Þegar staðreyndatékk snýst ekki um staðreyndir

frettinPistlar1 Comment

Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur skrifar: (Greinin birtist upphaflega á ensku í vefmiðlinum The Daily Sceptic 10. feb. 2022).

Allt frá því að ég áttaði mig á þeim hrikalegu áhrifum sem lokanir og hindranir vegna kórónaveirunnar myndu hafa um allan heim, hef ég tekið virkan þátt í andspyrnu gegn þeim. Fyrsta verkefni mitt, í október 2020, var að taka viðtal við hinn heimsþekkta faraldursfræðing Martin Kulldorff, einn af höfundum Great-Barrington yfirlýsingarinnar, sem færir rök fyrir markvissri vernd í stað almennra lokana.

Kulldorff kom einnig við sögu þegar ég rak mig fyrst með eftirminnilegum hætti á afleiðingarnar af athöfnum svonefndra staðreyndatékkara, „fact-checkers“. Síðasta sumar sagðist sóttvarnalæknir í viðtali telja að hjarðónæmi myndi aldrei nást með bólusetningu, aðeins með sýkingum. Ég setti hlekk á viðtalið inn á LinkedIn samfélagsmiðillinn. Kulldorff deildi færslunni minni og það næsta sem hann vissi var að hans færsla hafði verið fjarlægð. Augljóslega hafði staðreyndatékkara ekki líkað við það sem íslenski sóttvarnalæknirinn sagði og ákveðið að almenningur ætti ekki að vita það.

„Staðreyndatékk“ er ógn við málfrelsið

Meðal þess sem ég hef fengist við í baráttunni gegn misráðnum „sóttvarnaraðgerðum“ er að taka þátt í að stýra ört vaxandi Facebook hópi sem kallast Heildarmyndin og hefur að markmiði að veita breiðari sýn á ástandið, þar á meðal neikvæð áhrif lokana og hindrana. Eftir því sem á hefur liðið hafa vaxandi áhyggjur af skilvirkni og öryggi fjöldabólusetningar síðan orðið fyrirferðarmeira umræðuefni í hópnum. Þetta er erfitt verkefni þar sem við verðum alltaf að gæta þess að samþykkja ekki færslur sem innihalda efni sem af einhverjum ástæðum er ekki í samræmi við heimsmynd staðreyndatékkaranna. Við sjáum auðvitað við og við einkennilegar samsæriskenningar, en aðallega snertir efnið sem við þurfum að hafna einfaldlega óþægilegar staðreyndir eða vel rökstuddar skoðanir, jafnvel frá virtum vísindamönnum, en sem eru ekki í samræmi við skilaboð yfirvalda.

Athugun á staðreyndum er ekkert nýtt og þar til nýlega var það bara það, að kanna staðreyndir. En frá því mjög snemma í heimsfaraldrinum hefur staðreyndatékkurum verið minna umhugað um staðreyndir, en fremur, og í sumum tilfellum eingöngu, að loka á allt sem stríðir gegn þeirra eigin skoðunum. Á hverjum degi birtast hundruð slíkra greina, sem síðan eru notaðar til að réttlæta ritskoðun. Eftirfarandi dæmi er lýsandi fyrir þetta:

Umfjöllun um óheillavænlega þróun afskrifuð sem falsfrétt

Nýlega tóku opinber skosk gögn að sýna að Covid-19 sýkingar, sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll eru að verða tíðari meðal tvíbólusettra en óbólusettra. Nýjasta skýrslan sýnir að sýkingartíðni meðal tvísprautaðra er nú tvöfalt hærri en hjá ósprautuðum og 50% hærri hjá þrísprautuðum. Sjúkrahúsinnlagnir eru hærri meðal tvísprautaðra en óbólusettra og dánartíðni er tvöföld. Þetta er áhyggjuefni og hefur vakið nokkra athygli þeirra sem fylgjast með slíkri tölfræði. Ég skrifaði stutta Facebook-færslu um þetta um daginn, þar sem ég vitnaði í grein sem fjallaði um þessa þróun. Nokkrum dögum síðar hafði hinni kunnuglegu viðvörun um „falskar upplýsingar“ verið skellt á færsluna mína.

Ég ákvað að fylgja eftir staðreyndatékki sem vísað er til í viðvöruninni, grein eftir Dean nokkurn Miller, ritstjóra hjá Lead Stories, einum af miðlunum sem birta oft greinar sem notaðar eru til að réttlæta ritskoðun. Miller er með BA próf í ensku en virðist ekki hafa neina vísindamenntun.

Miller byrjar á að fullyrða að það sé samdóma álit „heilsutölfræðinga“ sem „starfa sjálfstætt“ að bólusetning dragi úr líkum á sjúkrahússvist og dauða og að þar sem bólusettir hafi tilhneigingu til að vera eldri en óbólusettir, komist „áhugatölfræðingar“ oft að röngum niðurstöðum á grunni opinberra gagna. Miller vitnar síðan í faraldursfræðing sem bendir á ýmsa þætti sem „geti“ haft áhrif á tölurnar. Í fyrsta lagi að ótilgreind smitrakningargögn sýni að þeir sem eru bólusettir séu líklegri til að láta prófa sig. Enga heimild er að finna þessu til stuðnings. Í öðru lagi að þeir sem eru bólusettir séu líklega eldri en þeir sem ekki eru bólusettir og því viðkvæmari almennt. Í þriðja lagi að bólusettir kunni að hegða sér öðruvísi en óbólusettir þegar kemur að félagslegum samskiptum. Í fjórða lagi að óbólusettir séu líklegri til að hafa áður smitast af veirunni.

Staðreyndum mætt með órökstuddum getgátum

Ekkert af þessu er endilega ósatt. En greinin vísar ekki til neinna heimilda sem sýna að bólusett fólk hegði sér öðruvísi en óbólusett fólk, sem myndi gera það líklegra til að komast í snertingu við sýkta einstaklinga. Við höfum heldur enga leið til að meta hvort hið gagnstæða sé satt. Þetta eru með öðrum orðum hreinar getgátur sem engar sannanir eru færðar fyrir. Hvort bólusett fólk sé líklegra til að láta prófa sig eru líka getgátur. Sama gildir um fullyrðinguna um að óbólusettir séu líklegri til að hafa áður smitast. Raunar er það fremur ólíklegt í ljósi þess að fjölmargar rannsóknir hafa þegar sýnt fram á að fyrri sýking veitir sterka og varanlega vernd og óbólusettir ættu því að vera ólíklegri til að mæta í veirupróf en aðrir, hafi þeir þegar smitast.

Þrjár af röksemdum Millers eru því hreinar getgátur, engar tölulegar stærðir eru tilteknar og vangavelturnar eru ekki studdar neinum heimildum. En hvað með síðustu röksemdina, að hinir bólusettu hafi tilhneigingu til að vera eldri og því líklegri til að leggjast inn á sjúkrahús eða deyja? Þetta lítur vissulega út fyrir að vera gild röksemd, því við vitum að það eru fyrst og fremst aldraðir sem veikjast alvarlega af Covid-19. En hversu sterk er þessi röksemd í raun og veru, og á hún við?

Þar er fyrst til að taka að það hefur ekkert með líkur á smiti að gera að einstaklingur sé í hættu á alvarlegum veikindum eða dauða ef hann smitast. Líkurnar ættu raunar fremur að vera minni en meiri, þar sem viðkvæmur einstaklingur gæti verið líklegri til að forðast aðstæður þar sem líklegt er að hann smitist. Hvað varðar sjúkrahúsinnlögn og andlát eru gögnin sem koma fram í skýrslum Public Health Scotland raunar aldursstöðluð. Þetta þýðir að aldurstengdar líkur á dauða eru þegar teknar fyrir í tölfræðinni. Lykilrök Millers, og eina röksemd hans sem ekki er byggð á getgátum einum saman, er því einfaldlega ógild. Svo virðist sem honum hafi annað hvort láðst að kynna sér aðferðafræðina sem greiningin byggir á eða ekki skilið hana.

Ritskoðun grundvölluð á þekkingarleysi

Veikleikarnir röksemdafærslu Millers koma þó ekki í veg fyrir að hann hafni því afdráttarlaust að samanburður á smittíðni sé gild vísbending um virkni bóluefnisins. Og auðvitað hindra þeir ekki að fjölmiðlar og samfélagsmiðlar noti fullyrðingu hans, byggða á vangaveltum og skorti á grunnskilningi á gögnunum, til að ritskoða umræðu um óvænta þróun sem vekur áhyggjur og kallar svo sannarlega á ítarlega rannsókn.

Þegar ég sýndi skoskum kunningja mínum þessi gögn nýlega, gaf hann til kynna að þau skipti engu máli fyrir aðrar þjóðir; Skotar væru erfðafræðilega ólíkir öðru fólki þar sem mataræði þeirra hefði um langa hríð samanstaðið af litlu öðru en frönskum kartöflum, Marlboro sígarettum og Irn-bru, sem er sérskoskur gosdrykkur. Ég verð að viðurkenna að skýring hans er ekkert óskynsamlegri en skýringar Millers!

En það er raunar ekki aðeins á Skotlandi sem þessi einkennilega þróun í smittíðni á sér stað. Fyrir nokkrum vikum birti ég grein í The Daily Skeptic þar sem fjallað var um svipaða þróun á Íslandi: Í byrjun janúar sýndu gögn að tvíbólusettir smituðust tvöfalt tíðar en óbólusettir. Þetta grefur undan „mataræðisskýringu“ kunningja míns, því á Íslandi sjóðum við kartöflurnar, reykjum Camel fremur en Marlboro og Irn-Bru hefur aldrei verið fáanlegt. Ekkert „staðreyndatékk“ hefur enn verið birt til að reyna að vefengja þessi gögn. Hins vegar hækkaði Landlæknisembættið áður birta sýkingartíðni óbólusettra skyndilega um 20% á vef sínum, án skýringa, fljótlega eftir að bent var á þessa þróun og þrátt fyrir eftirgrennslan hefur engin ástæða fengist upp gefin.

Snýst blaðamennska um staðreyndir eða getgátur?

Því miður er grein Millers ekki eina dæmið um „staðreyndatékk“ sem hunsar eða brenglar staðreyndir, eða bregst við gögnum með hreinum getgátum. Þessi slælegi fréttaflutningur virðist orðinn viðmið „staðreyndatékkara“ þegar kemur að heimsfaraldrinum. Sumir hafa jafnvel viðurkennt að dómarnir sem þeir fella grundvallist í raun aðeins á þeirra eigin skoðunum. Og hefðbundnu fjölmiðlarnir eru engin undantekning. Sem dæmi má nefna að Scottish Herald birti nýlega grein um þetta sama efni, og þar var einnig horft algerlega framhjá þeirri staðreynd að gögnin eru aldursstöðluð.

Það er göfug viðleitni að reyna að tryggja að staðreyndir fremur en skáldskapur móti almenningsálitið. En því miður lítur út fyrir að þeir sem iðka „staðreyndatékk“ beri litla virðingu fyrir staðreyndum. Megnið af efninu sem þeir framleiða eru einfaldlega skoðanagreinar af lágum gæðum, þar sem skortir ekki aðeins heimildir, heldur einnig, og það er enn mikilvægara, þann skýrleika í hugsun sem verður að krefjast af hverjum þeim sem tekur að sér það mikilvæga og erfiða verkefni að leiðbeina lesendum um hvað sé satt og hvað ekki.

One Comment on “Þegar staðreyndatékk snýst ekki um staðreyndir”

Skildu eftir skilaboð