Samtökin Frelsi og ábyrgð senda umsögn um frumvarp til laga um sóttvarnir

frettinInnlendar1 Comment

Fyrir hönd samtakanna Frelsi og ábyrgð hefur Arnar Þór Jónsson, lögmaður, fyrrverandi dómari og kennari við Lagadeild HR, sent inn mjög ítarlega og vandaða umsögn um frumvarp til laga um sóttvarnir.

Í umsögninni er eindregið varað við því að þingmenn nálgist af alvöruleysi umfjöllun um þau atriði sem hér greinir. Fyrir liggur að sóttvarnalög og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra hafa verið nýttar til að þrengja að frelsi borgaranna. Þannig hafa tugþúsundir Íslendinga á þessum grunni sætt sóttkví og einangrun, auk þess sem eftirlit stjórnvalda hefur verið stóraukið, ferðafrelsi skert o.m.fl."

Útdráttur úr inngangi:

Frumvarp þetta dregur fram hina raunverulegu átakalínu nútímastjórnmála, sem liggur nú ekki eftir hefðbundnum hægri / vinstri ás. Sú óheillaþróun í samskiptum ríkis og borgara sem átt hefur sér stað á síðustu misserum, þar sem mörkin milli einkalífs og opinberra valdheimilda verða sífellt óljósari og stjórnvöld seilast sífellt lengra inn á hið persónulega svið, er til marks um það að hinar pólitísku línur hafa riðlast. Í þeirri varnarbaráttu sem frelsisþenkjandi fólk þarf nú að heyja finna menn samherja í hópi fyrrverandi mótherja. Vinir lýðræðis, einstaklingsfrelsis, nálægðarreglu (þ. Subsidiaritätsprinzip), sjálfsákvörðunarréttar og sjálfsábyrgðar sameinast nú í vörn og sókn gegn þeim sem fylkja sér að baki skrifræði, forræðishyggju, ofríki og fjarlægu miðstýrðu embættis- og stofnanavaldi sem svarar ekki til neinnar lýðræðislegrar ábyrgðar. Í því samhengi skal áréttað að félagsmenn umbj.m. spanna breitt og öfgalaust pólitískt litróf. Markmið þeirra með því að senda inn athugasemdir þessar er að leggja lóð sín á vogarskálar frjálslynds lýðræðis, mannréttinda og borgaralegs frelsis, gegn stjórnlyndi og kreddum, sérfræðingastjórn, kúgun og helsi.

Brot úr fjölmörgum góðum athugasemdum:

Gera ber alvarlegar athugasemdir við víðtæka skilgreiningu frumvarpsins á hugtakinu farsótt. Þar er ótækt að vísa almennt til „sjúkdóms“, án þess að það hugtak sé nánar skilgreint, þegar mun betur færi á að vísað væri til „alvarlegs smitsjúkdóms“ með tilheyrandi skilgreiningum. Ekki blasir við hvers vegna lagt er til að þar undir falli „ákveðið heilsutengt atferli“ eða „aðrir atburðir sem lúta að heilsu fólks“. Með þessu er verið að opna handhöfum ríkisvalds allt of rúmar heimildir. Þessa skilgreiningu ber að þrengja þannig að engum vafa sé undirorpið að sóttvarnarráðstöfunum verði ekki beitt nema í þágu raunverulegra sóttvarna, þ.e. þegar um alvarlega smitsjúkdóma er að ræða
Gera verður eftirfarandi athugasemdir við orðskýringu í 4. gr. frumvarpsins á því sem kallað er ,,samfélagslega hættulegur sjúkdómur”. Í frumvarpinu skírskotar þetta orðalag til alvarlegs sjúkdóms ,,sem veldur eða getur valdið alvarlegri röskun á mikilvægum störfum, innviðum samfélagsins og/eða sem leitt getur til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu”. Af hálfu umbj.m. er ofuráhersla lögð á að frumvarpið reisi viðeigandi varnarmúra í þessu samhengi þannig að tryggt sé að handhafar ríkisvalds orsaki ekki sjálfir eða viðhaldi hættuástandi með því að láta undir höfuð leggjast að bregðast, án tafar, við röskun á mikilvægum störfum, með því að styrkja innviði og leggja sannanlega allt kapp á að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið í því skyni að aflétta hættuástandi sem allra fyrst. Framangreind afstaða umbj.m. byggir á skírskotun til þess að heimatilbúin innviðakrísa getur ekki talist réttlæta að meginreglum réttaríkisins og stjórnskipunarinnar sé ýtt til hliðar í nafni hættuástands. Stjórnvöldum leyfist m.ö.o. ekki að rökstyðja íþyngjandi ráðstafanir gagnvart borgurunum með vísan til hættu- eða neyðarástands ef valdhafar hafa í reynd sjálfir stjórn á aðstæðum sem skapa hættuástandið. Hér á Íslandi hafa frelsisskerðingar sl. tveggja ára verið réttlættar með vísan til þess að Landspítalinn sé við þolmörk eða ráði ekki við meira álag. Með vísan til framanritaðs getur þetta vart haldið sem réttlætingarástæða, sérstaklega ekki þegar litið er til þess að legurýmum á íslenskum heilbrigðisstofnunum fækkaði úr 1283 (árið 2007) í 1009 (2020) og að fækkunin er enn meiri ef þetta er sett í samhengi við fólksfjölgun á sama tíma, þ.e. úr 412 rúm per 100.000 íbúa 2007 í 297 rúm per 100.000 íbúa árið 2020.

Hér má lesa umsagnir um frumvarpið, meðal annars frá umboðsmanni barna, Atla Árnasyni lækni og Vilhjálmi Ara Arasyni lækni. Umsögn Arnars Þórs er númer 10.

One Comment on “Samtökin Frelsi og ábyrgð senda umsögn um frumvarp til laga um sóttvarnir”

  1. Arnar er flottur og með sterka réttlætiskennd, það er einmitt fólkið sem við þurfum á þessum tímum.

Skildu eftir skilaboð