Félagsprófkjöri stolið – hvað gerðist í prófkjöri Miðflokksins?

frettinInnlendar2 Comments

Eftir Jóhannes Loftsson verkfræðing:

Í janúar í ár hafði manneskja úr Miðflokknum samband við mig, og spurði hvort ég hefði áhuga á að ganga til liðs við flokkinn fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. En gengi flokksins í skoðanakönnunum hafði fram að því verið vonbrigði fyrir flokksmenn því það stefndi í að mikið átak þyrfti til að ná bara inn einum manni.

Þetta þótti mér áhugaverð uppástunga, því meiri líkur eru á að ná árangri sameinaðir en sundraðir í litla hópa. Ég melti þessa uppástungu í nokkurn tíma, og ákvað svo vegna tengsla minna við Ábyrga Framtíð að fara mjög varlega og lét Miðflokksfólk vita af því að ég mundi ekkert aðhafast fyrr en eftir fund með áhrifafólki í flokknum til að sanna fyrir mér að um raunverulegt ákall væri að ræða eftir að ég slægist í lið með þeim. Í því viðtali útlistaði ég m.a. nákvæmlega hver stefnumál mín yrðu í borginni og voru viðbrögðin velþóknun þess sem viðtalið tók þar sem þau samræmdust að fullu stefnu Miðflokksins. Það var ekki fyrr en eftir þann fund að ég ákvað að gefa kost á mér í prófkjörinu og gekk í flokkinn.

Vegna stærðar þeirra lausna sem ég var með á vanda borgarinnar, var útilokað annað en að ég mundi þurfa að sækjast eftir fyrsta sætinu, því til að ná árangri hefði kosningabarráttan þurft að snúast um lausnirnar. 4. mars bauð ég mig því fram gegn sitjandi oddvita, Vigdísi Hauksdóttur. Viku síðar tilkynnti hún að hún ætlaði að stíga til hliðar og hætta í stjórnmálum. Í Kastljósviðtali 10. mars þegar hún fjallaði um afsögn sína, sagði hún svo að hún styddi annan frambjóðanda, sem þá var þó ekki búinn að senda inn framboðstilkynningu sína.

Frá því ég gekk í Miðflokkinn og fór að kynnast fólkinu þar, sá ég strax að þar átti ég mjög mörg skoðanasystkyni sem höfðu flest mikinn áhuga á þeim lausnum sem ég var með á vanda borgarinnar. Það er nefnilega aldrei líklegt til árangurs byggja stefnu gagnrýni einni saman, því til að afla fylgir þarf fólk að vita hvert skal stefna og stefnan að vera jákvæð. Skýrar úthugsaðar lausnir sem hrífa fólk og það veit að virkar eru leiðin til þess.

Samhliða vel heppnuðum kynningum sem ég var með fyrir félagsmenn var ég hvattur til að fá fleira fólk til að ganga í Miðflokkinn. Síðustu helgi gerði ég átaki í því og náði að fá milli 50-100 manns til að skrá sig í flokkinn. Mér þótti það mjög ánægjulegt því það sýndi að það var stuðningur við mínar hugmyndir langt út fyrir raðir miðflokksins.

Félagsprófkjöri stolið

Nú veit ég lítið hvað gerðist bak við tjöldin, enda ekki sérlega vanur svona innanflokkspólitík og lítt gefinn fyrir baktjaldamakk. En atburðarrásin sem hófst um kvöldið eftir að framboðsfrestur rann út var ansi sérstök.

Klukkan hálf ellefu um miðvikudagskvöldið sem framboðsfrestur rann út barst mér tölvupóstur frá stjórn flokksins þar sem sagt var að lög flokksins krefðust ýmissa ítarupplýsinga um að engin tengsl væru milli mín og Ábyrgrar Framtíðar. Mitt mat þegar ég sá þessar kröfur stjórnarinnar var að þær væru ólögmætar að hluta (fékk það staðfest í lögfræðiáliti Arnar Þórs Jónssonar hrl. daginn eftir). Ég brást þó við eins hratt og ég gat, en var þó aðeins bundinn að því að ég þurfti að fara í steinbrjótsaðgerð á Landspítalanum á fimmtudagsmorgun, en náði samt að senda gögn sem ég taldi fullnægjandi klukkan 14:00 á fimmtudeginum, sem sönnuðu úrsögn mína úr Ábyrgri Framtíð og frá ábyrgðarstöðum. Síðar sendi ég á stjórnina alls konar staðfestingu á móttöku skattsins, borgun Ábyrgrar Framtíðar fyrir úrvinnslu tilkynning um breytingu á stjórn og staðfestingu skattsins á að breyting á skráningu raunverulegra eigenda hefði verið afgreidd.

Eina atriðið sem tengdi mig enn við Ábyrga Framtíð í lok föstudags 25. mars var að heimilisfang Ábyrgrar Framtíðar var áfram heimilisfangið mitt. Eiginkona mín er hins vegar meðstofnandi Ábyrgrar Framtíðar og því hrein fjarstæða að krefjast slíks, enda er ekkert minnst á slíka kröfu í lögum Miðflokksins.

Annað sem kom dálítið flatt upp á mig í samskiptum við stjórnina, var að túlkun þeirra á lögunum var sífellt að breytast og sífellt nýjar ástæður dregnar fram fyrir höfnum þegar svör mín bárust. Eina lögfræðiálitið á hvort túlkun þeirra á lögunum var rétt eða rangt var lögfræðiálit míns lögfræðings Arnar Þórs Jónssonar hrl. á meðan stjórnin virtist spila túlkun laganna eftir eigin höfði. Miðað við álit Arnar Þórs stóðust ákvarðanir stjórnar hvorki lög flokksins né landslög.

Eins kom fram í samskiptunum að beiðni mín um inngöngu í Miðflokkinn, að Miðflokkurinn hefði aldrei afgreitt umsóknina, þrátt fyrir að mánuður var liðinn frá því ég sótti um aðild og ég væri að sækjast um að verða oddviti. Ef ástæðan fyrir því að afgreiðslu hafi verið frestað var vegna slíkra bókhaldskrafna, því í ósköpunum var ekki heft samband við mig fyrr?

Ég get því ekki með nokkru móti séð annað en að þessi gjörningur stjórnar Miðflokksins sé í senn ólögmætur og gerður með ásetningi til að komast hjá því að halda félagaprófkjör um oddvita.

Í samskiptum mínum við Miðflokkinn hef í einu og öllu komið hreint fram enda voru öll stefnumál mín voru kynnt áður en ég tók ákvörðun um að fylkja með þeim liði. Ekkert sem ég hef sagt eða gert ætti því að hafa komið neinum á óvart, nema kannski sú velvild og eldmóður sem ég fann strax fyrir hjá mörgum Miðflokksmönnum þegar þeir kynntust mér og mínum lausnum. Ég tel mig því hafa verið svikinn, sem og stuðningsfólk mitt í Miðflokknum sem vildi félagakjör, og stuðningsfólk mitt sem gekk í miðflokkinn í góðri trú um að eðlilega yrði staðið að málum.
Augljóst er að Miðflokkurinn þarf að skoða sín mál og stjórn flokksins sem ber ábyrgð á þessum inngripum er vart stætt að mínu mati. Þetta inngrip eru að mínu mati í senn aðför að lýðræðinu og félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég tel ólíklegt að ég sé einn um þessa skoðun innan Miðflokksins því tveir frambjóðendur hættu við framboð sitt í gærkvöldi eftir að þessi málsmeðferð stjórnar miðflokksins var gerð kunnug.

Fundur á Hótel Kríunesi 

Þær undirtektir sem lausnirnar mínar fengu innan og utan Miðflokksins standa þó eftir. Það gleymist stundum að í því lýðræðiskerfi sem við búum í er það fólkið sjálft sem á að ráða en ekki ósýnilegar hendur sem stýra stjórnmálaflokkum bak við tjöldin. Þetta vald getur fólk samt endurheimt ef það vill.

Mig langar því að boða þá sem vilja sjá alvöru lausnirnar raungerast, til fundar á Hótel Kríunesi næsta miðvikudag 30. mars klukkan 19:45. Ef stjórnmálaflokkarnir sem fyrir eru komnir með óþol fyrir lýðræðinu, þá þurfum við kannski bara að gera þetta sjálf. Allir velkomnir.

2 Comments on “Félagsprófkjöri stolið – hvað gerðist í prófkjöri Miðflokksins?”

  1. Áhugarverð grein hjá þér Jóhannes og segir margt um pólitíkina og enn meira um Miðflokkinn. Takk fyrir að upplýsa okkur um þetta og gangi þér vel.

  2. Þessi grein Jóhannesar Loftsonar er varla svara verð. Ef þú uppfyllir ekki lagaákvæði flokks vegna framboðs verður sá hinn sami að ganga úr skugga um að svo sé. Þegar Jóhannes skilaði inn framboði til 1.sætis í Reykjavík var hann skráður sem framkvæmdastjóri Ábyrgrar framtíðar og stofnandi og , vel að merkja b,t aðili þess stjórnmálaafls.. hversu lágkúrulegt er það að kenna Miðflikksfólki um eigin handvöm. Jóhann setti sér sjálfur stólinn fyrir dyrnar og verður að una eigin mistökum. EN LÉLEGT ER YFIRKLÓRIÐ

Skildu eftir skilaboð