í ljós að sjálfsvígum hefur fjölgað umtalsvert. Við fáum ekki einu sinni tölurnar fyrir síðasta ár. Við erum með tölur fyrir þarsíðasta ár af því að embætti landlæknis treystir sér ekki til að birta tölur fyrr en sex mánuðum eftir áramót. Það er ekkert að frétta, virðulegur forseti, ekkert, þegar kemur að því að grípa ungmennin okkar sem sýna verulega vanlíðan þegar kemur að geðheilbrigði. Það er ekkert að frétta af því hvernig verið er að grípa almennt launafólk sem sýnir verulegan vanda þegar kemur að geðheilbrigði vegna Covid. Og það er ekkert að frétta þegar kemur að því að kanna ástand eldra fólks sem hefur meira og minna verið innilokað allt Covid-tímabilið. Nei, herra forseti. Heilbrigðiskerfið stóðst ekki prófið. Ríkisstjórnin féll á þessu prófi.“

Hún sagðist jafnframt styðja mál Viðreisnar um að þingið ætti að staðfesta sóttvarnaðgerðir.

Bráðabirgðaútgáfa af allri ræðunni má lesa hér.

One Comment on “Helga Vala: ,,heilbrigðiskerfið ekki staðist prófið í geðheilbrigðismálum“”

  1. Rétt hjá þér Helga, þessar aðherðir vegna covid eru mun verri heldur en veikindin sjálf. Fólk á eftir að vera í sjokki þegar uppgjörið verður og dómsmálin byrja af alvöru. Þessi tími mun vera notaður sem viðvörun fyrir komandi kynslóðir hvernig á EKKI að gera hlutina. Enda þarf að fela tölur og gögn til að láta það líta öðruvísi út en það er.

Skildu eftir skilaboð