Einar verður borgarstjóri

frettinPistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Að sjálfsögðu verða formlegu viðræðurnar færðar í málefnalegan búning. Allt stefnir þó í dag til þeirrar áttar að Einar verði borgarstjóri, Dagur B. formaður borgarráðs og Dóra Björt forseti borgarstjórnar. Hvað skyldi Þórdís Lóa fá fyrir sinn snúð?

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði í útvarpsþætti að morgni mánudags 16. maí að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, eini borgarfulltrúi Viðreisnar að loknum kosningum 14. maí, stæði að baki sér með Pírötum við myndun nýs meirihluta í borgarstjórn.

Í samtali við mbl.is þennan sama mánudag útilokaði Þórdís Lóa ekki meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Haft er eftir Þórdísi Lóu að hún hafi „lært í pólitík að útiloka aldrei neitt og ég held að það sé bara mjög mikil lexía.“ Viðreisn geti unnið með öllum sem vilji vinna með þeim. Mestu átakalínurnar séu við Sósíalistaflokkinn. „En aðrir flokkar (svo!), eins og Framsókn, höfum við alveg mætur á og getum unnið með, eða Sjálfstæðisflokknum.“

Þórdís Lóa kveður sér hljóðs á Facebook sunnudaginn 22. maí og segir:

„Eins og þekkt er fórum við í Viðreisn í bandalag með Pírötum og Samfylkingu fljótlega eftir kosningar, hvað varðar meirihlutaviðræður. Í því bandalagi erum við af heilum hug. Það er alveg skýrt og við leitum ekki annað... Við viljum því láta á þetta bandalag reyna með því að hefja formlegar meirihlutaviðræður með Framsóknarflokknum, sem setti Samgöngusáttmála og uppbyggingu íbúða einnig á oddinn. Með þessum fjórum flokkum næðist starfhæfur og öflugur meirihluti að okkar mati.“

Þegar þetta nýjasta frá Þórdísi Lóu er lesið er ljóst að hún meinti ekkert með því sem hún sagði 16. maí um að hún útilokaði ekki neitt. Af samstarfinu við Dag B. og píratann Dóru Björt hefur Þórdís Lóa lært þá lexíu að séu völd og áhrif innan seilingar í pólitík skipti engu að vera sjálfum sér samkvæmur.

Tjarnargatan

Af því sem Einar Þorsteinsson, oddviti framsóknar, segir um helgina má ráða að Þórdís Lóa hafi lokað hann inni með nýjustu yfirlýsingu sinni. Honum sé nauðugur sá kostur að mynda meirihluta með Degi B., Dóru Björt og Þórdísi Lóu.

Með yfirlýsingum sínum breytir Einar sér í fórnarlamb aðstæðna og viðurkennir að fyrirhugað samstarf hans til vinstri sé „ekki sú ásýnd breytinga sem ég held að kjósendur hafi verið að kalla eftir“. Framsókn ætli samt að svara lýðræðislegu kröfunni um „breytingar í borginni“ og íhuga þetta samstarf í alvöru. Spurður um borgarstjórastólinn segir Einar „ekki skynsamlegt að setja fram einhverjar kröfur, afarkosti, áður en að menn byrja að ræða um málefnin“.

Að sjálfsögðu verða formlegu viðræðurnar færðar í málefnalegan búning. Allt stefnir þó í dag til þeirrar áttar að Einar verði borgarstjóri, Dagur B. formaður borgarráðs og Dóra Björt forseti borgarstjórnar. Hvað skyldi Þórdís Lóa fá fyrir sinn snúð?

Það er broslegt að lesa ummæli eftir ónafngreindum framsóknarmönnum sem láta í veðri vaka að þessi nýi meirihluti sé þeim á móti skapi. Breytingin mikla verður Einar í stað Dags B. í borgarstjórastólnum og um hana verður sátt í Framsóknarflokknum. Í fyrsta sinn í sögu borgarinnar eygja þeir framsóknarmann á þessum stað.

Skildu eftir skilaboð