Tesla bifreið ónýt eftir að hafa keyrt ofan í poll

frettinInnlendarLeave a Comment

Tesla fyrirtækið ber ekki ábyrgð á tjóni sem verður þegar Tesla bifreið er ekið í vatn sem er dýpra en 20 sentímetrar samkvæmt ábyrgðarskilmálum. Þetta segir Hafþór Pálsson, sem varð fyrir því að glæný Tesla skemmdist þegar hann ók ofan í poll nú á dögunum.

Hafþór, sem hefur átt nokkra rafbíla, bæði frá Nissan og Tesla, segir málið vekja spurningar um það hvort Tesla bifreiðar þoli akstur við íslenskar aðstæður.

Atvik voru þau að bifreiðin var að koma af Sæbraut og upp slaufuna í átt að Ártúnsbrekku þegar hún fer í poll í hægri beygjunni. Ekkert gerðist fyrst um sinn en skömmu síðar „deyr bíllinn“ að sögn Hafþórs og það kemur upp villumelding um að ekki sé nægt rafmagn á bílnum til að styðja allar aðgerðir.

„Síðan reyni ég allt til að koma honum í gang aftur og sirka 40 mínútum seinna kemur melding um að 12 volta batteríið sé ónýtt og það verði ekki fleira gert. Og þá slökknar alfarið á bílnum; þá deyr hann alveg,“ sagði Hafþór í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.

Varnarbúnaður eyðilagði aðalrafhlöðuna

Hafþór útskýrir bilunina sem svo að yfirleitt sé það þannig með rafbíla að ef eitthvað bilar þá tengist það í flestum tilvikum 12 volta batteríinu, sem sér flestum búnaði bifreiðarinnar fyrir rafmagni.  Aðalrafhlaða bifreiðarinnar sér til þess að knýja bifreiðina sjálfa.

Úr því sem komið var sá Hafþór sér ekki annað fært í stöðunni en að láta draga bifreiðina á verkstæði. Greining stóð yfir í um sólahring en í ljós kom að 12 volta batteríið var ekki ónýtt eftir allt saman.

Hins vegar hefði komist raki inn að aðalrafhlöðunni, sem varð til þess að varnarbúnaður Teslunnar rauf tenginguna við rafhlöðuna, með þeim afleiðingum að hún eyðilagðist.

Hafþór segist fyrst hafa fengið þau svör hjá Tesla á Íslandi að það væru allar líkur á að um væri að ræða ábyrgðatjón sem hann fengi bætt. Það breyttist hins vegar þegar á leið og tæknimenn og lögmenn erlendis vildu meina að ekki væri um ábyrgðatjón að ræða.

Hafþór sem var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun, situr því uppi með milljóna króna tjón sem hann tók að láni og ónýtan bíl sem Hafþór keypti nýjan í desember síðastliðnum á 8.5 milljónir kr. Hann segist einnig hafa heyrt af þremur öðrum Teslum sem skemmdust við sömu aðstæður hér á landi að undanförnu.

Visir greindi frá.

Skildu eftir skilaboð