Óttast að læknar þori ekki að tjá sig séu þeir ósammála stjórnvöldum

frettinInnlendar2 Comments

Kolbrún Bergþórsdóttir rithöfundur og fjölmiðlakona, skrifar pistil í Fréttablaðið í gær sem ber yfirskriftina Gagnrýnin. Kolbrún óttast að læknar þori ekki að tjá sig er þeir eru ósammála stjórnvöldum í sóttvarnaraðgerðum, Kolbrún bendir á að ávalt sé vísað í sérfræðinga en sérfræðingarnir séu líka ósammála.

Kolbrún skrifar:

„Mikil áhersla hefur verið lögð á það á Covid-tímum að skylt og rétt sé að hlýða sérfræðingum enda hafi þeir vit á hlutunum. Svo sannarlega ber að hlusta á sérfræðinga en hins vegar gleymist furðu glatt að þeir eru ekki allir sammála. Sérfræðingarnir sem eru ósammála Covid-aðgerðum stjórnvalda fá hins vegar lítið sem ekkert vægi í umræðunni, skoðanir þeirra eru talaðar niður eða jafnvel látið eins og þeir séu ekki til.

Þetta getur hvorki talist gott né hollt. Hér á landi hafa sóttvarnayfirvöld sagt að þau séu ekki alvitur og hafa, þegar vel liggur á þeim, beðið um gagnrýni. Verra er að þegar sú gagnrýni hefur komið hafa viðbrögðin verið ansi dræm og jafnvel hefur verið gert lítið úr þeim sem koma fram með hana. Meðferðin á Jóni Ívari Einarssyni, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Boston, er dæmi um þetta.

Kolbrún segir að sóttvarnayfirvöld hafi gjarnan beðið um gagnrýni, en þegar hún hafi komið hafi gjarnan lítið verið gert úr þeim sem gagnrýnir. Í því samhengi minnist hún á Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, og segist vona að það sama gerist ekki við Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­mann Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala, en hann hefur talað fyrir frekari afléttingum á sóttvarnarreglum.

„Það er mikilvægt að læknar tjái sig um Covid-ástandið, hvort sem þeir vilja ganga fullkomlega í takt við aðgerðir sóttvarnayfirvalda eða fara aðrar leiðir. Það má allavega ekki verða þannig að læknar veigri sér við að tjá sig af ótta við að vera kallaðir inn á teppi hjá yfirboðurum sínum og fái þar skammir fyrir að hafa „rangar“ skoðanir.“ segir Kolbrún.

Í lok pistils síns segir hún mikilvægt að fólk hlusti á ólíkar raddir, og að málefnaleg umræða þurfi að eiga sér stað.

„Í erlendum fjölmiðlum má einstaka sinnum sjá viðtöl við sérfræðinga sem eru ósammála þeim leiðum sem stjórnvöld í landi þeirra hafa valið að fara. Þeir tala til dæmis gegn útgöngubanni, hafa efasemdir um gagnsemi þess að almenningur noti grímu, eru fylgjandi bólusetningum en segja um leið ónauðsynlegt að bólusetja ung börn. Þessir sérfræðingar eru ósammála reglum sem sóttvarnayfirvöld hafa mælt með og stjórnvöld fylgt. Það ætti að vera sjálfsagt og eðlilegt að hlusta á rök þessara sérfræðinga í stað þess að láta eins og þeir séu hluti af hvimleiðum og of fjölmennum hópi afneitunarsinna sem eru uppfullir af samsæriskenningum.

Í þessum málum, eins og öðrum, þarf að eiga sér stað málefnaleg umræða, án æsings og upphrópana.“

Pistilinn í heild sinni má lesa hér.

2 Comments on “Óttast að læknar þori ekki að tjá sig séu þeir ósammála stjórnvöldum”

  1. Sumir virðast halda að málfrelsi og skoðanafrelsi sé aðeins fyrir vinsælar skoðanir. Þetta er leið til að innleiða alræði afglapanna.

  2. Ha, ha, Kolbrún er að leika úlf í sauðagæru með þessum pistli. Hún vill ekki neitt raunverulegt val við stefnu stjórnvalda og lyfjarisanna. Hún vill bara fá að velja milli ofstækis og meira ofstækis. Bara Coke eða Pepsi ekki hreint vatn.

Skildu eftir skilaboð