9 ástæður til að nota eplaedik

frettinPistlar1 Comment

Heilsupistill eftir Guðrúnu Bergmann:

Eitt fyrsta náttúrulyfið sem ég byrjaði að nota var eplaedik. Þá var í ég tæplega tvítug og hafði lesið bókina LÆKNISDÓMAR ALÞÝÐUNNAR en höfundur hennar D.C. Jarvis mælti með því ásamt hunangi við nánast öllum kvillum í mannslíkamanum.

Síðan eru liðin mörg ár og ég hef prófað ótal náttúrulegar leiðir til að ná bata eftir útbruna eða til að viðhalda góðri heilsu – því ég hef sveiflast frá því að hugsa vel um mig og yfir í það að gleyma sjálfri mér í of mikilli vinnu og brenna þá upp orku líkamans.

Í dag er ég góðu jafnvægi bæði líkamlega og andlega og lít svo á að ég njóti betri heilsu og líkamlegs styrks, en ég gerði fyrir þrjátíu árum síðan.

AFTUR Í EPLAEDIKIÐ

Það sem hefur breyst í framleiðslu á eplaediki fyrir hinn almenna markað frá því að ég var að nota það fyrir margt löngu síðan er að hægt er að kaupa hrátt eplaedik, sem hvorki hefur verið síað né gerilsneitt. Það þýðir að „móðirin“ er enn í edikinu, en í móðurinni er klasi af prótínum, ensímum og nytsamlegum bakteríum – sem í öðrum tilvikum hverfa í framleiðsluferlinu.

Þannig eplaedik frá Omega Nutrition er ég að nota núna og ég er ekki bara að blanda því saman við vatn til að drekka eða búa mér til afeitrunardrykk, heldur nota ég það líka í „dressingu“ út á salatið mitt í bland við ólífuolíu. Það er eitthvað sem ég hef ekki gert áður, en það bragðast svo dásamlega að ég held að það verði fastur liður í framtíðinni.

HVAÐ GERIR EPLAEDIK FYRIR OKKUR?

Máttur eplaediks sem náttúrulyfs hefur ekki dvínað með árunum, þótt önnur efni hafi rutt sér inn á markaðinn og skyggt aðeins á eplaedikið. Í eplaedikinu er ediksýra, svo best er að halda sig við að nota einungis 1 msk í glasi af vatni þrisvar á dag. En hvers vegna ættum við að nota það?

1 – KEMUR JAFNVÆGI Á BLÓÐSYKURINN

Virkni eplaediks til að viðhalda eðlilegu blóðsykurmagni er eitt af því sem hefur hvað mest verið rannsakað. Eplaedik virðist geta aukið insúlín næmi, en insúlín er það hormón sem sér um að flytja sykur úr blóðinu út í vefina, sem nota hann sem orku. Of mikið magn af insúlíni getur leitt til insúlín viðnáms, sem leiðir til þess að blóðsykur hækkar og afleiðingin getur orðið sykursýki.

2 – STUÐLAR AÐ ÞYNGDARTAPI

Þetta orkar aðeins tvímælis, en samhliða því að taka inn eplaedik og breyta um mataræði og lífsstíl er hægt að léttast. Eplaedik eitt og sér dregur þó ekki úr líkamsþyngd, en það styrkir ýmsa starfsemi líkamans sem getur stuðlað að aukinni brennslu.

3 – LÆKKAR KÓLESTERÓL

Kólesteról er fitulíkt efni sem getur hlaðist upp í æðunum og leitt til þess að þær þrengjast og harðna. Mikið kólesteról í blóði leggur aukið álag á hjartað sem gerir það að verkum að það þarf að leggja meira á sig til að dæla blóði um líkamann. Eplaedik getur stuðlað að betri hjartaheilsu með því að lækka slæma kólesterólið og hækka það góða.

4 – LÆKKAR BLÓÐÞRÝSTING

Hár blóðþrýstingur hefur neikvæð áhrif á hjartavöðvann og veikir hann. Eplaedik hefur góð áhrif á blóðþrýstinginn, lækkar hann og stuðlar að viðhaldi á sterku og öflugu hjarta. Aðrar góðar leiðir til að lækka blóðþrýsting eru að taka inn magnesíum og kalíum og auka trefjamagn í fæðinu.

5 – DREGUR ÚR BAKFLÆÐISEINKENNUM

Bakflæði verður þegar fæðan sem neytt er, flæðir aftur til baka upp í vélindað og veldur ógleði og brjóstsviða. Oft tengjast þessi einkenni of litlu magni af magasýrum en með því að taka inn 1-2 msk af eplaediki í fullu glasi af vatni fyrir máltíð og auka þannig sýrumagnið í maganum, er hægt að draga úr líkum á bakflæði.

6 – STYRKIR ÁSTAND ÞARMAFLÓRUNNAR

Með því að nota hrátt eplaedik er hægt að styrkja örveruflóru þarmanna með vinsamlegum bakteríum, sem styrkja meltingarkerfið, styrkja ónæmiskerfi líkamans og auka niðurbrot og upptöku á næringarefnum. Með því að taka inn 2 msk af eplaediki á dag og neyta annarra  gerjaðra fæðutegunda eða nota gerjuð bætiefni, styrkirðu ástand hennar enn frekar.

7 – KEMUR JAFNVÆGI Á pH GILDI LÍKAMANS

Þótt eplaedik sé súrt þá er sýran í því fyrir neðan 7 í pH gildi og því virkar það basískt eða alkalíserandi á líkaman og stuðlar því að jafnvægi á pH gildi eða sýrustigi hans. Tvær til þrjár msk af eplaediki á dag geta því hjálpað þér að halda jafnvægi á pH gildi líkamans.

8 – STUÐLAR AÐ AFEITRUN

Þar sem eplaedik stuðlar að jafnvægi á pH gildi líkamans, örvar það útskilun úr sogæðakerfinu og eykur blóðflæði, sem þýðir að gott er að nota það þegar afeitra á líkamann – einkum ef það safnast mikill bjúgur á fótleggi, sem bendir til þess að það séu stíflur í sogæðakerfinu. Hægt er að vinna á því með því að setja 1-2 msk af eplaediki í glasi af vatni nokkrum sinnum á dag – eða blanda sér þennan Afeitrunardrykk:

1/2 lítri af heitu vatni
2 msk eplaedik frá Omega Nutrition
½-1 tsk engiferduft frá Kryddhúsinu eða nokkrar sneiðar af engifer
¼ tsk kanill frá Kryddhúsinu
örlítið af cayenne pipar frá Kryddhúsinu
2 msk af sítrónusafa úr lífrænt ræktuðum sítrónum
1 tsk af hreinu hunangi til að sæta drykkinn örlítið

Öllu hrært saman og afeitrunardrykkurinn er tilbúinn. Gott er að drekka hann heitan/volgan, en einnig má drekka hann kaldan.

9 – GOTT VIÐ EYMSLUM Í HÁLSI

Ef maður er eitthvað slappur eða með eymsli í hálsi er gott að draga fram eplaedikið og fá sér 1-2 msk í glasi af vatni. Eplaedikið er býr yfir fullt af bakteríudrepandi eiginleikum og getur róað hálsinn og komið manni í gírinn á ný.

MEIRA UM EIGINLEIKA EPLAEDIKS

Þótt ég hafi hér að ofan talið upp níu ástæður til að nota eplaedik eru þær mun fleiri, meðal annars sú að gott er að sýra grænmeti í eplaediki. Svo eru hér nokkrar til viðbótar, því fyrst hægt var að skrifa heila bók um eplaedik – er hægt að skrifa langa grein um það.

Hægt er að nota eplaedik til að vinna á bólum í andliti með því að bera eplaedik á bólurnar með bómull. Hægt er að losa sig við vörtur með því að bera edikið á vörturnar og setja plástur yfir.

Hægt er að losa sig við árstíðabundið ofnæmi með því að drekka eplaedik nokkrum sinnum á dag. Hægt er að nota eplaedik sem náttúrulegan svitalyktareyði með því að setja smá af því á fingurna og nudda í handarkrikann. Og hægt er að fá aukinn gljáa á líflaust hár með því að búa sér til hárskol úr eplaediki og ef því er nuddað vel í hársvörðinn dregur það líka úr flösu:

UPPSKRIFTIN ER:

1/8 bolli eplaedik með „móður“ frá Omega Nutrition
3/4 bolli soðið kælt vatn
10 dropar ilmkjarnaolía með sítrónu (lemon)
10 dropar ilmkjarnaolía með rósmarín (rosemary)
glerflaska eða glerílát

AÐFERÐ:

1 – Setjið eplaedikið í glerflöskuna
2 -Bætið vatninu í flöskuna, setjið tappann á og hristið vel saman.
3 -Bætið ilmkjarnaolíunum út í flöskuna. Hristið hana aftur svo allt blandist vel saman.
4 – Setjið í hárið eftir þvott og nuddið vel inn í hársvörðinn.
5 – Skolið með köldu vatni til að fá bestu úrkomuna.

Ástæðan fyrir því að skolað er með köldu vatni er að það lokar hársverðinum og hárendum og útkoman verður glansandi og rakaríkt hár.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þú getur skráð þig á PÓSTLISTANN til að fá reglulega greinar um náttúrulegar leiðir til að styrkja heilsuna.

Neytendaupplýsingar: Þú færð eplaedikið frá Omega Nutrition í Mamma Veit Best á horni Dalbrekku og Auðbrekku í Kópavogi og á Njálsgötu 1 í Reykjavík.

Myndir: CanStockPhoto / tashka 2000/bhofack2/edu1971

Heimildir: www.draxe.comwww.organicfacts.net

One Comment on “9 ástæður til að nota eplaedik”

Skildu eftir skilaboð