Samskipti Bill Gates við Jeffrey Epstein áttu þátt í skilnaði Gates hjónanna

frettinErlent, InnlendarLeave a Comment

Melinda Gates hefur sagt að samband fyrrum eiginmanns hennar, Bill Gates, við Jeffrey Epstein hafi átt þátt í skilnaði þeirra Gates hjóna.

Epstein fannst látinn í ríkisfangelsi í New York 10. ágúst 2019, 66 ára að aldri. Á þeim tíma beið hann réttarhalda vegna mansals og fjölda grófra kynferðisbrota gegn ólögráða stúlkum á Manhattan og í Flórída á árunum 2002 til 2005.

Hann hafði neitað sök og sagt var að hann hafi hengt sig í fangaklefanum.

Í sínu fyrsta opinbera viðtali frá því að hjónin tilkynntu um skilnað í fyrra, útskýrði Melinda að þó ýmislegt hefði stuðlað að skilnaði hennar við Bill, hefðu samskipti hans og fundir með Epstein einnig átt sinn þátt.

Í samtali við CBS útskýrði hún: „Það var ekkert eitt, það var margt. En ég var ekki hrifin af fundum hans með Jeffrey Epstein.“

„Ég gerði [Bill] það ljóst,“ sagði hún og bætti við að hún hefði líka hitt Epstein, sem hún lýsti sem „illum manni.“

„Ég hitti Jeffrey Epstein líka einu sinni, ég vildi sjá hver þessi maður væri. Og ég sá eftir því frá því að ég gekk inn um dyrnar. Hann var andstyggilegur. Hann var illur. Ég fékk martraðir um það eftirá bara svo þú vitir, mig verkjaði í hjartað yfir þessum ungu konum, þannig leið mér. Og hér er ég, bara eldri kona. Guð minn góður, hvað ég vorkenni þessum ungu konum hræðilega. Þetta var hræðilegt,“ sagði Melinda.

Þegar Melinda var spurð að því hvort Bill hefði haldið áfram að hitta Epstein eftir að hún lýsti áhyggjum sínum og vanþóknun á honum, neitaði hún að ræða það frekar.

„Öðrum spurningum um samband Bills og Epstein verður Bill að svara,“ sagði hún. „En ég sagði það hreint út hvað mér fyndist um hann.“

Bill Gates hefur margoft sagt að hann sjái eftir því að hafa hitt Epstein þegar hann var í fjáröflunarverkefnum fyrir stofnun sína.

Á Dealbook ráðstefnu The New York Times 6. nóvember 2019 sagði Gates: „Ég gerði mistök, þetta var dómgreindarbrestur hjá mér, ég hélt að þessar umræður myndu leiða til milljarða dollara framlags fyrir heilbrigðismál á alþjóðavísu.“

„Og hann fékk ávinningu af samtökunum. Þannig ég gerði tvöföld mistök þarna,“ bætti Gates við.

Í fyrra sagði Bill Gates, í vðtali við sjónvarpsstöðina CNN, að hann hafi snætt nokkra kvöldverði með Epstein fyrir um það bil 10 árum, árum eftir að Epstein hafði verið dæmdur sekur fyrir vændi með ólögráða stelpum.

Epstein játaði sekt sína árið 2008 og sat 13 mánuði í gæsluvarðhaldi.

Gates sagði að þeir tveir hefðu rætt möguleikann á að safna milljörðum dollara fyrir góðgerðarstarfsemi en að slitnað hefði upp úr sambandi þeirra eftir að ljóst var að ekkert yrði úr því.

Heimild.

Skildu eftir skilaboð