Eftirmaður Merkel, Olaf Scholz, er ekki öfundsverður

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Það kom flestum á óvart þegar Noam Chomsky hrósaði Donald Trump í viðtali nýlega og sagði að hann væri eini þungaviktarstjórnmálamaðurinn sem leitaði diplómatískra lausna á Úkraínustríðinu í stað þess að reyna að magna það upp og framlengja það. Hann sagði að slíkar deilur leystust aðeins með uppgjöf annars aðilians, og það yrði ekki Rússland, eða með samningum.


Scholz ræddi bæði við Zelensky og Pútin

Hinn nýi kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, hafði þó reynt það. Hann settist við langborð Pútins hinn 15. febrúar og hlýddi á, samkvæmt Wall Street Journal, umkvartanir hans um útþenslustefnu NATO og upptalningu á öllum þeim vopnum sem NATO hefði komið fyrir í nálægum löndum.

Haft er eftir Scholz að breytingar á landamærum kæmu ekki til greina og refsiaðgerðir gegn Rússum yrðu harðar ef þeir réðust inn í Úkraínu. Pútin hefur þá trúlega minnt hann á Kosovo og er sagður hafa lýst fyrirlitningu sinni á leiðtogum sem láti undan þrýstingi. Hinn 19. febrúar náði kanslarinn svo fundi með Zelensky í München (staðfest af þýska þinginu eftir fyrirspurn Petr Bystron) og lagði fyrir hann tillögu um að Úkraína ætti að lýsa yfir hlutleysi og hætta að hugsa um inngöngu í NATO en vera varið af öryggissamningi milli Vesturlanda og Rússlands, sem yrði undirritaður af Biden og Pútin.

Zelensky leist ekkert á tillöguna, og samkvæmt Wall Street Journal, sagði Pútín ekki treystandi og að flestir íbúar Úkraínu vildu ganga í NATO. Hvernig Úkraína ætti að geta gengið í NATO með átta ára stríð gegn íbúum Donbass enn í gangi er þó ekki ljóst. Fyrst hefðu þeir þurft að veita Donbass sjálfstjórnarréttindi og íbúunum þar með rétt til að hafa tvö móðurmál eða þá leggja svæðið undir sig með vopnavaldi.

Eftir að Frank Steinmeier forseta Þýskalands var meinað að koma til Úkraínu þá ákvað Scholz að sama skyldi yfir þá báða ganga og afþakkaði boð þangað. Sendiherra Úkraínu í Berlín, Andrey Melnik kallaði hann þá móðgunargjarna lifrarpylsu og í framhaldinu heyrðust raddir í þinginu um að þessi stuðningsmaður nazista ætti að hypja sig heim. Samkvæmt Wikipediu lagði Melnik blómsveig að grafhýsi Stephans Bandera, í München 2015, en sá var samverkamaður nazista í seinna stríðinu og er sagður mæra Azov sveitina fyrir hugrekki.

Vandræði kanslarans eru þó rétt að byrja. Bandaríkjamenn nota eina NATO stöð sína í Þýskalandi, Grafenwöhr, gamla æfingastöð nazista, til að þjálfa úkraínska hermenn í notkun hábyssa (howitzers) sem Biden sendir þeim og þegar Þjóðverjar senda líka þungavopn og önnur stríðstól til Úkraínu þá er hætta á að Rússar líti svo á sem þeir séu aðilar að stríðinu.

ESB pressar á að þeir hætti orkukaupum frá Rússlandi en samkvæmt fréttastöðinni Deutsche Welle hafa þeir keypt 55% af því jarðgasi sem þeir nota og 34% af olíunni þaðan svo það er ekki framkvæmanlegt, a.m.k. ekki jafn skjótt og leiðtogar ESB vilja. DW hermir að hægt sé að minnka gasnotkun um 8-15% en að auka þurfi kolabrennslu til muna.

Samtök iðnaðarins í Þýskalandi eru á móti banni á Rússagasi því það geti haft óútreiknanlegar afleiðingar og margir geirar iðnaðarins hafa varað við því að fjölmörg störf í orkufrekum iðnaði gætu tapast, jafnvel varanlega. Kanslarinn er á sama máli. Eftir honum er haft í tímaritinu Fortune í apríl á þessu ári að ef gasflutningar frá Rússlandi stöðvuðust þá færi alvarleg efnahagskreppa af stað í Evrópu og milljónir starfa myndu glatast.

Einnig segir í Fortune að skyndileg stöðvun á flutningi gass frá Rússum gæti kostað þýskan efnahag 220 milljarða evra, eða um 6.5% af vergri landsframleiðslu, samkvæmt spám helstu efnahagsspekúlanta. Pútín gæti því gert Þjóðverjum stóra skráveifu með því að veita þeim það sem ESB kallar eftir, stöðvun gasflutninga frá Rússlandi.


Stríð er engin lausn segir Lula da Silva

Sumir benda á að stríðið í Úkraínu sé ekki einkamál Bandaríkjastjórnar/NATO/Úkraínustjórnar og Rússa.

Páfinn gaf nýlega út yfirlýsingu um að Zelensky og Pútin bæru báðir sök og Lula da Silva sem vill aftur komast til valda í Brasilíu fyrir Verkamannaflokkinn er sammála honum og segir í nýrri grein í vikuritinu TIME að Bandaríkin og ESB hefðu átt að fullvissa Rússa um að Úkraína yrði ekki tekin inn í NATO og vísaði til þeirra málamiðlana er gerðar voru í Kúbudeilunni 1962.

Stríð er engin lausn, er haft eftir honum, og nú lendir kostnaðurinn á okkur út af Úkraínustríðinu. Argentína og Bólivía muni einnig þurfa að borga. Þið eruð ekki að refsa Pútin. Þið eru að refsa mörgum mismunandi löndum, þið eruð að refsa mannkyninu.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, spáir þó ekki í slíkt. Hún mætti til Úkraínu fyrir nokkrum dögum og lofaði Zelensky stuðningi þar til sigur hefði unnist. Hvort hún hafi umboð til þess að lofa slíku er þó ekki öruggt.

Skildu eftir skilaboð