Pútin: allt eða ekkert

frettinPistlar1 Comment

Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari skrifar:

Í Úkraínudeilunni ætlar Pútín sér allt eða ekkert. ,,Allt" þýðir hér stríðsmarkmið Rússa, sem fela í sér forræði yfir Úkraínu beint eða óbeint. ,,Ekkert" þýðir stríð með kjarnorkuvopnum - steinöld fyrir Evrópu.

Stríð Rússa í Georgíu árið 2008 tók 12 daga. Í framhaldi rússneskur friður, þ.e. forræði Rússa. Úkraína er mun stærra land en Georgía. En á fimmta degi átaka er höfuðborgin umkringd. Án höfuðborgar er stjórnsýslan lömuð. Þótt styrkleikahlutföllin séu Rússum hliðholl, um 1,2 milljón manna her á móti 200 þús. Úkraínumönnum, er ekkert gefið í þessu stríði, fremur en öðrum.

Vesturlönd veita Úkraínu vopn en ekki hermenn. Vopnin auka manntjón en breyta ekki styrk á vígvelli. Til að ná landsvæði og halda þarf mannskap.

Ef Rússar hafa undirbúið sig fyrir stríðið sæmilega, þeir hafa haft átta ár til þess, munu efnahagslegar refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir ekki hafa teljandi áhrif næstu vikur og mánuði.

Eina ófyrirséða atriðið sem gæti brotið innrás Rússa á bak aftur er vilji úkraínsku þjóðarinnar að berjast. Enn er ekki hægt að dæma um stríðsvilja almennings. Fréttir berast af fádæma fórnfýsi en líka flótta karlmanna á herskyldualdri í átt að vesturlandamærum Úkraínu. Stjórnin í Kænugarði bannaði karlmönnum á aldrinum 18-60 ára að yfirgefa borgina. Borgin er umkringd. Ef íbúarnir berjast til síðasta blóðdropa er aldrei að vita um úrslit.

Forseti Úkraínu hefur fallist á friðarviðræður. Það er veikleikamerki. Á meðan friðarviðræður standa yfir koma Rússar sér betur fyrir í landinu og stækka hernámssvæði sitt. Friður í skugga rússneskra vopna er uppgjöf.

Pútín telur Úkraínudeiluna snúast um tilvist Rússlands. Zelenskí forseti er tilbúinn að semja um tilvist Úkraínu. Nokkur munur þar á.

Í sumum stríðum eignast sigurvegarinn heimsveldi, Rússland-Úkraína yrði orkuheimsveldi. Sá sem tapar missir allt, veldi sitt og ríki. Úkraínustríðið er þannig stríð. Þegar til mikils er að vinna - og tapa - hætta menn öllu, jafnvel heimsfriðnum.

One Comment on “Pútin: allt eða ekkert”

  1. Það tapa allir í þessu stríði, það er búið að skemma samskipti á milli Rússlands og Evrópu með þessu stríði sem mun taka áratugi að laga. Ekkert Evrópuríku mun treysta Rússum. Friðaviðræður eru ekki veikleikamerki, það eru litlar líkur á samkomulagi en aldrei veikleikamerki að gefa friði möguleika.

Skildu eftir skilaboð