Verður dauði Yvans Colonna til að íbúar Korsíku fái heimastjórn?

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Eftir Ingibjörgu Gísladóttur:

Mögulega sjá íbúar Korsíku fram á stjórn eigin mála eftir meira en 50 ára baráttu, eins og meirihluti þeirra vill. Þeir krefjast þess að fá að ráða hvernig skattlagningu á Korsíku sé háttað, vilja hafa meiri áhrif hvað atvinnuástand á eyjunni varðar (segja það verra en á fastalandinu) og bætt staða korsísku, tungumáls eyjarskeggja, er einnig til umræðu. Hinn 2 mars varð Yvan Colonna, einn af þekktari föngum Frakklands, fyrir líkamsárás í fangelsi á fastalandinu og lést af völdum hennar. Þjóðernisinninn Colonna afplánaði lífstíðardóm ásamt öðrum fyrir að myrða héraðsstjóra 1998 og varð frægur fyrir að leynast í 5 ár sem geitahirðir á eynni en margir stuðningsmenn hans hafa barist fyrir því að hann yrði látinn laus eða fengi að dvelja í fangelsi á Korsíku, nærri sínum nánustu. Á Radio France International má lesa að nefnd Öryggisstofnunarinnar hafi mælt með flutningi hans 2020 en forsætisráðherra Frakka, Jean Castex, hafi ógilt þá ákvörðun.
 Sagður hafa móðgað spámann Allah
Það var jíhadisti sem réðist á Colonna er hann var við æfingar í íþróttasal fangelsisins. Í árás er stóð yfir í 8 mínútur barði Franck Elong Abé (sem kom upphaflega frá Kamerún) hann og reyndi að kæfa hann með ruslapoka og handklæðum. Við yfirheyrslur sagði Abé að Colonna hefði gerst sekur um guðlast og hæðst að Múhammeð spámanni. Á Libération má lesa að Abé, sem hefur franskan ríkisborgarrétt, hafi verið handtekinn í Afganistan 2012 þar sem hann veitti hópi Talíbana forstöðu og sendur til Frakklands þar sem hann fékk 9 ára fangelsisdóm. Stuðningsmenn Colonna eru því bæði reiðir yfir því að flutningi hans heim var hafnað og því hve léleg öryggisgæsla var í þessu öryggisfangelsi og ásaka franska ríkið um að hafa drepið hann. Iðulega mátti heyra "Statu Francese assassinu" (Franska ríkið er morðingi) á mótmælafundunum.
Viðbrögð frönsku stjórnarinnar hafa verið að reyna að lægja öldurnar eftir margra daga óeirðir með grjótkasti og bensínsprengjum, enda forsetakosningar í næsta mánuði. Franski innanríkisráðherrann, Gérald Darmanin, kom til Korsíku og sagði að París gæti boðið Korsíku stjórn eigin mála og Macron forseti sagði að sú hugmynd væri ekki lengur tabú. Íbúar Korsíku eru um 350.000 og ættu að geta stjórnað sér sjálfir, rétt eins og við.

Skildu eftir skilaboð