182 spítalainnlagnir vegna aukaverkana bóluefnanna – 42 vörðuðu lífshættulegt ástand

ThordisInnlendarLeave a Comment

Á síðu Lyfjastofnunar kemur fram að stofnuninni hafi til dagsins í dag borist 6135 tilkynningar um grunaðar aukaverkanir eftir Covid bólusetningar, þar af 290 alvarlegar en alvarleg aukaverkun er skilgreind sem: aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla hjá mönnum.“

Af þessum alvarlegu aukaverkunum hefur verið tilkynnt um 36 andlát og 182 spítalainnlagnir, þar af 42 tilfelli sem vörðuðu lífshættulegt ástand.

Alvarlegar aukaverkanir í kjölfar örvunarsprautu eru 22 til og með loka janúar 2022. Tölur fyrir febrúar liggja ekki fyrir segir í tilkynningu Lyfjastofnunar.

Þá kemur fram að fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukaverkanir og alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetningar í aldurshópnum 5-11 ára séu alls 12 og þar af er engin alvarleg en í aldurshópnum 12-15 ára eru 44 tilkynningar, þar af fjórar alvarlegar.

Samkvæmt upplýsingum á  Covid.is hafa 76% barna í aldurshópnum 12 -15 ára fengið tvær sprautur en aðeins 33% í hópnum 5-11 ára.

Aukaverkanir af Covid bóluefnum og öðrum lyfjum á að tilkynna hér á síðu Lyfjastofnunar.

Sjúkratryggingar bæta tjón vegna bóluefnaskaða

Hér á landi voru sett lög um bætur vegna bóluefnaskaða um það leyti sem COVID bólusetningar hófust.

Sjúklingatrygging bætir tjón þeirra sem fá bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19 sjúkdómnum á árunum 2020-2023 með bóluefni frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum.

Skilyrði bótaskyldu er að tjón megi að öllum líkindum rekja til bólusetningar gegn Covid-19 sjúkdómnum og að tjónið nái lágmarki bóta samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu.

Samkvæmt svari Sjúkratrygginga við fyrirspurn Fréttarinnar, fyrir u.þ.b þremur vikum, höfðu Sjúkratryggingum borist 27 umsóknir um bætur, ein umsókn hafði verið samþykkt en engin greiðsla farið fram.

Skildu eftir skilaboð