Disney upp á kant við ríkisstjóra Flórída og foreldrafélög

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Það er undarleg deila í gangi í Flórída. Í lok marsmánuðar komst það í lög í Flórída að ekki mætti kenna börnum upp í þriðja bekk um kynhneigð og kynáttun í skólum. Andstæðingar frumvarpsins, HB 1557, hafa fullyrt að það vegi að rétti samkynhneigðra og kalla það "Don’t Say Gay" frumvarpið. Þegar Walt Disney fyrirtækið blandaði sér í málið fór þó fyrst að hitna í kolunum. Starfsmenn Disney höfðu mótmælt frumvarpinu frá 15 mars. Forstjóri Disney, Bob Chapek, lýsti yfir andstöðu við frumvarpið og hvatti ríkisstjórann, Ron DeSantis, til að hafna því. Hann lofaði einnig að beita sér fyrir því að meira yrði af LGBT tengdu efni í Disneymyndum. Foreldrafélög blönduðust næst í málið. Craig DeRoche, forseti Family Policy Alliance, gaf frá sér fréttatilkynningu um að Disney ætti að gæta að orðspori sínu og John Stemberger, forseti Fjölskylduráðs Flórída, sagði að Disney væri ekki lengur hlutlaust pólitísk séð. Þess í stað hafa þeir tekið upp vinstristefnu og hafa orðið helsti óvinur stærsta hóps viðskiptamanna sinna - foreldra með lítil börn.

Könnun á vegum blaðsins Daily Wire sýndi að 67% Bandaríkjamanna eru mótfallnir stefnu Disney. Vernda þurfi lítil börn gegn kynferðislegri innrætingu. Ron DeSantis skrifaði að sjálfsögðu undir og segist að vera að skoða stöðu Disney fyrirtækisins í Flórída. Eins og er sé það eins og ríki í ríkinu og hafi fullt skipulagsvald á sínu svæði - gæti jafnvel byggt þar kjarnorkuver. Hvernig deilan endar veit enginn. Starfsmenn mótmæla enn en hvað gerist þegar markhópurinn móðgast út af "woke" hugmyndafræði Disney og hættir að mæta. Verður LGBT lobbíistunum þá ekki settur stóllinn fyrir dyrnar?

Úti í samfélaginu eru skoðanir mjög skiptar. Eiginmaður Pete Buttigieg, samgönguráðherra, segir að með lögunum sé verið að ýta börnum aftur inn í skápinn og fullyrðir að börn muni deyja af því þau fái ekki fræðslu um kynáttun og kynhneigð í skólunum en Tulsi Gabbard, fyrrum forsetaframbjóðandi segist hneyksluð á því að lögin verndi aðeins leikskólabörn og fyrstu þrjá bekkina, slíkt sé hálfkák. Hún vill meina að slík fræðsla eigi ekki að vera á vegum hins opinbera - þvingað upp á hóp sem er skyldugur til að hlusta. Mikið sé um að nemendur komi ólæsir úr skólunum, frekar ættu þeir að einbeita sér að því vandamáli.

Skildu eftir skilaboð