Eigandi grínmiðilsins Babylon Bee neitar að knékrjúpa fyrir Twitter – tilnefndi Rachel Levine mann ársins

thordis@frettin.isIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Bandarísku grínistarnir á Babylon Bee - Fake News You Can Trust - hafa enn einu sinni komist upp á kant við Netrisana. Í New York Post og fleiri miðlum mátti lesa þann 21. mars að Twitter hefði bannað þeim að senda frá sér tvít þangað til þeir eyddu nýlegu tvíti um að þeir hefðu ákveðið að tilnefna transkonuna Rachel Levine, sem er aðstoðarheilbrigðisráðherra í stjórn Bidens, mann ársins. Þeir hrósuðu Rachel fyrir hugrekki, það væru ekki allir karlar sem þyrðu að ganga í hefðbundnum kvenfatnaði, hvað þá ef þeir gengdu valdamiklum embættum og þóttust ekki skilja af hverju hann hefði valið sér þetta nafn fyrir nokkrum árum. Upphafið að þessu gríni var að USA Today hafði tilnefnt Rachel konu ársins ásamt öðrum, þar á meðal Kamölu Harris varaforseta sem er að vísu kona en er ekki talin sinna embætti sínu vel.

Eigandi Babylon Bee, Seth Dillon, hafnar því hins vegar í viðtali á Fox News að eyða gríninu. Hann segir meðal annars að starf þeirra sé að benda á veika bletti í hinni opinberu orðræðu. Það geri þeir en þeim séu settar hömlur. Reglunum sé breytt svo þeir geti ekki gegnt því starfi sínu. Með reglum um hvað má eða má ekki grínast með þá sé satíran svipt broddi sínum. Tucker Carlson svaraði: „Ef ekki má grínast með að einhver náungi þykist vera kvenkyns aðmíráll, með hvað má þá grínast?“ Í mótmælaskyni var næsta frétt The Bee um að trans-og sundkonan Lea Thomas hefði lent í vandræðum í lyfjaeftirliti því í ljós hefði komið að hún væri með eistu og framleiddi því árangursbætandi efni.

Enginn með skopskyn hjá Facebook?

Netrisarnir hafa lengi verið Babylon Bee óþægur ljár í þúfu. Forsvarsmenn grínsíðunnar hafa efast um að fólkið hjá Facebook hafi neitt skopskyn því að færri og færri póstar fái náð hjá þeim og séu ekki skuggabannaðir. Deseret News segir frá því að frétt frá The Bee hafi verið dreift meira en 355.000 sinnum á Facebook er hún var birt 2019 en er hún var endurbirt 2021 þá fengu aðeins stjórnendur síðunnar að sjá hana. Í þeirri grínfrétt var gert grín að árásum á karlmennsku og bar hún titilinn „Minnst karlmannlega þjóðfélag í veraldarsögunni telur karlmennsku vaxandi ógn.“

Nýlega hefur Facebook svo tekið staðreyndatékkara í þjónustu sína (fjármagnaða af Facebook að hluta) og hafa þeir gefið The Bee umsögn eins og um alvöru fréttastofu væri að ræða. Nýlega gáfu þeir t.d. út þá umsögn að grínfréttin um að Joe Biden hygðist selja Rússum Alaska, svo að aftur mætti leita þar að olíu væri röng. Hinn 18. mars skrifaði Dillon: „Gríninu okkar hefur vissulega verið eytt af Facebook. Okkur hefur verið hótað með því að fá ekki að afla okkur tekna gegnum síðu okkar og með því að verða hent út. Okkur hefur verið sagt að brandarar okkar hvetji til ofbeldis og brjóti reglur um hatursorðræðu. En Facebook vill ekki koma hreint fram og segja að þeir vilji losna við okkur. Í stað þess þá útvista þeir því starfi að stimpla okkur sem falsfréttamiðil.“

The Bee hefur því gefist upp á að gera Netrisunum til hæfis og treystir á framlög frá lesendum sínum. Það er hark að halda út grínmiðli þessa dagana, eða vera grínisti yfirleitt, eins og Dave Chapelle og fleiri hafa fengið að kynnast.

Skildu eftir skilaboð