Segðu sannleikann og þú verður rekinn

frettinPistlar1 Comment

Eftir Jón Magnússon hæstaréttarlögmann:

Við í Evrópu höfum lög sem eiga að tryggja okkur mannréttindi m.a. tjáningar- og skoðanafrelsi. En ekki er allt sem sýnist. Á síðustu árum hafa öfgarnar á sumum sviðum leitt til þess, að þau sem vilja halda uppi eðlilegri umræðu um einstök mál eins og t.d. loftslagsmál, innflytjendamál,rasisma, kynhneigð og kynbreytingar o.fl. mátt þola það að vera útskúfað og þess vegna rekin úr starfi og þurft að þola "berufsverbot" sem nasistarnir beittu á sínum tíma gagnvart fólki með óæskilegar skoðanir og fól í sér að engin mátti ráða það í vinnu.

Fyrir nokkru var millistjórnandi í HSBC bankanum í Bretlandi, Stuart Kirk rekinn fyrir ummæli um loftslagsbreytingar í fyrirlestri. Í leiðara Daily Telegraph er talað um þetta sem dæmi um stofnanalegt hugleysi.

Fyrirlesturinn hét „Af hverju fjárfestar þurfa ekki að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum og þar var m.a. þetta sagt:

„Það er alltaf einhver kjáni að segja mér frá endi veraldarinnar.“

Jafnvel þó að fyrirlesarinn neitaði því ekki að vegna loftslagsbreytinga gætu borgir við sjávarsíðuna verið í hættu vegna hækkandi sjávarstöðu þá dugði það ekki til að hann héldi vinnunni vegna þess að hann sagði að hann ætlaði ekki að eyða tíma í horfa á eitthvað sem mundi ekki gerast næstu 20-30 árin.

Á einni glærunni hans stóð. „Loftslagsbreytingar valda ekki fjárhagslegri áhættu, sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Órökstuddar fullyrðingar um heimsendi eru alltaf rangar."

Þess var krafist að bankastjórn HSBC,ræki Kirk og það var gert þrátt fyrir að bankastjórnin vissi fyrirfram um efni fyrirlestursins.

Kirk bankamaður þurfti að þola stöðumissi vegna þess að hann sagði sannleikann og á sama tíma halda ofsóknir áfram gegn J.K.Rowling fyrir að segja að það séu konur sem fara á túr og þess krafist að bækur hennar séu teknar úr sölu.

Hinn nýi tími "frjálslyndu fasistanna" hefur hafið innreið sína með bókabrennum og "berufsverbot" (starfsbanni) Fólk sem er raunverulega frjálslynt og umburðarlynt þarf að rísa gegn þessari ógn. Frelsið er því miður ekki sjálfsagt það verður alltaf að berjast fyrir því.

One Comment on “Segðu sannleikann og þú verður rekinn”

  1. Kynntu þér endilega Jón hverjir eru núna að brenna og banna bækur vestanhafs, vísbending, það eru ekki Demorkratar eða vinstri menn.

Skildu eftir skilaboð