Járn er líkamanum nauðsynlegt

frettinGuðrún Bergmann, PistlarLeave a Comment

Eftir Guðrúnu Bergmann:

JÁRN ER LÍKAMANUM NAUÐSYNLEGT

Járn er nauðsynlegt næringarefni og eitt af nauðsynlegustu steinefnum líkamans. Þótt járn sé í öllum frumum líkamans, er mest af því í rauðu blóðfrumunum. Líkaminn þarf á járni að halda til að framleiða hemóglóbín eða blóðrauða, sem hjálpar rauðu blóðfrumunum að flytja súrefni um líkamann.

  • Járn er nauðsynlegt við framleiðslu á vöðvarauða, en það er prótín í vöðvum sem geymir súrefni.
  • Járn stuðlar að heilbrigðu ónæmiskerfi og að þroska heilans.
  • Járn stuðlar að framleiðslu á kollageni og öðrum prótínum.
  • Járn stuðlar að umbreytingu á karótíni (beta carotene) yfir í A-vítamín.
  • Járnbætiefni eru mikilvæg gegn blóðleysi (lágu magni af heilbrigðum rauðum blóðfrumum).

Flestir ættu að fá nægilega mikið af járni úr fæðunni, en járnskortur er algengasta orsök blóðleysis.

HELSTU MERKI UM JÁRNSKORT

Járnskortur er einn algengasti skortur á næringarefnum og skorturinn myndast í þremur áföngum:

  1. Uppsafnað járn eyðist og leiðir til lítils magns af ferritíni, en það er prótín sem inniheldur 20% af því járni sem finnst í þörmum, lifur og milta. Ferritín er ein helsta leið líkamans til að geyma járn.
  2. Birgðir af járni til framleiðslu á rauðum blóðfrumum eru lágar, en hemóglóbín virðist enn eðlilegt.
  3. Járnbirgðir eru uppurnar en það leiðir til blóðleysis og lítilla  blóðfrumna sem innihalda lítið magn af hemóglóbíni.

Helstu merki um járnskort eru þreyta, mæði, svimi, höfuðverkir, fölleit húð í andliti og lélegar og brothættar neglur.

Þeir sem eru líklegastir til að vera með járnskort eru konur sem eru á blæðingum, þungaðar konur og börn. Langtímanotkun á sýrubindandi lyfjum getur líka leitt til járnskorts, svo og vanvirkni í skjaldkirtli og meltingasjúkdómar.

MÍN EIGIN REYNSLA

Mig hefur mjög oft um ævina skort járn og um tíma hafði Hallgrímur heitinn Magnússon læknir á orði við mig að það þyrfti að kanna hvort ég væri með innvortis blæðingar. Svo var ekki, en meltingarkerfið var alltaf í ólagi hjá mér langt fram eftir aldri og því væntanlega um litla upptöku á járni úr fæðunni að ræða.

Ég hef því notað ýmis járnbætiefni í gegnum tíðina, en það sem ég nota núna er frá Purelife og kallast Gunderson‘s Red Iron. Ég tek 4 dropa af þessu járni 5 daga í röð í glasi af vatni, hvíli í 2 daga og endurtek svo ferlið.

Red Iron er unnið úr steingerðum jarðlögum, þar sem plöntur og steinefni hafa myndað einstakan járnríkan jarðveg. Það er 100% náttúrulegt, án sætuefna, bragðefna, litarefna, rotvarnarefna og aukaefna. Það er gerlaust, glútenlaust og mjólkurlaust, auk þess sem það er Vegan og milt í maga.

ÞÆTTIR SEM GETA LEITT TIL JÁRNSKORTS

Járnskortur getur tengst því að ekki sé nægilega mikið járn í fæðunni. Hann getur líka tengst því að fólk missir blóð, vegna þess að upptaka í þörmum (þeim hluti meltingavegar sem nær frá neðra magaopi að endaþarmsopi og skiptist í skeifugörn, smáþarma og ristil) er léleg eða vegna mikils álags hjá þeim sem stunda úthaldsíþróttir.

Þeir sem eru greindir með meltingarsjúkdóma eins og Crohn‘s sjúkdóminn eða hafa farið í þarmaaðgerð eiga járnskort á hættu, vegna þess að ekki er víst að þeir taki upp nægilega mikið af járni úr fæðunni. Sama á við um þá sem hafa farið í hjáveituaðgerð eða magaaðgerð, sem gæti leit til minni magasýruframleiðslu, en hennar er þörf til upptöku á járni sem fer að miklu leyti fram í skeifugörninni.

Um 25% þeirra sem farið hafa í hjáveituaðgerð eru með járnskort og um 12 prósent þeirra sem farið hafa í ermisaðgerð.

Grænmetisætur og vegan skortir oft járn, þar sem járn úr plöntum er ekki eins auðvelt upptöku fyrir líkamann og úr dýraafurðum.

Íþróttamenn sem stunda úthaldsíþróttir eins og maraþonhlaup og hjólakeppnir eiga á hættu að tapa járni við þá áreynslu sem þessum íþróttum fylgir. Því er mikilvægt að fyrir þá að tryggja að þeir fái nægilegt járn til að geta náð sem bestum árangri.

AUKAVERKANIR AF JÁRNBÆTIEFNUM

Sumir fá í magann af því að taka inn járnbætiefni á meðan aðrir fá harðlífi. Hjá flestum er lítil hætta á að um of mikið járn sé að ræða í líkamanum, því ef það er meira járn en líkaminn þarf á að halda geymir hann það til nota síðar.

Í stöku tilvikum getur járn hlaðist upp í líkamanum í lifur og öðrum líffærum. Slíkt getur leitt til myndunar frjálsra stakeinda sem eyðileggja frumur og vefi og auka líkur á krabbameinum.

Ekki er ráðlagt að taka járn inn á sama tíma sólarhrings og skjaldkirtilslyf eða lyf við fótapirringi, en járnskortur er oft ástæða fyrir fótapirringi.

Neytendaupplýsingar: Red Iron járnbætiefnið fæst í Mamma Veit Best á horni Dalbrekku og Auðbrekku í Kópavogi og á Njálsgötu 1 í Reykjavík.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð deildu henni þá endilega með öðrum.

Þú getur skráð þig á PÓSTLISTANN til að fá reglulega senda fræðslu um náttúrulegar leiðir til að viðhalda góðri heilsu.

Myndir: CanStockPhoto / Kataryna_Kan – og frá Purelife

Heimildir: www.verywellhealth.com

Greinin birtist fyrst á gudrunbergmann.is 27. mars 2022

Skildu eftir skilaboð