Nýtt kjarnorkuver Finna tafðist og Bill Clinton tafði þróun kjarnorkuvera

thordis@frettin.isErlent, Ingibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Eftir Ingibjörgu Gísladóttur:

Nýjasta kjarnorkuver Finna, Olkiluoto 3, er loksins farið að framleiða rafmagn og ætti að sjá þeim fyrir 14% af raforkuþörf sinni um mitt sumar þegar það verður komið í fullan 1.6 gígavatta rekstur. Upphaflega átti það að koma í gagnið 2009 en hönnunarerfiðleikar og lögsóknir hafa tafið fyrir, sem útskýrir að hluta að það reyndist þrefalt dýrara en upphaflega stóð til. Það eru liðin nær 15 ár frá því kjarnorkuver var síðast gangsett í Evrópu.

Enn deila menn um hvort raforkuvinnsla með kjarnorku sé umhverfisvæn eður ei og hvort slík orka eigi að flokkast sem græn. Olkiuoto 3 er þriðju gerðar kjarnorkuver en fjórðu gerðar verin eiga að geta nýtt sér kjarnorkuúrgang til orkuframleiðslu og ættu því að geta talist svo. Það kemur ekki oft upp í umræðunni en 1994 voru kjarnorkuverkfræðingarnir við Argonne í Bandaríkjunum í startholunum við að byggja frumgerð slíks vers en Bill Clinton og þáverandi orkumálaráðherra, Hazel O´Leary, afturkallaði leyfi þeirra.

Bill Clinton tafði þróun umhverfisvænna kjarnorkuvera

James Hansen, sem hafði mætt fyrir Bandaríkjaþingi 1988 og lýst áhyggjum sínum af manngerðri hlýnun jarðar segir frá þessu í bók sinni "Storms of my Grandchildren" (2009). Hann segir að Enrico Fermi hafi sett fram hugmyndina að háhraða kjarnakljúfi. Þeir geti brennt um 99% úraníumsins og afgangurinn verði aðeins geislavirkur í nokkur hundruð ár. Fljótandi natrín sem bráðnar við um 98° C hafi trúlega átt að nota til kælingar og þar sem ekki þurfi að geyma það undir þrýstingi sé engin sprengihætta.

Í bók sinni segir Hansen að ekki aðeins hafi vísindamönnunum við Argonne verið sagt að hætta við verkefnið heldur einnig að minnast ekki á það opinberlega. Hann er helst á því að opinberir embættismenn treysti um of á lobbýista sem þykjast hafa sérþekkingu (en hver borgar lobbýistunum?). Hvaða ráðgjafa skyldi sænska stjórnin hafa haft er hún lokaði tveim starfhæfum kjarnorkuverum fyrir nokkrum árum og hverjir ráðlögðu Þjóðverjum að loka öllum kjarnorkuverum sínum (þeim síðustu á að loka á þessu ári) og öllum kolaverum fyrir 2038, samkvæmt Euronews? Efast má um að þeir ráðgjafar er mæla með lokun allra kjarnorkuvera án þess að önnur orka sé tiltæk hafi hagsmuni þjóða sinna í fyrirrúmi.

Sumir sem voru alfarið á móti kjarnorkuverum hafa þó séð ljósið. John Kerry sem var sammála Bill Clinton um að bygging nýrra kjarnorkuvera væri óþörf og óæskileg hélt ræðu við MIT háskólann þann 9. janúar 2017 þar sem hann sagði að teknu tilliti til þeirra áskorana er loftslagsbreytingar biðu upp á og þeirra framfara sem hafa orðið í þróun 4. gerðar kjarnorkuvera þá ætti tæknigeirinn að stökkva á vagninn.

Skildu eftir skilaboð