Yfirlýsing: Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!

frettinInnlendar1 Comment

Yfirlýsing frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Seðlabankinn hækkaði meginvexti sína um 1 prósentustig í gær eða um 36% og flestir gera ráð fyrir að bankarnir fylgi í kjölfarið og hækki vexti á húsnæðislánum og öðrum neytendalánum.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna bankana á að þegar meginvextir Seðlabankans lækkuðu á síðasta ári, þá fylgdu lækkanir bankanna ekki eftir í sama hlutfalli.

Almennt hafa vextir bankanna að undanförnu verið 40%-75% hærri en meginvextir Seðlabankans. Þannig að þegar meginvextir Seðlabankans hafa verið 2,75% hafa vextir bankanna á húsnæðislánum verið í kringum 4,7% á óverðtryggðum íbúðalánum. Að undanförnu hafa vextir bankanna þannig verið um 42% hærri en meginvextir Seðlabankans.

En þá komum við að því sem gerðist, eða gerðist ekki, þegar viðmiðunarvextir Seðlabankans fóru niður í 0,75%. Þá hefðu vextir bankanna átt að fylgja hlutfallslega með og fara niður í rétt rúmlega 1% á óverðtryggðum lánum.

Vextir bankanna fóru hins vegar aldrei niður í það. Lægstu vextir bankanna á óverðtryggðum lánum fóru aldrei neðar en í 3,3%.

Það voru 340% hærri vextir en meginvextir Seðlabankans.

Þegar vextir á Íslandi voru lægstir voru þeir meira en þrefalt hærri en meginvextir Seðlabankans!

Jú þetta voru hagstæðari vextir en hafa áður sést á Íslandi, enda er það vaxtaokur sem hér hefur tíðkast fáheyrt í hinum vestræna heimi.

Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að vaxtalækkanir Seðlabankans skiluðu sér ekki til neytenda, nema að litlu leyti.

Sú staðreynd sýnir líka fram á það að bankarnir þurfa ekki, frekar en þeir vilja, að fylgja fordæmi Seðlabankans, enda var þessi „skortur á lækkunum" látinn algjörlega óátalinn af Seðlabankanum, fjármálaráðherra, Fjármálaeftirlitinu og öðrum „eftirlitsaðilum".

Neytendur eiga þessar lækkanir inni hjá bönkunum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef þeir sleppa því að lækka, geta þeir líka sleppt því að hækka.

Við krefjumst þess að bankarnir skili þessum vaxtahækkunum til sinna viðskiptavina!

Góð byrjun væri að sleppa því að hækka vexti núna þannig að álögur á heimilin hækki ekki frekar en orðið er. Framhaldið mætti svo skoða síðar.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

One Comment on “Yfirlýsing: Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!”

  1. Þetta er eins og hjá olíufélögum, þegar heimsmarkaðsverð lækkar helst útsöluverð verðið óbreytt en er hækkð strax þegar heimsmarkaðsverð hækkar.

    Seðabanki og bankar verða að gera sér frein fyrir því að þessar vaxtahækkanir sem eru þegar byrjaðar og eiga eftir að aukast á næstu misserum munu hafa alvarlegar og koma verst niður á efna minna fólki, sem er nóg af á Íslandi.

Skildu eftir skilaboð