Fjölmúlavíl, fimbulfamb og fláræði – Lýðræði í andarslitrunum

frettinInnlendarLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Það er til margs konar lýðræði. Í hinni fornu Aþenu höfðu þeir karlar atkvæðisrétt, sem gátu varið lýðveldið, áttu sverð og skjöld. Á Íslandi bjuggu formæður og forfeður við goðalýðræði, þ.e. yfirstéttarlýðræði. Umbætur á vettvangi stjórnmála í Evrópu á miðöldum sneru fyrst og fremst að réttindum aðalsmanna gagnvart konungsveldinu.

Í sjálfstæðisyfirlýsingu bandarísku nýlendnanna í stríðinu við Bretland (1776), var aftur á móti staðhæft fullum fetum, að hver og einn þegn hefði sama, guðsgefna rétt til sjálfsvalds, sjálfræðis og lýðræðis. Í frönsku byltingunni (1789) gerði almúginn kröfur um lýðræði öllum til handa.

Innblástur var m.a. sóttur í hugmyndir upplýsingarstefnunnar síðla á sautjándu öld og þeirri átjándu, þ.e. þá sannfæringu, að stjórnun samfélagsins væri best komið í höndum borgara, sem frjálsir væru að því að leita sér upplýsinga, tækju upplýstar ákvarðanir í samfélagsskipan fulltrúalýðræðis.

Upplýsingarmenn

Svissneski heimspekingurinn, Jean-Jacques Rousseau (1712-1778), áleit þann mann frjálsan, er léti skynsemi stjórna hugsun og athöfnum, en ekki ótta eða múgsefjun. Hann byggi yfir sjálfsvaldi og sjálfræði. Það væri grundvöllur að lýðræði. Í slíku lýðræði væri lögð áhersla á menntun barna til sjálfstæðrar hugsunar, frelsis.

Franski upplýsingarspekingurinn, Charles Louis de Secondat, Baron de La Bréde et de Montesqieu (1689-1755), kenndi, að lýðræðislegt ríkisvald skyldi skiptast í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Það hefur orðið skipan mála í lýðræðisríkjum samtímans.

Hinir framsýnu upplýsingarmenn beittu sér aukin heldur fyrir því að mennta lýðinn til frelsis og lýðræðis, t.d. með útgáfu stórmerkrar alfræðiorðabókar í anda skynsemishyggju. Ritstjóri hennar var franski heimspekingurinn, Denis Diderot (1713-1784). Upplýsing, menntun, málfrelsi, jafnrétti, sjálfsvald og frelsi, eru enn ófrávíkjanlegar forsendur lýðræðis.

Lýðræði Vesturlanda

Í kringum aldamótin 1900 samþykktu þing Vesturlanda hvert á fætur öðru jafnan rétt allra til að greiða atkvæði í frjálsum, leynilegum kosningum. Vesturlandabúar státa af lýðræði sínu og telja það affararsælasta fyrirkomulag mannlífsins, sem allir jarðarbúar ættu að búa við. Samfélög okkar eru (ættu að vera) opin og frjáls.

En hver ræður samfélaginu í raun? Í samfélagsleikhúsinu er leikið bæði á forsviði og baksviði. Í því sambandi er oft talað um fjölmiðlana sem fjórða valdið. En það mætti einnig tala um „fimmta valdið,“ leyndarvaldið eða tjaldabaksvaldsið, hið heimuglega vald.

Leyniþjónustan

Leyniþjónustan er t.d. eitt stjórntækja kjörinna fulltrúa eða embættismanna. Því beita valdhafar til að stjórna þegnum sínum, njósna um þá og hafa með þeim eftirlit. Stundum er þessari starfsemi reyndar leynt fyrir kjörnum fulltrúum kjósenda. Á Íslandi eru stöðugt auknar heimildir ríkisvaldsins í þessa veru. Öflugri ríki stunda njósnir erlendis, undirróður, áróður og hernað. Nýlegt dæmi er valdarán Bandaríkjamanna í Úkraínu.

Frásagnar- og upplýsingavaldið er einnig mikilvægt valdsvið, þ.e. þegar framkvæmdarvald (og jafnvel dómsvald) og fjölmiðlar sameinast um ákveðna skyldufrásögn, opinbera rétttrúnaðarstefnu, gjaldgenga afstöðu til manna og málefna – jafnvel að viðurlögðum sektum, þvingunum, eignaupptöku, frelsissviptingu og útskúfun. Þetta ber nær daglega fyrir augu í kvenfrelsunar- og veirumúgsefjuninni.

Þekkt dæmi um refsandi múgæsing og rétttrúnað, eru ofsóknir á hendur fólki í Þýskalandi á fjórða áratugi síðustu aldar og í Bandaríkjunum, landi hinna frjálsu, um tveim áratugum síðar, þegar bækur voru brenndar og fólk ofsótt í réttarhöldum og jafnvel myrt. Um er að ræða ofsóknaskeið í sögu Bandaríkjanna, kennt við þingmanninn og lögfræðinginn, Joseph Raymond McCarthy (1908-1957).

Ofsóknarkenndin blómstraði í veröldinni í kjölfar síðasta heimsstríðs. Vestræn ríki stofnuðu flest leyniþjónustur, sum reyndar einnig herdeildir, sem skyldu berjast að baki víglínunnar, yrði gerð innrás í hlutaðeigandi land. Ítalir stofnuðu t.d. „Sverðsáætlunina“ (Operation Gladio), laumuherdeildir, sem berjast áttu gegn Ráðstjórnarríkjunum, ef svo færi, að Rauði herinn hefði mátt til frekari átaka, eftir mestu blóðtökur, sem á spjöld vígasögunnar eru skráð. Leyniþjónustur Evrópulanda og Bandaríkjanna gerðust aðiljar að þessari áæTLun.

NATO og járntjaldið

Ofsóknarkenndin náði svo hámarki með stofnun Nató (North Antlantic Treaty Organization) árið 1949, sem verja skyldi hinn frjálsa heim fyrir öreigabyltingarmönnum í austrinu. Þeir svöruðu með öðru varnarbandalagi, Varsjárbandlaginu árið 1955.

Járntjald var dregið niður milli Vesturlanda og allra hinna - og Bandaríkin vörðu, að sögn, frelsi lýðræðissamfélaga, um víða veröld, eftirminnilega í Kóreu og Víetnam. En þrátt fyrir baráttuhitann ríkti kalt stríð fram til loka níunda áratugar síðustu aldar, þegar Berlínarmúrinn féll og Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur.

En sættir og lok kalda stríðinu var því miður mýrarljós. Það sama á við frelsun nýlendnanna. Kúgunin breytti bara um yfirbragð.

Það var ekki síður barist á baksviði en forsviði. Margir þekkja, hvernig hin miskunnarlausa leyniþjónusta Ráðstjórnarríkjanna (Sovétríkjanna) studdi við ógnaröldina, sem kennd er við Joseph Vissarionovich Stalín (1878-1953). Leiðtogi hennar var ámóta alræmdur, Lavrentiy Pavlovich Beria (1899-1953).

Málamyndaréttarhöld voru áberandi bæði í austri og vestri. Þau eru enn notuð óspart eins og réttarhöldin yfir rússneska andófsmanninum, Alexei Anatolievich Navalny (f. 1976), og ofsóknir bandaríska dómskerfisins á hendur hinum ástralska, Julian Assange (f. 1971), eru dæmi um.

Fjölmiðlum mútað, CIA og NED

Skömmu eftir síðasta heimsstríð stofnaði leyniþjónusta Bandaríkjanna (Central Intelligence Agency – CIA) til „Hermikrákuáætlunarinnar“ (Operation Mockingbird), sem fólst í því að múta fjölmiðlum til hollustu við ríkjandi stjórnarstefnu og breiða út rétttrúnað. Þetta á sér í dag hliðstæðu í samvinnu stjórnvalda, auðkýfinga og fjölmiðla í sanntrúarfyrirtækjum eða -stofnunum (fact checkers).

CIA hófst einnig handa um tilraunir til að stjórna hugsun fólks, m.a. í samvinnu við sjúkrahús og háskóla. En það yrði of langt mál að fjalla um hér.

Þriðja búgrein CIA er enn þá undirróður, áróður og íhlutun í málefni fullvalda ríkja. Í stjórnartíð Ronald Reagan (1911-2004) var það tekið til bragðs að stofna nýja deild í CIA (1983), aðgerðadeild, sem þyldi dagsins ljós, eins konar „lýðræðistrúboðsdeild“ CIA (National Endowment for Democracy - NED). (Evrópusambandið hefur nú stofnað systurstofnun NED.)

NED stofnar gjarnan ýmis konar góðverkastofnanir (non-governmental organization) uppá sitt eindæmi eða í samráði við fjársterka áhugamenn eða auðkýfinga á borð við George Soros (f. 1930) eða Bill Gates (f.1955). T.d. lagði deildin gjörva hönd á undirbúning valdaránsins í Úkraínu og skipulagði kosningar hliðhollra stjórnmálamanna í samstarfi við fjölmiðla í kjölfar hennar. Þar að auki hefur NED fjármagnað sextíu og fimm verkefni önnur innan landamæra Úkraínu svo sem þjálfun aðgerðasinna og blaðamanna. Svo að þessu leyti er „Hermikrákuáætlunin“ í fullu gildi.

Útskúfunarmenningin

Segja má, að ríkjandi útskúfunarmenning sé eins konar framhald hermikrákuáætlunarinnar með innblæstri frá kunnuglegri tegund útskúfunar, þar sem heilbrigðiskerfið hefur komið við sögu, sbr. geðheilbrigðiskerfið, bæði vestan tjalds og austan. Fólk, haldið óæskilegum skoðunum, var fjarlægt, innlagt á geðsjúkrahús. Þeir óæskilegustu voru jafnvel geltir eða myrtir.

Þannig var stjórnað með skírskotun til mannbótastefnu (eugenics), sem kvað á um, að einungis þeir, sem fullnægðu viðurkenndum skilyrðum, hvað atgervi og hugsun áhrærði, ættu lífsins rétt. Þessi hugsun gengur nú í endurnýjun lífdaganna í undirbúningi að alheimsríkinu.

Útskúfunarvaldið helst í hendur við rétttrúnaðarvaldið eins og gefur að skilja. Á okkar méli er fólki gjarnan útskúfað í fjölmiðlum, jafnvel ríkismiðlum eins og RÚV, ríkistofnunum og embættum. Útskúfunarvaldið er orðið nokkurs konar dómsvald, dómsvald götunnar, sem grefur beint og óbeint undan lögmætum dómstólum. En vissulega nær rétttrúnaðurinn líka inn í merg og bein dómara og annarra opinberra starfsmanna.

Frásagnarvaldið, áróður og upplýsingaofbeldi (og bólusetningarofbeldi)

Frásagnarvaldið er áberandi á líðandi stundu, sbr. upplýsingar og umræðu um kvenfrelsun, eðli covid-19 veirunnar og aðgerðir gegn henni - og nú síðast deilur um stríðið í Úkraínu.

Áróður á vitaskuld miklu lengri sögu, en nemur sögu leyniþjónustunnar. Þegar í fyrri heimsstyrjöldinni voru ungir karlmenn t.d. ginntir til herþjónustu með þeim áróðri, að þýskir hermenn stunduðu nauðganir og dráp á börnum. Þetta endurómar nú í Úkraínustríðinu um þá rússnesku.

Í seinni heimsstyrjöldinni náðu nasistar ógnvænlegum tökum á hugsun almennings með skírskotun til fyrra óréttlætis, þjóðarsálar, sérkenna, náðargáfna, yfirburða, þ.e. sérstöðu í baráttu við skilgreindan andskota eða blóraböggul. Boðskapurinn, sem í sjálfu sér hafði fátt með staðreyndir eða sannleika að gera, var endurtekinn sí og æ, uns hann varð að rétttrúnaði. Ritskoðun, þöggun, lygar, skerðing á málfrelsi og heft flæði upplýsinga, voru forsendur þessa. Það gefur að skilja að vald og fjármagn hafi þurft til. Áttatíu árum síðar erum við í sömu stöðu.

Á tímum alþjóðahyggju, yfirþjóðlegra stofnanna og áætlunar um alheimsstjórn, verður áróðurinn alþjóðlegri. En engu að síður fylgir áróður stjórnvalda á líðandi stundu svipuðu sniðmóti og því, sem að framan er lýst. Þó er það nýlunda, að stjórnvöld, auðjöfrar og auðvaldar (oligarch), sameinist um stofnun undirróðurssamtaka undir yfirskini góðagerða eða sannleikstrúboðs eins og sést t.d. í heilaþvætti rétttrúnaðarfyrirtækjanna (fact checkers).

Ásamt stofnun slíkra fyrirtækja beita yfirvöld nú sérstökum stofnunum – eða hálfopinberum (laumu)fyrirtækjum til að beita þegna sína upplýsingaofbeldi. Það felst bæði í að hagræða boðskapi stjórnvalda og gefa villandi upplýsingar, sbr. upplýsingar um covid-19. Það er sams konar upplýsingahernaður og beitt er við undirróður utan eigin landamæra, þegar steypa skal af stóli stjórnvöldum fullvalda ríkja, sbr. undirróður og laumuhernað Breta og Bandaríkjamanna í Sýrlandi.

Þó hefur það aldrei í sögunni áður gerst, að stjórnvöld hafi beitt þegna sína vísvitandi bólusetningarofbeldi með þeim hætti sem nú er gert; þ.e. allsherjartilraun á auðtrúa almenningi með tilraunalyfjum. Í því sambandi er beinlínis raunalegt að verða vitni að því, að enn sé beitt þeirri gömlu aðferð byltingarjafnaðaramanna (kommúnista) og þjóðernisjafnaðarmanna (nasista) að fremja vísindi á hugmyndafræðilegum grunni og beita þeim í áróðri – meira að segja að falsa rannsóknir.

Þetta hefur óspart verið gert í lýðræðisríkjum nútímans, t.d. við kvenfrelsunar-, umhverfis- og veiru- og sjúkdómarannsóknir. Þær eru ýmist fjármagnaðar af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum, auðjöfrum eða fyrirtækjum/sjóðum þeirra.

Bókstafleg valdarán eru ekki ný af nálinni. Það er t.d. „sérgrein“ CIA að steypa löglegum yfirvöldum af stóli. Uppskriftin er í aðalatriðum sú sama, þ.e. að skapa ólgu, óreiðu, uppreist, mótmæli, beita ofbeldi og fjármunum. Vörumerkið eða yfirvarpið er ævinlega frelsi og lýðræði í samræmi við alþjóðstefnu Thomas Woodrow Wilson (1856-1924) forseta Bandaríkjanna, „að gera veröldina að athvarfi lýðræðisins.“

Síðustu áratugina er litskrúðinu beitt við undirróðurinn, sbr. glóaldingulu byltinguna í Úkraínu og rósabyltingartilraunina í Georgíu. Hugmyndin er reyndar ættuð frá breskum undirróðurs- og áróðursmönnum. Nellikubyltingin (carnation revolution) í Portúgal er sú fyrsta sinnar tegundar, þegar mótmælendur settu nellikur í byssuhlaup hermannanna.

Fræðilegur guðfaðir litaskrúðsbyltinganna er sálhernaðarfræðingurinn, Gene Sharp (1928-2018), sem starfaði við svokallaða „CIA deild við Harvard háskólann“ (Center for International Affairs). Í Tékkóslóvakíu var uppreisnin kölluð „Flauelsbyltingin“ (velvet), svo einnig fleiri slíkar , sem áttu sér stað innan Ráðstjórnarríkjanna.

Upplýsingastríðið

Upplýsingastríðið, samtvinnað vopnaskaki, er látlaust háð á alþjóðvettvangi. Dæmi er um þetta er „Heilindafrumkvæðið“ (integrity initiative) frá 2015, samvinna Fésbókar, Bandaríkjanna, Nató, Bretlands og fleiri um áróðursdeildir stjórnmálamanna, vísindamanna, blaðamanna og notenda samfélagsmiðla. Markmiðið er að dreifa falsfréttum um Rússland. Þetta á sér stað í Evrópusambandslöndunum, Úkraínu, Tyrklandi, Afríku og Ameríku. Á sama ári stofnuðu Bretar einnig „Stjórnkænskustofnunina,“ sem starfar á svipuðum grundvelli í Norður-Ameríku og Evrópu.

Upplýsingastríðið hefur verið í algleymingi síðustu áratugina, sbr. „Watergate“ (stuldur upplýsinga frá Lýðræðisflokknum (Demókrötum) í Bandaríkjunum), „Russiagate“ (ásakanir í garð Rússa um að hindra kosningasigur Hillary Clinton) og nú „Ukrainegate,“ opinber stjórnar- og fjármálaspilling Bidenfeðga og auðvaldins (oligarch) úkraínska, Ihor Valeriyovych Kolomoyskyi (f. 1963), og strengjabrúðu þeirra, Volodomyr Oleksandrovych Zelensky (f. 1978).

„Spilling er krabbamein,“ er það skemmtilegasta, sem hrotið hefur af vörum Joseph Biden. Honum flökrar hvorki við lýgi né hræsni eins og fleiri forsetum.

Hverjir stjórna?

Það eru fleiri en ég, sem velta því í alvöru fyrir sér, hverjir stjórni lýðræðisríkjum samtímans í raun. Stjórnmálafræðingarnir, Martin Gilens og Benjamin I. Page, álykta sem svo í grein sinni, „Prófun kenninga um bandarísk stjórnmál. Úrvalshópar, áhugamannahópar og meðal Jónar“ (Testing Theories of American Politics: Elites, Interest Groups, and Average Citizens), skrifuð á sama ári og ríkisstjórn Barrack Obama (f. 1961) stóð fyrir valdaráni í Úkraínu, þ.e. árið 2014, að fjársterkir úrvalshópar og aðrir auðmenn úr viðskiptalífinu hefðu umtalsverð áhrif á stefnumótum bandarískra stjórnvalda.

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Jimmy Carter (f. 1924) sagði á þessa leið árið 2015: Stjórnkerfið er orðið að auðvaldaræði (oligarchy, auðjöfrastjórn, fámennisstjórn), sem einkennist af skefjalausum mútum í stjórnmálum, nauðsynlegar til framdráttar þeim, sem sækist eftir útnefningu til forsetakjörs.“

Það má einnig minna á orð James Jesus Angleton (1917-1987), forstjóra Gagnnjósnadeildar bandarísku leyniþjónustunnar (CIA Counter Intelligence): „Blekking er hugarástand og hugur ríkisvaldsins.“

Grein Arnars með heimildum.

Skildu eftir skilaboð