Fer bensínlítrinn í 300 – 400 krónur?

frettinPistlarLeave a Comment

Jóhannes Björn Lúðvíksson skrifar:

Verðbólgan hefur nýlega verið að fara úr böndunum víða um heim. Innrásin í Úkraínu og viðskiptahöftin sem fylgdu í kjölfarið eiga — ef einhvers konar sátt næst ekki á næstu dögum — eftir að stigmagna vandann. Ég er ekki að segja að fórnin sem í þessu felst sé ekki þess virði heldur bara að benda á hugsanlegar afleiðingar.

Rússland er þriðji stærsti olíuframleiðandi heims og þetta er markaður sem hefur undanfarið og fyrir innrásina verið undir mikilli pressu. Viðskiptabönn heimsins gegn landinu, þar sem Rússar svara með sínum viðskiptabönnum, gátu varla komið á verri tíma á olíu- og gasmarkaði. Hver olíutunna er þegar komin í yfir 100 dollara og jarðgas hækkaði um 30% á Evrópumarkaði síðasta fimmtudag.

Rússland er líka þriðji stærsti nikkel framleiðandi jarðar, en fjölgun rafbíla hefur nú þegar gert efnið vermætara. Landið er önnur stærsta uppspretta heimsins á platínum og framleiðir 40% af öllu palladíum á markaðinum. Þessir málmar eru mjög mikilvægir í alls konar tækniframleiðslu.

Það fylgja því óþægindi þegar ríki er útilokað frá SWIFT kerfinu, en þar sem þetta er upplýsingakerfi en ekki greiðslukerfi (veitir upplýsingar um hvar og hvernig skuli gera upp skuldir, en engar beinar greiðslur eru framkvæmdar) þá stöðvast ekki öll viðskipti. Þau verða tímafrekari og framkvæmd upp á gamla mátann; menn blása rykið af gamla faxtækinu og senda tölvupóst.
En einn þáttur viðskiptabannsins virðist við fyrstu sýn vera frekar glannalegur og gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í framtíðinni.

Rússneski seðlabankinn er kominn í viðskiptabann og gjaldeyrisforði landsins hefur að stórum hluta verið frystur. Þjóðin á yfir 640 milljarða dollara í erlendum gjaldmiðlum, en 400 milljarðar dollara, sem eru geymdir hjá erlendum seðlabönkum hafa verið settir í frost! Ef þessu verður haldið til streitu eiga afleiðingarnar eftir að verða frekar skrautlegar - og ekki aðeins í rússneska hagkerfinu. Seðlabankinn getur ekki lengur bjargað bönkum sem lenda í tímabundnum greiðsluerfiðleikum, sérstaklega viðskiptavinum sem eiga gjaldeyrisreikninga. Margir erlendir bankar og peningafyrirtæki, sérstaklega franskir og ítalskir bankar, eiga eftir að tapa háum upphæðum. Ítalski UniCredit bankinn, sem dæmi, rekur fjölda útibúa um allt Rússland.

Eins og málin standa hangir bankakerfi heimsins rétt á horriminni, skuldir kerfisins miðað við raunverulega framleiðslu hafa aldrei verðið meiri og þetta er því alls ekki rétta augnablikið til þess að grafa undan tiltrú almennings á peningakerfinu. Og hver getur treyst kerfi þar sem seðlabankar frysta innistæður?

Skildu eftir skilaboð