Kínverjar líkja Bandaríkjunum við Voldemort

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Í dagblaðinu Global Times, sem er á vegum kínverska kommúnistaflokksins, mátti lesa harða gagnrýni á Bandaríkjastjórn hinn 17. apríl síðastliðinn. Hún er kölluð "Voldemort" heimsins, sem hafi einsett sér að rústa núverandi heimsskipan.

Eftir að stríð Rússa og Úkraínu hófst þá hafi alþjóðasamfélaginu stöðugt orðið betur ljóst hvert hlutverk Bandaríkjanna og NATO væri í þeim átökum. Vísað er í orð Joe Bidens: Bara á einu ári eru viðskiptaþvinganir okkar líklegar til að þurrka út efnahagsumbætur Rússa síðustu 15 árinog gera Rússa að hornrekum á hinu alþjóðlega sviði, og er þau sögð uggvænleg. Í raun séu viðhorf Bandaríkjastjórnar áþekk viðhorfum Voldemorts, báðir aðilar trúa á völd, safna áhangendum, beita ofbeldi og leitast stöðugt eftir að drepa þá er veita þeim samkeppni til að viðhalda yfirráðum sínum.

Eftir að stríðið í Úkraínu braust út þá hafi Bandaríkin ekki hvatt Mosku og Kíev til friðarsamninga, heldur haldið áfram hernaðarstuðningi við Úkraínu með það að markmiði að viðhalda stríðinu og koma Rússum á kné.

Aðeins Bandaríkin hagnast

Samkvæmt  greininni þá hefur hernaðarstuðningur Bandaríkjanna við Kíev numið meira en 2.4 milljörðum USD og til viðbótar þeim stuðningi þá hafa komið fjölbreyttar viðskiptaþvinganir sem er ætlað að lama hagkerfi Rússa og hafi þeir dregið lönd Evrópu, Ástralíu, Japan, Suður-Kóreu og fleiri lönd með sér gegn Rússum.

Sumir sérfræðingar Rússa hafi spáð því að lífskjör þeirra muni verða eins og þau voru upp úr 1990 og Alþjóðabankinn spáir því að verg landsframleiðsla Úkraínu muni falla um 45.1% á þessu ári, aðeins Bandaríkin hagnist á þessu stríði. Kínverjarnir segja að viðskiptaþvinganaárátta Bandaríkjanna jaðri við brjálæði. Íran, Sýrland, Kúba, Venesúela og N-Kórea séu á listanum fyrir, allt af því að þau fylgja ekki stefnu og/eða hagsmunum Bandaríkjanna. Einnig ráðist Bandaríkin gegn fyrirtækjum sem gangi gegn hagsmunum þeirra.

Hið þýska Siemens, hið japanska Toshiba og hið franska Alstom eru nefnd. Bandaríkin hafi alltaf lagt áherslu á að alþjóðlegum reglum sé fylgt, nema það henti þeim sjálfum ekki. Skýrslur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sýni að í tveimur af hverjum þremur tilfellum brota á viðskiptasamningum séu það Bandaríkjamenn sem í hlut eigi.

Í lok greinarinnar segir að í Harry Potter bókunum séu það hroki Voldemorts og stjórnlaus þörf hans fyrir óskoruð völd sem leiði til falls hans. Heimurinn hafi þjáðst nógu lengi vegna Bandaríkjanna og það sé aðeins tímaspursmál hvenær forræðisstefna Bandaríkjanna og eyðilegging þeirra á heimsskipaninni hitti þá sjálfa fyrir.

Kínverjar virðast ekki sáttir með að heimsmarkaðskerfið sé að liðast í sundur og ef til vill grunar þá að þeir geti líka lent í viðskiptaþvingunum Vesturveldanna. Hinn 24. mars lýsti Larry Fink, forstjóri Blackrock, stærsta fjárfestingasjóðs heims (ræður yfir 10 trilljónum USD) því yfir að glóbalisminn hefði runnið sitt skeið, innrás Rússa hefði breytt öllu og nú muni menn þurfa að endurmeta hverjum sé ráðlegt að vera háðir og endurskipuleggja hvar vörur eru framleiddar og settar saman.

Global Times.

Skildu eftir skilaboð