Bróðurstríð í Úkraínu: Yfirskin til að taka yfir matvælaframleiðslu í Vesturheimi?

frettinErlent, Pistlar1 Comment

Úkraína er brauðkarfa Evrópu. Stríð í Úkraínu myndi hafa víðtæk áhrif á matvælaverð um allan heim. Ef það verður að raun mun það veita valdhöfum enn meiri völd yfir lífum okkar. Það myndi gefa þeim fullkomið yfirskin til að taka yfir eða stýra matvælaframleiðslu í Vesturheimi, en það er draumur allra harðstjórna.

Nú þegar Covid-19 virðist vera að fjara út, þar sem Ómíkron afbrigðið líkist kvefi, kemur bróðurstríð í Úkraínu eins og þungt högg á Vesturheim. Evrópa myndi fara úr öskunni í eldinn. Þó að sálfræðistríðið sem fylgdi Covid hafi lamað Vesturkyn myndi stríð í Úkraínu hafa enn verri áhrif.

Þeir sem myndu græða á þessu stríði væru fyrst og fremst vopnaframleiðendur en einnig yfirþjóðlegar fjármálastofnanir sem lána báðum hliðum til að halda stríðinu gangandi og þannig græða á tá og fingri.

Samkvæmt RÚV hafa bæði Bandaríkin og Bretland hvatt ríkisborgara sína til að yfirgefa Úkraínu hið snarasta.

RÚV segir 

“Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna útilokaði ekki á blaðamannafundi í gær að innrás hæfist áður en Vetrarólympíuleikunum lýkur í Peking 20. febrúar.”

“Sömuleiðis sagði Sullivan Bandaríkjastjórn vera viðbúna hinu versta, jafnvel leiftursókn að höfuðborginni Kíev.”

“Bandarískir ríkisborgarar voru því hvattir til að yfirgefa landið innan tveggja sólarhringa. Fleiri ríki hafa boðað hið sama, þeirra á meðal Danir sem jafnframt hvetja þá átta Íslendinga sem í Úkraínu eru að hverfa þaðan hið fyrsta.”

Staðan er grafalvarleg og það þarf ekki mikið til að allt fari í bál og brand.

Samkvæmt RÚV hefur Kremlin dregið hluta hersveita sinna frá landamærum Úkraínu, en það höfðu verið 100.000 hermenn í viðbragðsstöðu við landamærin. Rússnesk stjórnvöld héldu því fram að þeir hefðu einungis verið að stunda heræfingar.

Kort: (Athugið! Kortin hér að neðan geta verið búin til af hagsmunaaðilum; pro-úkraínskum og pro-rússneskum aðilum sem vilja breiða út ákveðin narratíf. Því vill Fréttin biðja lesendur um að skoða kortin með gagnrýnum augum.)

Þetta kort sýnir tungumáladreifingu innan Úkraínu. Landinu er tvískipt á milli Úkraínumanna og Rússa.

Þetta kort frá “Ukrainian 2001 Census” sýnir tungumáladreifinguna innan Úkraínu fyrir tveimur áratugum síðan. Þessi mæling var gerð allnokkru fyrir ófriðinn 2014 þegar Rússar tóku Krímskagann í gegnum bakdyrnar. Hér sést að sveitirnar eru að mestu úkraínskar en borgirnar í austurhlutanum rússneskar, að Krímskaga undanskildum en hann er nánast alrússneskur. Það er helst suðurhluti Luhansk, suður- og/eða suðausturhluti Donetsk og suðurhluti Zaporizhzia sem er rússneskur. Einnig er suðurhluti Odessa, við landamæri Moldóvu, blandaður. Á næsta korti getum við séð hvar héruðin liggja.

Þetta kort sýnir héruðin (kölluð “Oblasts”). Héruðin Luhansk, Donetsk og Zaporizhzhia eru staðsett í austur- og suð-austurhlutanum. Krímskagi er neðst og var innlimaður inn í Rússland árið 2014 sem olli deilunni.

Þessi kort sýna einnig þjóðarskiptingu landsins.

Af öllum kortunum að ofan má sjá að vesturhluti Úkraínu er úkraínskur en austurhlutinn, suðurhlutinn og suð-austurhlutinn rússneskur.

Örstutt saga Rússlands og Úkraínu

Í stuttu máli fæddist Rússland í núverandi Úkraínu í höfuðborginni Kænugarði (e. Kiev) og voru íbúarnir nefndir “Kievan Rus”. Það voru Norrænumenn sem lögðu grunninn að ríkinu gamla, en þeir sigldu knörrum og langskipum sínum um ár Austur-Evrópu og settust að í Kænugarði. Ríkið stækkaði jafnt og þétt en varð illa úti í innrásum Mongóla á 13. öld e. Kr. því að Úkraína er að mestu leyti slétta nema í vesturhlutanum. Því færðist valdið norðar í skógana miklu og lagðist grunnurinn að Moskvuborg þá.

Á 15. öld fæddist “The Grand Duchy of Moscow” sem var grunnur stórveldisins Rússlands. En á 18. öld, undir forystu Péturs mikla, varð Rússland endanlega að stórveldi. Rússland fór í leiðangra austur inn í Síberíu sem var drifið áfram af loðdýraskinnverslun en einnig til að þægja grimmu asísku hestaþjóðirnar sem réðust reglulega inn í Rússland.

Það var svo þegar Napóleon réðist inn í Rússland að það vaknaði upp fyrir Rússum að landið þeirra er berskjaldað fyrir vestan. Það er nær ómögulegt að verjast innrás úr vestri þar sem evrópska sléttan teygir úr sér austan við Karpatíufjallgarðinn í Mið-Evrópu. Rússar fengu aftur að kenna á því þegar Þjóðverjar réðust inn í Rússland í Síðari Heimsstyrjöld. Í kjölfarið komu Sovétríkin á fót leppríkjum á vesturlandamærum sínum og náðu því að mynda stuðpúða milli Moskvu og Vestur-Þýskalands. En þegar járntjaldið féll gerðust æ fleiri Austur-Evrópulönd aðilar að NATÓ sem er þyrnir í augum rússneskra stjórnvalda. Þeir vita hvers má vænta án stuðpúðans.

Þetta kort sýnir hvernig evrópska sléttan teygir úr sér. Hvíta línan er landamæri Rússlands. Á tímum Sovétríkjanna þegar Varsjárbandalagið var enn til náði stuðpúði Moskvustjórnar til Póllands þar sem Karpatíufjöllin veita skjól í suðri og auðveldara er að verja Pólland en vesturlandamæri Rússlands.

Eftir valdarán Bolsévika og upprisu Sovétríkjanna

Í kjölfar valdaráns Bolsévika og morðsins á rússnesku keisarafjölskyldunni árið 1917 varð Úkraína mjög illa úti. Bæði Rússar og Úkraínumenn þurftu að líða hræðilegar pyntingar og morð Cheka (síðar NKVD og enn síðar KGB) og hefur það tímaskeið verið nefnt Rauði Óttinn (e. the Red Terror) þar sem milljónir manna voru myrtar og milljónir sendar í Gulag þrælavinnubúðirnar.

Frá 1932-33 tóku ráðamenn Sovétríkjanna þá ákvörðun að svelta Úkraínumenn til hlýðni og tóku allan mat frá bændum með hervaldi. Þetta varð til þess að 10 milljónir manna sultu í hel. Þetta hefur verið nefnt Holodomor. Þetta var svo skelfilegt að þegar hersveitir Hitlers komu til Úkraínu var þeim tekið fagnandi. Enn í dag líta margir Úkraínumenn á Þjóðverja sem frelsishetjur.

Eftir fall Sovétríkjanna

Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur mynduðust 15 ný ríki úr fyrrum Sovétríkjunum. Þar á meðal Úkraína og Rússland. Bæði ríkin urðu gjörspillt og eru þau mun fátækari en önnur Austur-Evrópulönd. Svo virtist sem að Rússland ætlaði að verða góði nágranninn sem seldi gas og olíu til nágrannaríkja sinna og styrkja þannig viðskiptasambönd sín. Það reyndust síðan vera klækjabrögð Alexanders Dugin, hugsjónamanns Kremlin, til að gera nágrannaríkin sem og önnur Evrópulönd háð Rússlandi. Dugin gefur bækur sínar út opinberlega og má nálgast þær á netinu. Ein sú frægasta sem hefur ræst eins og spádómur er Foundations of Geopolitics: The Geopolitical Future of Russia en þar ræðir hann hugmyndir sínar um hvernig má gera Rússland að stórveldi að nýju. Þess má geta að hann hefur talað fyrir því að útrýma Úkraínumönnum taki þeir ekki upp rússneska sjálfsmynd. Hversu mikil áhrif hefur Dugin innan Kremlin er ekki vitað með vissu, en hann er alls enginn furðufugl sem ekki á að taka alvarlega. Þvert á móti þá lesa leiðtogar rússneska hersins bækur Dugins og ekki að ástæðulausu.

Innlimun Krímskaga

Það var svo árið 2014 þegar málaliðar á snærum Kremlin tóku Krímskagann með hervaldi. Þeir héldu síðan kosningar og kusu íbúar Krímskaga að ganga inn í Rússneska Sambandsríkið með miklum meirihluta. Eftir það hafa samskipti ríkjanna tveggja verið hatrömm og er nú að stigmagnast.

Hvernig stríð í Úkraínu myndi hafa áhrif á matvælaframleiðslu

Úkraína er gífurlega frjósamt land. Megnið af jörðinni er svokölluð svört mold (e. black soil).

Á þessu korti má sjá hvernig svarta moldin í Evrasíu teygir sig.

Þetta kort sýnir hvar frjósama svarta moldin er í Úkraínu. Hún er að mestu í héruðunum þar sem Rússar mynda meirihluta.

Þetta er Köppen-Geiger loftslagskort af Evrópu. Hér má sjá loftslag Úkraínu og suður-Rússlands þar sem svarta moldin liggur. Ljósblái liturinn syðst í Úkraínu táknar Dfa og hinn blái liturinn í Úkraínu táknar Dfb en það táknar voturt meginlandsloftslag sem einkennist af hlýjum sumrum en köldum og blautum vetrum. Sama loftslag er í miðríkjum Bandaríkjanna, Ontario í Kanada og norð-austurströnd Bandaríkjanna.

Þetta loftslag og svarta moldin mynda kjöraðstæður fyrir landbúnað. Af þessu leiðir að Úkraína er brauðkarfa.

Hér er kort af hveitiframleiðslunni í Úkraínu:

Úkraína er í 8. sæti yfir lönd sem framleiða mesta hveitið í heiminum (atlasbig.com).

Hér er kort af byggframleiðslunni í Úkraínu:

Úkraína er í 4.sæti yfir lönd sem framleiða mesta byggið í heimi (atlasbig.com).

Hér er kort af sólblómaframleiðslunni í Úkraínu:

Úkraína er í 1. sæti yfir lönd sem framleiða mestu sólblómin í heiminum (atlasbig.com).

Hér er kort af maísframleiðslunni í Úkraínu:

Úkraína er í 5. sæti yfir lönd sem framleiða maís (atlasbig.com).

Hér er kort af repjuframleiðslunni í Úkraínu:

Úkraína er í 8. sæti yfir lönd sem framleiða mestu repjuna í heiminum (worldatlas.com).

 Af þessum kortum má sjá að einungis meirihluti maísframleiðslunnar er í vesturhlutanum en repjuframleiðslan skiptist ca. jafnt á milli úkraínska og rússneska hlutans.

Ef að það kemur til stríðs og ef að Rússar taka yfir rússnesku héruðin þá munu landbúnaðarvörurnar ekki skila sér á markaði vegna viðskiptabanns sem sett yrði á Rússland. Það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir allan heiminn þar sem Úkraína framleiðir stóran part af öllum nauðsynjalandbúnaðarvörum.

Áhrif stríðs í Úkraínu myndi hafa afleiðingar um allan heim

Miðillinn Haaretz segir:

Egyptaland flytur inn 24% af öllu sínu korni frá Úkraínu. Líbanon flytur inn 50% af öllu sínu korni frá Úkraínu. Ísrael flytur inn meira en 50% af öllu sínu korni frá Úkraínu.

Þetta stríð myndi skapa vargöld í Mið-Austurlöndum sem myndi þar af leiðandi styrkja hættulegar ógnarsveitir þar og fólk myndi streyma þaðan til Evrópu.

Samkvæmt spá landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna (U.S. Department of Agriculture) mun Úkraína sjá fyrir 12% alls hveitiútflutnings í heiminum og framleiða 16% af maís, 18% af byggi og 19% af repju heimsins árið 2022. Komist þessar vörur ekki á markaði víðs vegar um heim mun verða geigvænleg verðhækkun á nauðsynjavörum.

Stríð í Úkraínu myndi því hafa keðjuverkun um allan heim.

Hvernig stríð í Úkraínu myndi spila í hendur óligarkanna

Stríð í Úkraínu myndi óneitanlega hækka matvælaverð um allan heim. Stríð í Úkraínu myndi því gefa óligarkíunni hið fullkomna yfirskin: Þeir munu auðveldlega geta réttlætt aðgerðir til að taka yfir matvælaframleiðslu í Vesturheimi. “Do not let a good disaster go to waste” er hugsunarhátturinn hjá valdhöfum. Þeir munu ekki láta þetta tækifæri fara til spillis. Í öllum tilvikum mannkynssögunnar hefur einokun ríkis á matvælaframleiðslu leitt til hungursneyðar. Besta dæmið um það er saga Rússlands og Úkraínu.

Það áhrifaríkasta sem við getum gert ef til stríðs kemur er að huga að byggingu hliðarhagkerfis. Við megum ekki vera háð valdhöfum. Sagan sýnir að það er hættulegt.

Pistlahöfundur kýs að skrifa undir nafninu Fabíus Maxímus.

One Comment on “Bróðurstríð í Úkraínu: Yfirskin til að taka yfir matvælaframleiðslu í Vesturheimi?”

  1. Því miður, en helmingur þessarar greinar er áróðursskáldskapur – það er að segja – lygi að endurskrifa söguna.

Skildu eftir skilaboð