Hættulegustu og öruggustu löndin fyrir konur – Úkraínubúar forðast Svíþjóð

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Samtökin Safety Detectives gefa árlega út skýrslu um hvaða lönd séu hættulegust fyrir konur og einnig er metið hver séu öruggust. Ný skýrsla er komin út og fjallar tímaritið Forbes um hana.

Samtökin tóku saman gögn frá 78 löndum um tíðni glæpa er beindust gegn konum og hversu góða lagavernd þær hefðu. Japan var metið öruggast, Pólland kom næst og Bosnía Herzegóvína var í þriðja sætinu. Egyptaland var ofarlega en skýrsluhöfundur, Melissa Haun, bendir á að skráningu glæpa gegn konum gæti verið ábótavant þar. Suður Afríka var metin hættulegust (eins og 2019) en Svíþjóð vermdi annað sætið - já Svíþjóð - og El Salvador það þriðja. Bandaríkin voru númer sjö á listanum yfir hættulegustu ríkin. Samkvæmt skýrslunni þá verður ein af hverjum þrem bandarískum konum fyrir líkamlegu ofbeldi, nauðgun og/eða eftirliti eða eftirför af hendi maka - og talan er jafnvel enn hærri fyrir lesbíur, þær er hneigjast að báðum kynjum, transkonur og konur er flokkast sem litaðar. 

Ýmsar upplýsingar fylgja greininni í Forbes. Þar má t.d. sjá að 81% franskra kvenna hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á almennafæri og 54% þeirra finni til ótta er þær ferðist með almenningssamgöngum. Helmingur landa í Mið-Austurlöndum og N-Afríku er ekki með lög um heimilisofbeldi. Í Íran eru 5-6% stúlkna yngri en 15 ára þegar þær ganga í hjónaband en lágmarksaldur þar er 13. Enginn lágmarksaldur er í Jemen.

Ótti við glæpagengi og félagsmálayfirvöld í Svíþjóð
Slæmt orðspor Svía er staðreynd. Fjölmiðlar þar segja frá því að flóttamenn frá Úkraínu séu tregir til að leita hælis þar, þeir hafi frétt að glæpagengi stjórni landinu og skotárásir séu tíðar. Í frétt í sænska útvarpinu er einnig sagt frá ótta þeirra við að sænsk félagsmálayfirvöld taki af þeim börnin.
Trúlega er mál Dmitry Lisov þeim í fersku minni. Dmitry er Rússi og bjó í Svíþjóð ásamt konu og þrem dætrum á aldrinum 4 til 12 ára. Er kona hans veiktist og var lögð inn á geðsjúkrahús 2017 þá voru dætur hans settar í fóstur hjá fjölskyldu frá Líbanon í stað þess að hjálpa honum að sjá um þær. Er hann var orðinn vonlaus um að fá þær aftur heim þó hann hefði enn forræði yfir þeim þá fór hann með þær til Póllands og sótti þar um hæli. Sænsk yfirvöld voru ekki sátt og lýstu eftir honum - vildu fá stúlkurnar aftur - en í Varsjá minntu lögfræðingar á að börn hefðu sín réttindi og það væri þeim ekki í hag að vera sendar aftur til Svíþjóðar. Sendinefndin sænska fór því tómhent til baka. Furðulegt mál sem vakti mikla athygli. Tass fréttastofan sagði m.a. frá því á sínum tíma, 2019.

Skildu eftir skilaboð