Öflugar afstöður plánetanna

frettinGuðrún Bergmann, PistlarLeave a Comment

Guðrún Bergmann skrifar

Við eigum framundan nokkuð magnþrungna helgi og væntanlega næstu vikur og mánuði ef marka má skýringar breska stjörnuspekingsins Pam Gregory fyrir Sólmyrkva og nýtt Tungl á morgun, laugardaginn 30. apríl.

Í reynd er í gangi í heiminum núna mjög mismunandi orka, sem hefur áhrif á heimsmyndina. En skoðum aðeins hvaða plánetur eru áhrifamestar og hvaða orkutíðni fylgir þeim – því svo er það okkar að velja inn á hvaða tíðni við stillum okkur og veljum að vinna með.

VENUS, JÚPITER OG NEPTÚNUS

Föstudaginn 29. apríl myndar Venus afar sjaldgæfa þrefalda samstöðu við Júpiter á 28° í Fiskum og við Neptúnus sem er á 25° í Fiskum. Það er mjög sjaldgæft að Júpiter og Neptúnus séu í samstöðu í Fiskamerkinu, því það gerist bara á 166 ára fresti, hvað þá að Venus bætist í hópinn, sem er alveg einstakt.

Venus sem er í sinni bestu stöðu í Fiskamerkinu, Júpiter sem er hinn forni stjórnandi Fiskanna og Neptúnus sem er hinn nútíma stjórnandi þeirra – una sér öll sérlega vel í Fiskunum. Þessi samstaða þessara pláneta snýst um ást og óskilyrtan kærleika, fegurð og jafnvægi og henni fylgir fíngert skapandi andlegt næmi.

Samstaðan getur bæði haft undursamleg félagsleg áhrif og verið stórkostleg fyrir rómantík ef þið eruð opin fyrir að hleypa henni inn í líf ykkar. Orkan frá þessari samstöðu verður virk fram í miðjan maímánuð eða þangað til Júpiter fer yfir í Hrútsmerkið.

PLÚTÓ AFHJÚPAR ÝMISLEGT

Plútó tengist gjarnan völdum og valdabaráttu og af henni höfum við séð mikið undanfarnar vikur og mánuði. Þann 16. apríl síðastliðinn var fullt Tungl og eitt aðalþemað í tengslum við það snerist um VÖLD, því Plútó var í nokkuð nákvæmri 90° spennuafstöðu við bæði Sólina og Tunglið.

Föstudaginn 29. apríl stöðvast Plútó á 28° í Steingeit, til að breyta um stefnu og fara aftur á bak um sporbaug sinn. Verkefni Plútós í Steingeit, eins og reyndar í öllum merkjum sem hann fer í gegnum, er að afhjúpa skuggahliðar merkisins.

Steingeitin stendur fyrir völd að ofan, hvort sem það eru ríkisstjórnir, stórfyrirtæki, stofnanir eða einhver embætti sem telja sig hafa vald yfir almennum borgurum á einhvern hátt. Meðan Plútó fer í gegnum síðustu gráður Steingeitarinnar grefur hann af krafti upp allt sem tengist skorti á heilindum og ábyrgðarskyldu hjá þessum stjórnvöldum.

Því eru allar líkur á að uppljóstranir verði mjög áberandi á næstunni, vegna þess að orkan sem fylgir Plútó og viðsnúningi hans magnast upp af Sólmyrkvanum sem verður þann 30. apríl.

Reyndar kemur Plútó til með að vera að bora sig niður á 28° í Steingeit, allan apríl og maí og fram í síðustu vikuna í júní og beina athygli að öllu sem tengist völdum og alls konar löngu gröfnum og geymdum leyndarmálum, sem eiga eftir að koma upp á yfirborðið.

Sé litið til stöðu heimsmálanna eru því allar líkur á að við sjáum kröftuga birtingu á völdum og mikið valdatafl í heiminum þessa helgi. Við gætum einnig orðið vör við einhvers konar valdatafl í okkar eigin persónulega lífi.

HVAÐ VELJUM VIÐ?

Þann 29. apríl er fleira að gerast því Satúrnus á 24° í Vatnsbera er í 90° spennuafstöðu við Öxulnóðuna og hefur reyndar verið það allan mánuðinn. Þessi T-spennuafstaða milli Satúrnusar og Suður- (fortíðar) og Norðurnóðunnar (framtíðar) er að hvetja okkur til að vera meðvituð um VAL okkar og það hvert VALIÐ mun leiða okkur.

Við erum stödd á nokkurs konar VALPUNKTI! Við getum ekki bara gengið í svefni inn í framtíðina, heldur þurfum við að vera mjög meðvituð um það hvernig við erum að móta hana með hugsunum okkar einmitt núna.

SÓLMYRKVI Í NAUTI

Laugardaginn 30. apríl verður svo Sólmyrkvi samhliða nýju Tungli á 10° í Nauti. Myrkvum fylgir oft hið óvænta en þeir geta líka verið vendipunktar. Ef árið 2022 er hápunkturinn í breytingunum sem eru að eiga sér stað í heiminum, eru myrkvarnir á þessu ári vendipunktar innan hápunktsins og þær breytingar sem þeim fylgja hafa tilhneigingu til að vera varanlegar.

Sólmyrkvar marka yfirleitt stórt nýtt upphaf og upphaf er alltaf jákvæðara en endalok, sem gjarnan fylgja Tunglmyrkvum, en einn slíkur verður þann 16. maí í Sporðdreka. Við megum búast við að hann verði magnaður, svo ekki sé meira sagt.

Í gegnum allar þessar breytingar er gamla kerfið að hrynja eins og gömul sviðsmynd sem gengur ekki lengur og hefur tapað sínum töfrandi áhrifum.

SÓL, TUNGL OG ÚRANUS

Þessar þrjár plánetur eru í samstöðu á þessu nýja Tungli, allar í Nautsmerkinu. Úranus verður í Nautsmerkinu fram til ársins 2026 og því eru líkur á að orka hans raski (Úranus) fæðuframleiðsuferli (Nautið) okkar. Sú röskun geti staðið yfir í nokkurn tíma, svo það gæti verið ráð núna að fara að rækta eitthvað, þótt ekki sé nema í gluggakistunni heima hjá sér.

Úranus er líka pláneta uppvakningar og æðri vitundar og getur veitt okkur hærra, ferskara og nýrra sjónarhorn á hlutina sem eru að gerast í heiminum. Honum fylgir nístandi skýrleiki, auk þess sem hann er tengdur afhjúpun leyndarmála.

Miðað við þessar upplýsingar getum við átt von á róstusömum og afhjúpandi tímum framundan.

Skildu eftir skilaboð