Magnaður almyrkvi á ofurtungli

frettinGuðrún Bergmann, PistlarLeave a Comment

Guðrún Bergmann skrifar:

MAGNAÐUR ALMYRKVI Á OFURTUNGLI

Aðfaranótt mánudagsins 16. maí verður almyrkvi á Tungi í merki Sporðdrekans. Þessi myrkvi er á fullu Tungli sem líka er ofurtungl eða blóðmáni, vegna þess hversu nálægt Jörðu Tunglið er. Áhrifanna frá þessum myrkva fór að gæta fyrir um mánuði síðan og við megum vænta þess að þeirra gæti næstu sex mánuði, svo þau ættu ekki að fara framhjá neinum.

Stjörnuspeki er byggð á tölfræðilegum líkindum, svo myrkvum og öðrum öflugum afstöðum plánetanna fylgja öldur af líkindum í um það bil sjö mánuði. Í einn mánuð áður en myrkvarnir eða afstöðurnar verða og í sex mánuði eftir að þær verða. Hlutirnir eru líklegri til að eiga sér stað nærri nákvæmum afstöðum, en þeir gerast ekki endilega alltaf þann dag sem þær eru.

Því er mikilvægt að líta á allar afstöður út frá þessum upplýsingum, vegna þess að stundum gætir áhrifa frá þeim í mörg ár, einkum ef um er að ræða ytri plánetur, sem eru lengra frá Jörðu og fara mjög hægt. Best er að líta á afstöðurnar sem ferli, frekar en áhrif frá einum ákveðnum degi eða tíma.

JÚPITER AÐ HEFJA NÝTT FERLI

Áður en ég fjalla um almyrkvann, ætla ég aðeins að fjalla um Júpiter, sem fór inn í Hrútsmerkið um miðja síðustu viku eða þann 11. maí. Fram að þeim tíma var Júpiter í Fiskunum, sem eru táknrænir fyrir hið kvenlega, hið dulmagnaða og skapandi orku. Nú þegar hann er kominn í Hrútinn er það hins vegar stríðsorkan og framkvæmdakrafturinn sem tekin er við, því Hrútnum er stjórnað af Mars en plánetan er nefnd eftir rómverska stríðsguðinum Mars.

Þetta verða því athyglisverð umskipti, sem koma til með að vara því frá 11. maí og fram til 25. október eða meðan Júpiter í Hrútnum. Hrúturinn er fyrsta merkið í stjörnumerkjahringnum og því er Júpiter að hefja nýtt hringferli, en það tekur hann 12 ár að fara einn hring um sporbaug sinn. Til að gera sér aðeins grein fyrir hvers er að vænta er ágætt að líta til baka til ársins 2010 eða 2011, þegar Júpiter var síðast að hefja ferð sína í Hrútsmerkinu.

Um það leyti var Arabíska vorið að hefjast með sinni byltingarkenndu orku, en þá var gömlum þjóðarleiðtogum sem setið höfðu við völd í langan tíma velt úr valdastólum á mjög skömmum tíma. Hvort við fáum aftur núna endurómun af Arabíska vorinu vitum við ekki, en það er alla vega byltingarkennd orka í gangi í heiminum.

JÚPITER, ÚRANUS OG ÖXULL HEIMSINS

Þar sem Júpiter er á fyrstu gráðu í einum af Kardinála merkjunum, sem eru Hrútur, Krabbi, Vog og Steingeit, er talað um að hann sé á  Öxli Heimsins –  eða leiksviði heimsins – því það sem tengist þessari gráðu í þessum merkjum er gjarnan í heimsfréttunum.

Hvað varðar einstaklinginn, þá hjálpar Hrúturinn okkar að standa fastar á okkar og stíga inn í hugrekki okkar og innri styrk. Með aðstoð Júpiters hjálpar hann okkur að finna hetjuna innra með okkur sjálfum. Hrúturinn vill skapa sitt eigið líf, svo það er spurning hvaða kafli er að hefjast í lífum okkar eða hvaða nýju ævintýri bíða okkar, því nú ýtir Hrútsorkan á okkur að stíga fram og vinna í því að láta drauma okkar rætast.

Úranus er líka með afstöðu við Öxul Heimsins og bæði Júpiter og Úranus, eru plánetur sem tengjast sannleikanum, frelsinu og framtíðinni. Orkan frá Úranus tengist líka geimnum og orkan frá Júpiter tengist ferðalögum til fjarlægra staða, svo það verður spennandi að sjá hvaða nýju brautir þessar plánetur koma til með að hjálpa okkur að ryðja.

ALMYRKVI Á TUNGLI Í SPORÐDREKA

Almyrkvinn þann 16. maí er einstaklega öflugur, því þetta er ekki bara almyrkvi á Tungli, heldur á ofurtungli eða blóðmána og þar að auki í magnaðasta vatnsmerki stjörnumerkjanna, sem er Sporðdrekinn. Áætlað er að Tunglið sé almyrkvað af skugga Jarðar frá ca kl. 04:40-05:45. Á þeim tíma verður Tunglið rautt eða jafnvel dökkrautt vegna gosefnanna sem enn eru í lífhvolfi Jarðar eftir eldgosið sem varð á Tonga fyrr á þessu ári.

Líkur eru á að þessi almyrkvi eigi eftir að breyta öllum leiknum eða vera game changer á því leiksviði heimsins sem við stöndum nú á. Til að myrkvi geti átt sér stað verður Tunglið annað hvort að vera við norður- eða suðurenda Öxulnóðunnar.

Í þessu tilviki er Tunglið við suðurendann eða Suðurnóðuna, sem er á 22° í Sporðdreka í samstöðu við Tunglið. Suðurnóðan tengist fortíð heildarinnar og snýst um að sleppa tökum á því gamla. Þar sem þessi almyrkvi er í samstöðu við Suðurnóðuna, snýst orkan um MEIRIHÁTTAR sleppingar sem væntanlega leiða til mikilla umbreytinga.

MAGNAÐUR TÍMI UPPLJÓSTRANA

Framundan er að öllum líkindum magnaður tími uppljóstrana. Suðurnóðan í Sporðdreka tengist eitrunum af öllum gerðum, mengun og svikum. Svikum sem tengjast trausti á fólki og stofnunum sem við höfum borið virðingu fyrir og treyst. Suðurnóðan í Sporðdreka tengist líka hlutum sem eru neðanjarðar, alls konar undirferli, glæpsamlegum aðgerðum, leyndarmálum hinna ríku og voldugu, stórum peningafjárhæðum, fjárfestingum, bankamálum og öðru slíku – og allt þetta grugguga er að komi upp á yfirborðið líkt og skólp sem allt í einu flýtur ofanjarðar.

Sterkur Úranus í afstöðu við Öxul Heimsins á líka eftir að draga margt fram í dagsljósið út allt þetta ár. Almyrkvinn mun standa í um það bil 90 mínútur, sem er frekar langur tími.

Landfræðilega fellur almyrkvinn yfir Suður-Ameríku, stóran hluta Norður-Ameríku, suðvesturhluta Evrópu, Afríku og mikið af Indlandshafi. Þau svæði sem myrkvinn fellur á eru yfirleitt í fréttum næstu vikur og mánuði eftir að hann verður. Það verður því áhugavert að sjá hvað kemur upp á yfirborðið.

Samkvæmt meðfylgjandi mynd nær hann líka hingað upp að suðvesturhorni Íslands. Myndin sýnir þau svæði sem líklegt er að myrkvinn sjáist verði, en hún er frá Dominic Ford sem er með síðuna In-the-sky.org.

SATÚRNUS OG ÖXULNÓÐAN

Á þessum almyrkva á Tungli er Satúrnus á 24° í Vatnsbera í T-spennuafstöðu við Öxulnóðuna, þá nyrðri á 22° í Nauti og þá syðri á 22° í Sporðdreka. Árið 2022 markar vendipunkt í því þróunarferli sem heimurinn er að fara í gengum. Myrkvar eru líka vendipunktar, því þeir marka oft þáttaskil og endalok sem verða varanleg.

Þar sem Satúrnus er með í myndinni við þennan almyrkva markar hann VALPUNKT. Orkan hans beinir þeirri spurningu til hvers og eins okkar og heildarinnar, hvort við ætlum að sækja aftur í sama gamla farið (Satúrnus) og gömlu kerfin og hlutina eins og við höfum verið vön að gera þá, með því öryggi sem vananum fylgir? Eða ætlum við að stíga inn í Vatnsberahliðina á þessari afstöðu og inn í það að skapa okkur nýja og öðruvísi framtíð?

ALMYRKVINN OG BRESKA KONUNGSFJÖLSKYLDAN

Þessi almyrkvi myndar öflugar afstöður við kort þeirra sem eldri eru í bresku konungsfjölskyldunni. Myrkvinn er í samstöðu við miðhiminn drottningar, svo nákvæmlega að það munar bara 17 mínútum að hann sé upp á gráðu og mínútu.

Miðhimininn tengist stöðu fólks og orðspori, starfi þess í heiminum og sýnileika út á við. Myrkvinn sem stendur í 90 mínútur er ekki bara tengdur miðhimni hennar, heldur líka Satúrnusi, en hann stjórnar kortinu hennar vegna þess að hún er með rísinguna í Steingeit.

Almyrkvinn  er líka í samstöðu við Sólina í korti Karls Bretaprins, en hún stjórnar kortinu hans vegna þess að hann er með rísinguna í Ljóni. Hann er líka tengdur Tunglinu í korti Andrews Bretaprins og Tunglið í stjörnukorti fólks tengist móður þess.

Sé bara horft á þessa þrjá meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar, eru kort þeirra að verða fyrir nákvæmum og mjög hörðum afstöðum á þessum almyrkva. Bendir þetta til þess að einhver umskipti séu að verða þar og nýr aðili að taka við krúnunni? Einungis tíminn getur leitt slíkt í ljós.

Skildu eftir skilaboð