Björk Jakobsdóttir leikstjóri skrifar um útilokunarmenninguna – „það eru líf í húfi“

frettinLífið, Pistlar1 Comment

Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri, skrifar pistil til þjóðarinnar um útilokunarmenninguna á facebook þar sem hún segir m.a. að hún hafi líka áhyggjur af sálarlífi drengjanna okkar, að líf séu í húfi og að við ættum að hætta að skipa okkur í lið, með eða á móti:

Elsku samlandar.

Ég skrifa eftirfarandi orð vitandi að það getur kostað mig útskúfun og bannfæringu hjá ákveðnum hópi. Hjarta mitt grætur í hvert skipti sem nýr einstaklingur er tekinn af lífi á samfélagsmiðlum. Við erum öll mannleg og ekkert okkar er fullkomið.

En af einhverjum ástæðum gerum við þá kröfu í dag; á tímum samfélagsmiðla, að enginn skuli nokkurn tímann stíga feilspor. Hvort sem það er að tjá ranga skoðun, segja óviðeigandi brandara eða gera eitthvað sem telst kynferðisleg áreitni. Mér líður stundum eins og ég sé komin í unglingadeild aftur þar sem vinsæla liðið ákveður hvern skal leggja í einelti og ef þú ert ekki sammála eða vogar þér að mótmæla þá ert þú næstur í gapastokkinn og ert gerandameðvirkur. En það er líka gerandameðvirkni að standa hjá og segja ekkert á meðan ofbeldi á sér stað á netinu. Og það á sér svo sannarlega stað ofbeldi á netinu! Og það grátlega er að það er réttlætt sem barátta gegn ofbeldi.

Á meðan dómharkan ræður ríkjum og allt fer fram í upphrópunum og útskúfun þá tökum við frá fólki möguleikann á að ræða saman og læra af mistökum sínum. Við tökum í burtu möguleika fólks að læra og bæta sig. Það er einfaldara að útskúfa en að taka erfiða umræðu. Þannig gröfum við vandamálið með cancel menningu.

Cancel menningin býður upp á einfalda lausn á svo ótrúlega flóknu vandamáli. Kynferðisbrotamál eru t.d margskonar og sjaldan einföld – sérstaklega núna þegar við erum að endurskilgreina hvað telst áreitni. Þetta vita þeir sem að hafa gengið í gegnum þá lífsreynslu. Margar konur og menn hafa upplifað einhverskonar form af áreitni eða ofbeldi, þar á meðal ég en það er stórhættulegt að leggja allar þessar upplifanir að jöfnu.

Þeir sem stunda cancel menningu á netinu og hafa mikinn áhuga á einkalífi annarra vita yfirleitt minnst um málið. Kommentakerfi, Twitter færslur og fjölmiðlar skrumskæla svo staðreyndir málsins þangað til að varla er hægt að sjá hvað það snerist um til að byrja með. Ég skil vel að áföll kalli á reiði og sársauka og öll höfum við mismunandi mörk eftir því hvernig lífið hefur mótað okkur. En ekkert vandamál í heiminum hefur nokkurn tímann verið leyst með hatri.

Morðhótanir á twitter, drusluskömmun og niðurlægjandi færslur í kommentakerfum gera ekkert gagn. Á bak við hverja fjandsamlega færslu er brotinn einstaklingur, fjölskylda og vinir sem öll munu bera ör til æviloka. Þessum herferðum er oft stýrt af ungu fólki, jafnvel unglingum. Ungt fólk er eiturklárt og hugsjónadrifið og vill breyta heiminum. Sem er frábært!.

Stundum vildi ég bara að þetta unga baráttufólk fengi lánaða smá lífsreynlsu og umburðalyndi frá okkur sem eldri erum. Því ég veit að flest ungmenni hafa ekki séð alla lífsins liti – og sjá hlutina stundum í svörtu eða hvítu.

Eftir töluverða lífsreynslu veit ég að hlutirnir eru sjaldnast svartir eða hvítir heldur eru allskonar gráir tónar til líka. Mismunandi upplifun, misskilningur, samskiptaleysi og kannski óviðeigandi hegðun sem er ekki nauðgun. Við megum ekki gjaldfella alvarlega ofbeldisglæpi með því að kalla allt nauðgun eða kynferðisafbrot.

Það er líka að mínu mati mikið á ungar sálir lagt sem vilja ræða upplifun sína að vita að það kallar á tafarlausa bannfæringu geranda. Ég er viss um að það eykur í mörgum tilfellum á andlegan sársauka og letur fólk frekar en hvetur til að opna sig. Ef við virkilega viljum hjálpa, þá ættum við að hjálpa fólki að tala saman um mismunandi upplifanir og mörk og draga af því lærdóm. Og kannski einn daginn, fyrirgefa.

Það var og er nauðsynlegt að opna þessa umræðu fyrir stúlkurnar okkar og þetta er svo sannarlega þörf umræða. En eins hrædd og við höfum verið um sálarlíf stúlknanna okkar þá er ég líka orðin hrædd um sálarlíf drengjanna okkar. Það er gríðarlega erfitt fyrir bæði stúlkur og drengi að vera útskúfuð á samfélagsmiðlum. Því fylgir skelfilegur andlegur sársauki og félagsleg einangrun. Við fullorðna fólkið verðum að hætta að tala í upphrópunum og bannfæringu því að börn læra jú það sem fyrir þeim er haft. Hættum að heimta að fólk sé í ákveðnu liði. Með eða á móti.

Lífið er svo miklu flóknara en þessi einföldun. Við verðum að finna lausn á þessu máli sem kallar ekki á stríð. Við verðum að bakka frá lyklaborðinu og læra að hlusta. Það eru líf í húfi.

Takk fyrir að hlusta á mig. Vinsamlegast förum varlega í kommentakerfunum ef það er eitthvað sem fólk vill segja.



One Comment on “Björk Jakobsdóttir leikstjóri skrifar um útilokunarmenninguna – „það eru líf í húfi“”

  1. Takk fyrir Björk að nenna. Vonandi að fleiri nenni að gera fleira en bara klappa saman lófunum og grilla.

    Virðingarverð og góð skrif.

Skildu eftir skilaboð